mánudagur, október 22, 2007

Heima er best....

Það var ekki nein smá rigning sem buldi á bílnum á leiðinni heim fyrr í kvöld. Í miðju Svínahrauni hringdi síminn og við fengum frábærar fréttir af Hjalla bróður hans Erlings sjá http://www.erlingm.blogspot.com/ Mikið var svo notalegt að koma inn úr rigningunni og Húsið við ána tók vel á móti okkur að vanda. Ég þurfti samt að byrja á að fara út og bjarga sumarblómunum mínum inn í hlýjuna svo þau myndu ekki bara fjúka út í veður og vind. Það vill til að þessi fallegu blóm standa svo vel og lengi og nú fara þau bara í fínan kassa uppá háaloft og munu svo gleðja augu okkar þegar vorar á ný:o)

Við vorum í Kofanum um helgina og það var ljúft og gott að vanda. Það var þó nokkur gestagangur hjá okkur, hittum mörg systkini Erlings og það var bara gaman. Á laugardagskvöldinu grilluðum við góðan mat og nutum samfélagsins við hvort annað. Gylfi og Christina kíktu svo á okkur seinna um kvöldið og við spjölluðum um ýmis málefni. Um hádegi á sunnudag hringdi síminn hans Erlings og lögmaður frá virtri lögmannsstofu í bænum kynnti sig og spurði Erling hvort hann væri ekki höfundur að BA ritgerð um ábyrgð byggingarstjóra og iðnmeistara. Jú, ekki neitaði Erling því og erindi lögmannsins var hvort það væri möguleiki að fá ritgerðina keypta. Í stuttu máli þá fór Erling á skrifstofuna hans í dag og lögmaðurinn sagði að það væri mikill fengur að fá þessa ritgerð og tók upp veskið og greiddi uppsett verð án spurninga. Síðan spurði hann Erling hvort hann gæti aðeins farið yfir ákveðið mál sem varðaði byggingarstjórn og gefið sér álit sem Erling og gerði. Langaði bara aðeins að segja ykkur frá þessu því þetta var auðvitað gaman og mikil viðurkenning á skrifum Erlings.

Lexor mun bráðum fagna eins árs afmæli og vex og dafnar vel. Við erum mjög ánægð með að hafa tekið ákvörðun um að stofna þetta fyrirtæki með þeim markmiðum sem við lögðum upp með. Svo það eru spennandi tímar framundan hjá okkur.

Jæja vinir mínir, ætla að hætta og fara og fá mér kaffi með Erling, stofan okkar er svo freistandi. Þangað til næst.......

1 ummæli:

Hrafnhildur sagði...

Til hamingju með þetta, gott að allt gengur vel. Ég er stolt frænka ;)