fimmtudagur, mars 02, 2006

Eygló og Arna eru 25 ára í dag....


Það var í lok október árið 1980, ljósmóðirin skoðaði mig varlega eins og endranær en eitthvað fannst henni þetta ekki eins og vanalega. Ég vil senda þig suður í sónar sagði hún en á þessum tíma, þótt ekki sé lengra liðið, þá fóru konur ekki í sónar á meðgöngu nema sérstök ástæða þætti til þess.

Við Íris fórum því einn morgunn suður með Akraborginni og mamma tók á móti okkur á bryggjunni og keyrði mig upp á Landspítala.

“Þau eru tvö” sagði læknirinn við mig kornunga móðurina. “Ertu viss um að það sé allt í lagi með þig” sagði hann svo áður en hann hleypti mér út úr stofunni. Jú það var allt í lagi með mig en frétirnar voru vægast sagt óvæntar.

Mamma og Íris biðu eftir mér niðri og þegar mamma sá mig koma niður stigann, gráhvíta í framan spurði hún, eru þetta tvíburar elskan mín? Hún var ekki eins hissa og ég. Erling hringdi í mig í hádeginu og spurði frétta. Barbro vinkona kom að símaklefanum (já þið lásuð rétt, þetta var fyrir alla farsímana og við vorum ekki einu sinni með heimasíma) sem hann hringdi úr rétt á eftir og sagði mér seinna að hún hefði aldrei séð Erling svona skrítinn á svipinn áður. Allavega þá held ég að það hafi liðið mínúta áður en hann svaraði mér. Þetta var svo óvænt en um leið spennandi fréttir. Tvíburar……….

Það var síðan á Sjúkrahúsi Akraness, 2. mars 1981 að þær fæddust með fjögurra mínútna millibili, Eygló fyrst og síðan Arna. Þær voru yndislegar og það sem mest var um vert að þær voru báðar lifandi og heilbrigðar 13 marka og 51 cm.

Þær döfnuðu vel og voru rólegar svo lengi sem engir ókunnugir nálguðust þær, ef það gerðist þá heyrðist í þeim langar leiðir. Það mátti enginn t.d. hjálpa mér með þær ef ég var ein á ferð í heimsókn í höfuðborginni. Þær systur voru ekki gamlar þegar farið var að leggja ofurkapp á að vera ekki eins klæddar. Þær eru einstaklega hlátumildar og skemmtilegar og gaman að vera nálægt þeim og þær hafa svo sannarlega veitt okkur foreldrum sínum mikla gleði og fyrstu áhyggjurnar sem komu hjá lækninum forðum voru svo sannarlega óþarfar. Þær eru um margt ólíkar en samt svo mikið líkar. Þær eru mjög samrýmdar og reyndar held ég að það geti enginn skilið þetta sérstaka samband sem er á milli eineggja tvíbura.

Arna er í dag gift honum Davíð og saman eiga þau þrjár yndislegar litlar stelpur og í bili sinnir Arna húsmóðurhlutverkinu því sú yngsta er aðeins rúmlega fjögurra mánaða.

Eygló er nýbúin að skipta um vinnu og er orðin vaktstjóri hjá Nóatúni og er mjög ánægð þar. Hún stefnir síðan á að fara erlendis í haust og víkka sjóndeildarhringinn og læra nýtt tungumál.

Ég held að þetta verði fyrsti afmælisdagurinn sem þær eyða ekki saman því afi hans Davíðs er nýdáinn og í dag keyra þau norður fjölskyldan til að vera við útförina.

Elsku krúttin mín, innilega til hamingju með daginn ykkar, ég er stolt af ykkur og elska ykkur meira en orð fá lýst. Eigið frábæran afmælisdag og ég hlakka til veislunnar……..

6 ummæli:

Íris sagði...

Til hamingju með skvísurnar!! Þær eru þvílíkir gleðigjafar inn í alla fjölskylduna!! ÉG hlakka líka til veislunnar ;)
En líka til hamingju með kílóin 5,5 ;) Þetta mjakast í rétta átt!!!

Nafnlaus sagði...

Hæ, hæ og takk fyrir æðislega skemmtilegan afmælispistil. Gaman að lesa hann. Ooooog takk aftur fyrir gjöfina sem ég fékk frá þér og pabba í gær... Ég er svoooo ánægð... Sjáumst svo á mánudag eða þriðjudag, ég er komin í sæluna í sveitinni hjá tengdó:):) Þín Arna

Nafnlaus sagði...

Hæ sæta mamma mín og takk fyrir skemmtilegan pistil! Svo gaman að lesa svona minningar um okkur Örnu, og þegar þú fréttir að þið ættuð von á okkur!! Takk fyrir að vera alltaf æðisleg og alltaf að hugsa fyrir manni :) Þú ert sko besta mamma í öllum heiminum og miklu meira en maður gæti nokkurn tímann óskað sér! Loov U, þín dóttir Eygló :)

Kletturinn sagði...

Innilega til hamingju með þetta allt og að egia þessar frábæru dætur. Guð blessi ykkur

Ella Gitta sagði...

Til hamingju með stelpurnar og vigtina... þú ert sko að standa þig þvílíkt vel!!! Ég er stolt af þér!

Íris sagði...

Innilega til hamingju með daginn!! Vonandi var hann svaka góður!!
Sjáumst ;)