sunnudagur, mars 04, 2007

"Amma ég ætla að gleðja þig"

Ég slökkti á tölvunni í vinnunni kl þrjú á föstudaginn, fór í Smáralind til að ná í afmælisgjafir handa miðdætrum mínum og síðan var ekið til Hafnarfjarðar, beina leið á leikskólann sem Petra Rut og Katrín Tara eru á. Þegar ég kom inn á deildina hennar Petru Rutar þá stökk hún til mín og sagði öllum að núna væri hún að fara heim með ömmu og fengi að sofa hjá henni. Það hafði staðið til alla vikuna að hún og Katrín Tara fengju að koma heim með okkur Erling þennan föstudag og gista eina nótt. Þegar við svo gengum yfir á deildina hennar Katrínar Töru, framhjá fullt af börnum þá sönglaði Petra Rut, viljið þið sjá, þetta er hún amma mín og svo var það endurtekið þangað til við komum til KT. Amman hafði nú lúmskt gaman af þessu:o)

Við komum aðeins við hjá afmælisbörnum dagsins og hittum þar Erling, Hrund og Theu og áttum smá stund saman áður en við Erling keyrðum af stað austur. Katrín Tara var fljót að sofna en Petra Rut söng og spjallaði alla leiðina.

Þegar ég var búin að hátta þær og Petra Rut var komin undir sæng í gestaherberginu og ég var inni hjá Katrínu Töru sem svaf í barnarúmi í okkar herbergi, þá kallar PR á mig og segir, amma ég ætla að gleðja þig. Ég fór til hennar og þá sagði hún; amma, ég elska þig rosalega mikið, alveg svona......(fitjaði upp á nefið).....29 hringi. Svona til útskýringar á hringjunum þá er það hennar mælikvarði að það að elska mikið sé “allan hringinn”, þið skiljið þegar maður réttir út hendurnar eins langt og þær ná til að útskýra hversu mikið maður elskar þá er meira ef það maður myndi ná allan hringinn kringum mann. Þannig að fyrst hún elskaði mig 29 hringi þá var það ekkert smá mikið. Ekkert smá sætt og eins og hún sagði þá gladdi þetta mig mikið.

Karlott kom svo um hádegið í gær og sótti þær svo þær gætu farið með upp á flugvöll að sækja Írisi sem var búin að vera í námsferð í Brussel með lagadeildinni í HR.
Teddi og Kata kíktu svo við eftir hádegið og seinni partinn komu Gylfi og Christina og við áttum skemmtilegt spjall með báðum þessum vinahjónum okkar.

Við elduðum síðbúinn kvöldmat fyrir okkur þrjú sem búum hér í “Húsinu við ána” og áttum svo skemmtileg kvöld saman þar sem við spjölluðum um allt mögulegt. Mér finnst svo dýrmætt þetta samfélag við stelpurnar mínar og það að Hrund skyldi hafa gaman af að eyða laugardagskvöldi heima með foreldrum sínum gladdi okkur foreldranaå mikið.
Kl 23:20 (fengum tímasetningu á mbl) fórum við út í garð og sáum tunglmyrkvann í algeru hámarki því það var akkúrat heiðskýrt smá gat í kringum hann á þeim tíma. Ekkert smá flott að sjá tunglið svona rauðbrúnt á litinn. Þetta er sjaldgæf sjón, gerðist síðast held ég árið 1973.

Í dag ökum við svo til borgarinnar, ætlum að hittast heima hjá Eygló og Bjössa, við og stelpurnar í tilefni afmælanna þeirra Eyglóar og Örnu á föstudaginn. Hlakka mikið til því fjölskyldan manns og sannir vinir er það dýrmætasta sem við eigum ásamt góðri heilsu.
Förum vel með okkur og ræktum samfélagið við þá sem eru manni kærastir.

Vona að þið lesendur mínir eigið frábæra daga, þangað til næst.........

3 ummæli:

Eygló sagði...

Oh en sætt hjá Petru Rut þessi glaðningur :) En takk fyrir afmælisbloggið (síðasta færsla) ekkert smá gaman að eiga afmæli ;) Og þar sem þú átt nú afmæli í dag þá óska ég þér og pabba ÆÐISLEGA mikið til hamingju með 29 ára brúðkaupsafmælið :) Þið eruð algjör gull :) elska ykkur bæði endalaust eða 29 hringi eins og Petra Rut myndi segja ;) Sjáumst á eftir sætu :) Þín uppáhalds Eygló

Íris sagði...

Ohh hún Petra Rutin mín er svo æðisleg. Þetta bræðir mann lengst inn að hjartarótum. Veit að hún og Katrín Tara höfðu rosa gaman af að vera hjá ykkur, enda var beðið mjög óþreyjufullt eftir þessum föstudegi ;)
Segi eins og Eygló, innilega til hamingju með daginn og við hlökkum til að hitta ykkur á eftir.
Þín Íris

Nafnlaus sagði...

ckOhhh, ég bráðna bara með þér mamma. Hún er algjört yndigull hún Petra Rut og alveg svakalega dugleg. Gaman að henni:):) Sjáumst hressar, Arnan