sunnudagur, nóvember 04, 2007

Gospelkór Reykjavíkur, róleg helgi og frábær bók

Ég held ég verði bara að segja það að Gospelkór Reykjavíkur er allra besti kór sem ég veit um. Ég fór á tónleika með þeim í gærkvöldi og þau voru alveg hreint mögnuð.
Hljómsveitin sem spilaði með þeim var líka alveg einstök. Þau þyrftu bara að hafa tónleika oftar, þau eru bara snillingar. Ekki spillir fyrir að Íris dóttir mín er ein af meðlimum kórsins og það er svo gaman að sjá hana syngja. Einn vinnufélagi minn hafði orð á því eftir að hafa séð hana einu sinni syngja með kórnum að það væri svo gaman að sjá hana því hún syngi af svo mikilli innlifun. Get tekið heils hugar tekið undir það.

Annars er helgin bara búin að vera róleg. Ég var ein heima föstudagskvöld og á laugardeginum því Erling fór austur í Kofann og var að veiða um helgina og kom svo heim með þrjá fína laxa, duglegur strákur, alltaf að draga björg í bú. Þessir laxar ásamt fleirum enda svo í reykhúsi og verða á boðstólum um jólin. Það er reyndar mjög gaman að bjóða upp á lax sem húsbóndinn hefur veitt og svo grefur hann sjálfur laxa sem verða líka á boðstólum. Eins og fólkið mitt veit þá höfum við meira af svona sælkeramat um hátíðirnar heldur en sætindum. Okkur líkar það betur hjónunum og svo hafa stelpurnar smitast af því líka og eru farnar að kaupa inn brauð og lax frekar en sælgæti.

Ég fór í Bónus á föstudaginn og það er nú ekki í frásögur færandi svo venjulegt sem það er, nema ég sá í einni hillunni bók sem vakti áhuga minn. Sérstaklega þar sem neðst framan á bókinni stóð; Aðeins fyrir karlmenn. Aha, er það ekki þannig með okkur mannfólkið að oft er svo spennandi það sem er ekki okkur ætlað og ég tók eintak af bókinni, sneri henni á hvolf í körfunni og hlakkaði til að lesa hana þegar heim kæmi. Bókin er einfaldlega um það hvernig á að gera konuna sína hamingjusama.
Þar sem mínum manni hefur nú aldeilis tekist það bærilega þá langaði mig samt að lesa hvernig aðrir menn fara að því að gera sínar konur hamingjusamar. Ég er ekki alveg búin með bókina en vitið þið það að einhverra hluta vegna þá er alveg eins og þeir hafi skrifað bókina í sameiningu Erling og hann Þorgrímur (enda er konan hans frænka mín). Það er ótal margt sem Þorgrímur er að ráðleggja sem er alveg eins og Erling kemur fram við mig. Karlar og konur eru svo ólík en saman geta þau myndað þessa heild sem væru þau einn maður. Kynin nefnilega bæta hvort annað upp ef þau leyfa hvort öðru að njóta sín. Mér finnst alveg frábært að fá að vera veikara kerið, finna þessa umhyggju og finna það þegar mér er einfaldlega pakkað inní bómull og þarf ekki að vera að vasast í öllu mögulegu. Finna þegar byrðunum er létt af mínum öxlum yfir á sterku axlirnar hans og hann finnur alltaf lausn á öllum hlutum. Finna kærleikann þegar Erling bara tekur utan um mig og segir mér hvað honum finnst ég frábær. Finna umhyggjuna á ísköldum vetrarmorgnum þegar hann fer út og setur minn bíl í gang og skefur rúðurnar svo mér verði ekki of kalt þegar ég fer út. Setjast inn í stofu og vera fært kaffi og á sunnudögum er oftast súkkulaðimoli með. (Það má á nammidögum sem eru alltaf á laugar- og sunnudögum). Erling er ekki góðkunningi blómasalans og hann er ekki duglegur að koma mér á óvart en í öllu þessu daglega og hversdagslega þá finn ég hversu heitt ég er elskuð og metin. En vegna þess að hann kemur mér ekki oft á óvart með einhverju þess betur kann ég sennilega að meta það þegar það gerist og það er nú stundum. Mjög iðulega fer hann í búðina þegar við erum bara tvö og kaupir gott í matinn og eldar og ég þarf ekkert að gera nema njóta.
Hann kemur stundum heim með eitthvað sem við höfum verið að tala um að fá okkur og hann hefur hringt í mig og beðið mig að panta ferð fyrir okkur til Köben því hann veit að ég elska svoleiðis ferðalög.

Stelpurnar okkar eru algerar pabbastelpur enda dekrar hann þær algerlega uppúr skónum og litlu afagullin hafa hann algerlega í vasanum. Besti maður í heimi? Já fyrir mig er hann það svo sannarlega og ég þakka Guði fyrir hann.

Núna er komið sunnudagskvöld. Það er hljótt hér í Húsinu við ána. Hrund er í Reykjavík að hitta nokkrar bekkjarsystur sínar. Við erum því bara tvö heima hjónin og Erling var að elda þessa líka fínu steik og hún bragðaðist frábærlega. Þetta var folaldafillet sem hann setti kálfalifrarpaté inní. Umm þvílíkt góð.

Núna ætla ég að fara inn í stofu, stelast til að setja jólalög undir geislann, það eru nú alveg að koma jól, eða er það ekki, það finnst mér allavega.
Þangað til næst vinir mínir.........

2 ummæli:

Íris sagði...

Gaman hvað þér fannst gaman á tónleikunum, mér fannst líka alveg stórskemmtilegt ;) En hver sagði þetta um mig?? Hvaða vinnufélagi þinn hefur séð mig á tónleikum??? Hehe, ég alltaf jafn forvitin. ;)
Svo get ég alveg vitnað um það að hann pabbi dekrar þig upp úr skónum ;) Sem er bara alveg frábært!
Hlakka til að sjá þig á eftir ;)
Knús
Íris

Eygló sagði...

Já tónleikarnir voru hreint magnaðir og það er ekki hægt að toppa Gospelkór Reykjavíkur! Þau eru einfaldlega best! Mér fannst lagið sem Þóra söng flottast enda rosalega rödd :) Snilld líka að láta reykja fyrir sig laxinn því að þetta er sko ekki beint gefins út í búð!!! En jæja sæta mín, verð samt að bæta því við að þú dekrar okkur alveg jafn mikið og pabbi :):) Þið eruð bæði æðisleg :):):):) Elskjú, Eyglóin þín og ykkar