sunnudagur, mars 12, 2006

Mamma mín


Mér finnst afmælisdagar alltaf merkilegir og tilefni til að halda uppá þá eins og þeir vita sem þekkja mig. Eitt ár enn hefur bæst í lífssögu viðkomandi og því ber að fagna.

Í dag á mamma mín afmæli, fyllir 66 ár. Það er reyndar alveg ótrúlegt að þessi unglega skvísa sé orðin 66 ára. Mamma er sannkölluð ættmóðir. Hún á mörg frábær börn, tengdabörn, barnabörn og svo á hún 7 litlar langömmustelpur þótt fáir séu þeir sem trúa því að hún sé orðin langamma.

Sagt er að allt sé fertugum fært og hún sannaði það aldeilis. Þá nefnilega datt henni í hug að verða bara hjúkrunarfræðingur og lét það engin áhrif hafa á sig þótt hún væri bara með prófið úr 12 ára bekk, þá bara tæki aðeins lengri tíma að ná settu marki. Hún dreif sig í námsflokkana og með dugnaði og þrautsegju kom þetta koll af kolli. Það var svo fagran sumardag fyrir að mig minnir 20 árum að hún útskrifaðist fullnuma hjúkrunarfræðingur og hefur starfað við það síðan.

Hún sinnir heimahjúkrun og ég segi að skjólstæðingar hennar séu mjög heppnir því þolinmóðari og mjúkhentari einstakling er varla að finna og svo hefur hún einhvern veginn skynbragð til að finna strax hvernig fólki líður og mætir öllum þar sem þeir eru staddir. Það er gott því öllum finnst gott að finna umhyggju og það á jafnt við um heilbrigða og sjúka.

Mamma hefur alltaf tíma fyrir mann og nennir öllu. Þótt ég sjálf sé bæði mamma og amma þá er svo gott að finna alltaf að ég er stelpan hennar og ekkert erindi mitt er of stórt eða of lítið fyrir hana. Stelpurnar mínar leita til hennar og það er oft eins og þær séu jafnöldrur.

Þennan pistil setti á á síðuna mína fyrir ári síðan en tíminn líður svo ótrúlega hratt að mér finnst örstutt síðan ég skrifaði hann. Ég ætlaði að skrifa eitthvað til heiðurs henni mömmu minni en sá svo að þessi er alveg jafn mikið í gildi núna og fyrir ári síðan.

Elsku mamma, til hamingju með daginn og takk fyrir að vera til og vera alltaf þú sjálf.
Ég elska þig grilljón og þúsund sinnum meira en það......... Sjáumst á eftir í partýinu.....

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

æ, hvað hún mamma þín er sæt, til hamingju með hana

Nafnlaus sagði...

MIKIÐ er á sammála þér Guðrún!
Hún amma er sko algjör gullmoli og svaka skvísa.. og sæt auðtivað;)
mætti halda að við værum systur frekar en ömm-mægður;)
hehe
Hrund Erl.