mánudagur, október 26, 2009

Erling fimmtugur, hann lengi lifi


Þegar ég gifti mig fyrir rúmum 30 árum síðan var ég ákaflega hamingjusöm ung stúlka. Ég hafði kynnst frábærum strák sem að sögn foreldra minna bauð af sér góðan þokka og það var jafn mikilvægt þá og núna, skil það samt enn betur þegar ég sjálf hef verið í sporum foreldra minna og verið kynnt fyrir tilvonandi tengdasonum mínum.
Erling hefur svo sannarlega staðið undir væntingum mínum og langt umfram það, ég er í dag enn hamingjusamari en ég var á brúðkaupsdaginn okkar, við erum svo lánsöm að vera bestu vinir, getum setið endalaust í límsófunum okkar og spjallað um allt milli himins og jarðar. Við erum meira en bara vinir hann er nefnilega sálufélagi minn og sá einasti eini sem þekkir mig betur en ég sjálf og er mjög næmur á mig og allt sem mér viðkemur. Það þýðir ekkert að segja honum eitthvað annað en satt þegar hann spyr um mína líðan og hann er óþreytandi í að gleðja mig og dekra á allan mögulega hátt.
Afkomendahópurinn stækkar sífellt og eins og áður sagði hafa tengdasynir bæst í hópinn. Dæturnar eru 4 og barnabörnin 7, elsta er 7 ára og sú yngsta aðeins eins árs. Við elskum að ferðast bæði innan lands og utan og notum hvert tækifæri til þess ásamt ótöldum dögum sem við eyðum saman í Kofanum okkar á Föðurlandi. Þess utan á Erling tvö stór áhugamál og ég er mjög ánægð með að hann sinnir þeim vel. Annars vegar er það veiðidellan, enda er það skylda hvers manns að draga björg í bú, er það ekki annars.....ekki síst á þessum kreppudögum og hins vegar er það mótorhjóladellan sem hann er svo búinn að smita mig af.
Ég er ákaflega stolt af manninum mínum, elska hann meira en hægt er að lýsa í stuttum pistli og bið Guð að leyfa okkur að eldast saman, svo við getum gengið saman inní sólarlagið, tvær krumpaðar sveskjur hönd í hönd.

1 ummæli:

Karlott sagði...

Til hamingju með ,,tilvonandi krumpuðu sveskjuna" þína, hann tengdapabba minn!
Bið einnig Guð að það megi verða orð að sönnu : )

Afmæliskveðja, Karlott