laugardagur, apríl 07, 2007

Notalegir dagar

Það var miðvikudagur, mikil törn var að baki í vinnunni en ég var loksins búin að færa bókhaldið og gera virðisaukaskýrslur fyrir þau 43 fyrirtæki sem eru mínir viðskiptavinir í vinnunni og ég var búin að reikna öll þau laun sem reikna áttti fyrir páska. Ég slökkti á tölvunni, kvaddi vinnufélagana og fór út í bíl til Erlings sem var kominn að sækja mig. Framundan var 6 daga frí og mikið hlakkaði ég til.

Auðvitað svaf ég til hádegis á skírdag og naut þess svo sannarlega enda enginn sem rak mig á fætur og þar sem ég er vön að vakna kl 5:45 þá var svo notalegt að sofa eins lengi og ég vildi. Niðri var Erling að lesa blöðin, hann var löngu kominn á fætur, því miður fyrir hann þá getur hann ekki sofið svona lengi. Eftir hádegi þá fór hann að skipta um gólfefni í forstofunni og á gestasalerninu og ég fór í Bónus að gera páskainnkaupin. Það var gott fyrir geðheilsu okkar hjónanna að ég fór bara ein, þvílík var örtröðin.

Seinni partinn, þegar gólfin voru orðin svaka fín og ísskápurinn fullur af vörum úr Bónus, fórum við í sveitina okkar. Þar beið kofinn okkar eftir okkur svo notalegur og fínn.
Það er svo notalegt að eiga svona afhvarf frá öllum skarkalanum. Harpa vinkona Hrundar var í heimsókn hér heima og ætlaði að gista og það var mjög gaman hjá þeim. Föstudeginum langa eyddum við Erling svo í góðum félagsskap á Fitinni en keyrðum svo heim á herragarðinn um kvöldmatarleytið.

Erling lætur fara vel um sig í kofanum okkar


Það voru dregnir 3 endajaxlar úr Erling fyrir rúmri viku og það hefur ekki gróið vel á einum stað og því höfum við bara tekið það rólega í dag hér í Húsinu við ána. Erling hefur þurft að taka verkjatöflur á þriggja tíma fresti síðan á miðvikudag og það segir mér bara að hann finnur mikið til því hann tekur ekki töflur nema þurfa þess virkilega. Petra frænka mín er tannlæknir hér á Selfossi og frétti af líðan Erlings og hún hringdi í okkur í dag og bauð honum að fara með hann út á stofu og setja deyfiefni í holuna sem hún og gerði þessi elska. Hún kom bara hingað og sótti kappann, býr reyndar í næstu götu við okkur, og svo gaf hún honum sterkar verkjatöflur þannig að þetta ætti að fara að láta undan.

Á morgun verður svo fjölmennt hér hjá okkur. Hrund og Arna koma í kvöld og á morgun koma Eygló og Bjössi og Íris og Karlott ásamt litlu yndigullunum sínum. Við hlökkum til að eyða páskadegi með stelpunum okkar og þeirra fólki enda eru þau það dýrmætasta sem við eigum. Ég afþakkaði páskaegg þar sem ég er ekkert yfir mig hrifin af þeim en svo kom ég því svona pent til skila að mér þætti miklu betra að fá nokkra alvöru konfektmola til að eiga með kaffinu og þá er ég ekki að tala um Nóa konfekt. Það kemur svo bara í ljós á morgun hvort einhver hafi skilið vísbendinguna mína.

Guð gefi ykkur yndislega páskahátið og munum að án krossfestingarinnar og upprisunnar þá væri kristindómurinn einskis virði. Þangað til næst.....

6 ummæli:

Eygló sagði...

Æðislegur pistill :) Og gott hjá ykkur að fara í kofann ykkar, það hefur án efa verið notalegt :) Við Bjössi hlökkum mjög til að koma á morgun og eiga notalega stund með fjölskyldunni í húsinu við ána! Það er svo kósý að heimsækja ykkur... Sjáumst hressar á morgun, þín uppáhalds Eygló :)

Nafnlaus sagði...

Bless you,

Kiddi Klettur

Íris sagði...

Gaman að lesa nýtt blogg ;)
Hlýtur að vera notalegt að vera þarna í athvarfinu ykkar fyrir austan. Verður gaman að vera í kofanum um verslunarmannahelgina, greinilegt að það er orðið mjög kósí ;)
The oldster, Íris

Nafnlaus sagði...

Já við Harpa höfðum það bara skemmtilegt, horfandi á Last Holiday (ótrúlega góð mynd), Syngjum Saman, Opruh Winfrey og jólatónleikana okkar.. hehe kannski ekki e-ð sem hver sem er myndi horfa á;)

En ég elska þig long time - gott að þið skemmtuð ykkur líka vel..
Þið eruð svo æðislega sæt!

-youngsterinn

Nafnlaus sagði...

Mikið er orðið kósý hjá ykkur í litla bústaðnum. Ég verð að fara að sjá hann. Hef ekki komið þangað síðan um versló... Takk fyrir mig síðustu daga, þið eruð æði... "Næstyngsterinn" Arna

Íris sagði...

Vona að þér fari að batna sem allra fyrst!!!
Þín Íris