fimmtudagur, nóvember 29, 2007

Súrmjólk og fleira skemmtilegt.......

Við fórum fyrr heim í dag en oft áður því veðurspáin var svo slæm. Erling og Hrund sóttu mig í vinnuna um hálffimmleytið og svo keyrðum við Hrund heim til Örnu en þar gistir skvísan í nótt.

Það var svona þokkalegt veður á heiðinni en þó nokkuð hvasst samt. Í Hveragerði var stoppað til að gera innkaup í Bónus. Erling skildi mig eftir þar og skrapp út á bensínstöð á meðan. Ég tíndi í körfuna það sem ég taldi að vanhagaði um heima, svona sitt lítið af hverju, keypti meira að segja súrmjólk aldrei þessu vant, held að súrmjólk hafi ekki áður komið með mér heim í Húsið við ána. Jæja, hvað um það, ég hélt áfram för minni eftir göngum verslunarinnar og stundum skildi ég körfuna eftir til að snúa við og ná í eitthvað sem ég gleymdi þegar ég gekk framhjá.
Ég var búin að taka lokastefnu á kassana þegar ég mundi eftir rjómanum, ekki mátti nú gleyma honum, hafragrautur með rjóma er algert lostæti og fyrir ykkur sem hugsið núna að það sé ekki skrýtið að Erling eigi svona mikið af mér þá er það hann sem notar rjómann hversdags en ég svona spari, haha. Karfan var yfirgefin og rjóminn sóttur en þegar ég kom tilbaka mætti ég Erling með körfuna okkar. Ég var nú hissa og spurði hann hvernig hann vissi að þetta væri karfan okkar. Hann leit á mig og sagði, ég þekkti innihaldið, veit hvernig þú verslar krúttið mitt. Og það þótt það væri súrmjólk í körfunni. Hann var þá búinn að ganga framhjá fleiri körfum sem voru einmana á göngunum en það var nóg fyrir hann að líta ofaní þær til að vita að þarna var ég ekki á ferð. Mér fannst þetta skondið en um leið lýsa því vel hversu samofin hjón geta verið.

Nú sit ég inni í stofu, úti er hrikalega vont veður, Erling var úti að setja í skjól hluti sem geta fokið en sem betur fer voru sumarhúsgögnin á pallinum tekin í hús síðustu helgi. Veðrið á bara að versna svo við ætlum bara að hafa það notalegt hér eins og vanalega, setja jólalög undir geislann og kveikja á kertum. Vinnukonurnar mala við verkin sín frammi, þær eru frábærar.

Framundan er skemmtilegur tími, nokkrir dagar eftir af vinnutörninni og svo bregðum við landi undir flugvél til að eiga saman nokkra góða daga í uppáhaldsborginni okkar, Köben. Og svo koma jólin............ Þangað til næst vinir mínir........

2 ummæli:

Eygló sagði...

Það er bæn mín að við Bjössi verðum svona æðislega samofin eins þið eftir 30 ára hjónaband :) Þið eruð alveg frábær! Elska ykkur alveg í bunkum :) Ykkar Eygló. P.s hafið það notalegt í vonda veðrinu!!

Íris sagði...

Hahhaa, skondið með körfuna :) En veðrið er líka svona vont hér hjá okkur og það er svooo notalegt að eiga gott heimili sem skýlir manni fyrir vindi og vatni :)
Hlakka til að hitta ykkur næst ;)
Your Íris