fimmtudagur, apríl 19, 2007

Gleðilegt sumar

Flottir molar

Það kom í ljós á páskadag að dætur mínar höfðu skilið vísbendingar mínar varðandi konfektið og mér var færður fallegur kassi með mjög flottum konfektmolum í.
Þær höfðu farið í Konfektbúðina og sagt konunni hvað væri mitt uppáhald og saman settu þær girnilega mola í kassa og fallegur borði settur utan um þetta allt. Mér fannst svo mikið varið í þetta, þær eru alger yndigull þessar fjórar stóru stelpur sem ég á.
Páskadagurinn var mjög skemmtilegur eins og við var að búast nema kannski helst að Erling fann enn mikið til í “holunni” en Petra frænka kom aftur og sótti hann og fór með hann útá stofu og setti deyfiefni í og honum leið miklu betur eftir það.

Ég var búin að taka frí á þriðjudegi eftir páska og ætlaði svo sannarlega að njóta þess að lengja þessa fríhelgi aðeins. Hins vegar gerðist það á páskadag að ég var að beygja mig niður og bara festist í bakinu, fékk í fyrsta sinn það sem kallast þursabit. Mér finnst samt miklu flottara nafnið sem hún Kata mágkona mín fann þegar hún var að vorkenna mér við Tedda að hafa fengið svo slæmt hrossabit í bakið, hahahahaha.

“Frídeginum” eyddi ég sem sagt í góðum félagsskap vinkvenna minna í Desperate housewife og það kom sér vel að vera með sjónvarp í herberginu því ég fór varla fram úr rúmi fyrstu dagana.



Pabbi minn átti afmæli á annan í páskum, varð 68 ára gamall og af skiljanlegum ástæðum gat ég ekki sett neitt inn á síðuna mína þann dag um hann. Pabbi er einstakur og mér þykir mjög vænt um hann. Hann hefur reynst mér og mínu fólki afskaplega vel enda er hann með eindæmum greiðvikinn maður og ber mikla umhyggju fyrir sínu fólki. Eftir að við fluttum á Selfoss hefur hann ósjaldan hringt og athugað með hvort við höfum ekki örugglega komist heil á höldnu á milli staða og hann fylgdist líka vel með okkur þegar Ölfusá flæddi yfir bakka sína í miklu flóði í desember sl. Ég vil nota þetta tækifæri og óska honum til hamingju með daginn um daginn. Pabbi minn, ég elska þig mikið.

Í dag er svo sumardagurinn fyrsti og sumarið heilsaði okkur með frosti en það á víst að boða gott ef vetur og sumar frýs saman. Við Erling ásamt Hrund og Örnu fórum aðeins á Föðurlandið á Fitinni í dag, kominn timi til að sýna stelpunum notalega kofann okkar enda höfðu þær ekki komið þangað síðan um verslunarmannahelgi. Við erum sem sagt búin að hafa það virkilega notalegt í dag.

Á morgun ætla ég að taka mér frídag enda er ég ekki enn búin að ljúka við að horfa á alla þættina sem ég á um vinkonur mínar við Bláregnsslóð. Þær eru skemmtilegar.
Við Erling eigum svo von á góðum gestum annað kvöld og helgin verður viðburðarrík að venju.

Gleðilegt sumar......þangað til næst

2 ummæli:

Eygló sagði...

Skemmtilegur pistill hjá þér og gott að konfektmolarnir slógu í gegn hjá þér, það var takmarkið :) Já hann afi er svo sannarlega frábær maður og æðislegur afi :) Njóttu frídagsins í dag og við sjáumst vonandi sem fyrst!! Þín uppáhalds Eygló dóttir ;)

Íris sagði...

Gleðilegt sumar elsku mamma!
Gott að þið gátuð notið dagsins í gær og haft það notalegt í Föðurlandinu! Sammála þér með hann afa, hann er góður maður og góður afi!! Ekki slæmt að vita af einhverjum sem ber svona mikla umhyggju fyrir manni!!
Hlakka til að hitta þig sem fyrst!
Þín Íris