sunnudagur, mars 18, 2007

Vorið kíkti aðeins.....

.......á okkur hér á Selfossi um daginn, bara svona rétt til að minna okkur á hversu stutt er þangað til það kemur alkomið með allri sinni fegurð. Síðan fór það aftur heim til sín og Vetur konungur sýnir okkur mátt sinn og megin þessa dagana. Kannski hann hafi farið í fýlu útí vorið fyrir að koma svona fyrirvaralaust í heimsókn á þessum tíma.

Það er sunnudagsmorgunn, ég sit ein hér niðri í fallegu stofunni minni og úti geisar bylur, allt er hvítt úti og Kári hamast sem mest hann má. Erling fór til Reykjavíkur að sækja Hrundina okkar. Hún var á bíl í bænum, var að gæta litlu gullanna hennar Örnu í gærkvöldi meðan Arna fór á árshátið. Hins vegar vildum við ekki að Hrund keyrði ein yfir heiðina í þessu veðri og því fór pabbinn að sækja yngsta gullið okkar sem vildi ólm komast heim á herragarðinn okkar, enda var hún nýbúin að breyta herberginu sínu svo nýi tveggja manna sófinn hennar kæmist inn í herbergið og því auðvitað um að gera að vera heima og njóta þess.

Við Erling vorum að hamast hér í allan gærdag að fegra heimilið, tæmdum skrifstofuna og svo málaði Erling það herbergi. Þetta er allt að koma og hugsandi um það hversu mikið við erum búin að gera þessa níu mánuði sem við höfum búið hér þá uni ég mjög glöð við mitt þótt ýmislegt sé eftir að gera. Ég veit líka að Erling heldur áfram þangað til við erum búin með það sem við ætlum að gera að þessu sinni.

Í gærkvöldi ókum við svo til höfðuborgarinnar, tilefnið var leikhúsferð í Borgarleikhúsið. Við fórum með nokkrum sysktinum mínum og þeirra mökum og sáum verkið “Viltu finna milljón”. Þetta var skemmtileg komidía og mér finnst það alltaf mjög skemmtileg tilbreyting í lífinu sjálfu að bregða mér í leikhús. Sjaldan höfum við ekið leiðina til borgarinnar í eins mikilli hálku og þá og þó var hálkan enn verri á heimleiðinni. Mér leist hreinlega ekki á blikuna en Erling er mjög öruggur bílstjóri. Það var líka blindbylur á heiðinni í ofanaálag. Þriðji bíll á undan okkur var nýleg jeppabifreið og bílstjórinn var ung stúlka. Á hringtorginu við bílasöluna á Selfossi missti stúlkan stjórn á bílnum og hafnaði á ljósastaur sem gekk vel inn í mitt grillið að framan og stórskemmdi bílinn en sem betur fer slasaðist enginn.

Það er notalegt að vera inni í hlýju húsinu þegar maður á ekkert erindi út og ég verð fegin þegar þau feðgin koma heim aftur. Eldri dætur okkar ætluðu jafnvel að kíkja í heimsókn í dag ásamt sínu fólki og eins og það er gaman þegar þau koma þá held ég að við ráðleggjum þeim að leggja ekki í ferðalög yfir holt og hæðir í dag.

Vona að þið lesendur mínir eigið góðan og skemmtilegan dag og munið að það er stuttu í vorið með allri sinni fegurð. Lífið er skemmtilegt með öllum sínum blæbrigðum.

Ég er farin fram í eldhús að búa til heitt súkkulaði handa feðginunum mínum. Það er gaman að gleðja þau, þau eru bæði svo frábær.
Þangað til næst........................

3 ummæli:

Íris sagði...

Já, það er skemmtilegt hvað veðrið getur verið síbreytilegt!
Hér er búið að vera blíðskaparveður í allan dag, þó kuldinn sé alveg til staðar, meira að segja skítakuldi :D
við fjölskyldan höfðum það bara notalegt hér heima, borðuðum góðan hádegismat og ís með heitri marssósu í kaffitíma, með banana útí og vöfflur þeir sem vildu :D
Rosa gaman.
Vonandi getum við kíkt næstu helgi í staðinn ;)
Þín elsta dóttir
Íris

Eygló sagði...

Pant ég koma í heimsókn næstu helgi með manninum mínum ;) þ.e.a.s ef þið verðið heima.. Notaleg frásögn hjá þér mamma, enda er alveg rosalega notalegt að sitja inni í hlýjunni þegar kuldaboli byrstir sig úti :)Hlakka til að sjá þig næst :) Þín næstelsta dóttir
Eygló

Nafnlaus sagði...

Gott að heyra að þið eruð góðir bísltjórar kæra mágkona,´
ég er svona týpísk ungamamma sem hef áhyggjur af öllu mínu fólki ef veðrið er leiðinlegt...
-og ég er sammmála um að það er gott að vera heima og horfa á vetur konung hamast fyrir utan
-og þurfa ekkert að fara út.
Sjáumst
Gerða