föstudagur, október 26, 2007

Afmælisdagurinn hans Erlings

Ég sá hann fyrst fyrir um 32 árum síðan, renglulegan strák með sítt og krullað hár. Ég spurðist fyrir um það hver hann væri og svarið var að þetta væri hann Erling úr Kotinu.
Það var eitthvað sérstakt við hann og mig langaði að kynnast honum betur. Það gekk eftir og hann er enn í dag besti vinur minn, sálufélagi minn og sá einasti eini sem þekkir mig betur en ég sjálf og er mjög næmur á mig og allt sem mér viðkemur. Það þýðir ekkert að segja honum eitthvað annað en satt þegar hann spyr um mína líðan og hann er óþreytandi í að gleðja mig á allan mögulega hátt.

Við höfum gengið saman í gegnum lífið þessi 32 ár, afkomendahópurinn stækkar stöðugt og tengdasynir bætast í hópinn. Á næsta ári, ef Guð lofar, munum við halda uppá 30 ára brúðkaupsafmælið okkar og erum þegar farin að leggja drög að frábærri ferð til að halda uppá þessi tímamót. Það er perlubrúðkaup en ég sagði honum nú fyrir stuttu að mig langaði ekki í perlur af þessu tilefni, ég er ekki svo mikið fyrir þær og hann sagði mér bara að hann þekkti mig nú nógu vel til að detta ekki í hug að kaupa handa mér perlur en hins vegar kallar hann mig ýmist perluna sína eða krúttluna. Mér þykir vænt um þær nafngiftir hjá honum.

Í dag á hann afmæli, er orðinn 48 ára, en eins og venjulega þá mundi hann það ekki þegar ég óskaði honum til hamingju í morgun. Hann á tvö stór áhugamál og ég er mjög ánægð með að hann sinnir þeim vel. Annars vegar er það veiðidellan, enda er það skylda hvers manns að draga björg í bú, er það ekki annars..... og hins vegar er það mótorhjóladellan sem hann er svo búinn að smita mig af.

Ég er ákaflega stolt af manninum mínum, elska hann meira en hægt er að lýsa í einni bloggfærslu og bið Guð að leyfa okkur að eldast saman, svo við getum gengið saman inní sólarlagið, tvær krumpaðar sveskjur hönd í hönd.

Til hamingju með daginn flotti maðurinn minn.....

4 ummæli:

Íris sagði...

Innilega til hamingju með kallinn ;) Alveg æðislegt að sjá ykkur saman og vita hvað þið njótið lífsins vel!
Hlakka til að koma á morgun :)

Nafnlaus sagði...

Ohh, þið eruð svo endalaust sæt þið pabbi. Og sagan af því hvenær og hvernig þið byrjuðuð saman er sko alveg efni í stelpumynd;) Til hamingju með hann pabba, já hann er sko alveg frábær.. ALLAN hringinn:) Arna

Nafnlaus sagði...

Já, til hamingju bæði tvö, með hvort annað og allt hitt líka. Fyndið að sjá að fyrsta minningin þín er um síða og krullaða hárið:)
Núna er það minningin ein,
eins og myndin sem fylgir af flotta mótorhjólagæjanum sýnir...
Sjáumst sem oftast.
Gerða mágkona

Nafnlaus sagði...

Gæti þetta nokkuð verið betra?

b kv. Kiddi Klettur