föstudagur, september 30, 2005

TAKK FYRIR....

Ég sem hélt að ég slyppi en nei, nei, bara búið að klukka mig og ekki bara einu sinni eða tvisvar, nei þrisvar. Hér koma 20 gagnslausar og algerlega tilgangslausar staðreyndir um mig, geri 20 svona til vonar og vara ef einhverjum skyldi detta í hug að klukka mig einu sinni enn.

1. Ég er dekurrófa, það er allt látið eftir mér heima hjá mér og ég kann alveg svakalega vel við það.
2. Ég fer ekki í rússíbana. Fór einu sinni í einn alveg hræðilegan, það var í minni fyrstu utanlandsferð og ég kallaði ýmist á mömmu eða Guð allan tímann og hét því að ef ég slyppi lifandi úr þessu þá færi ég ekki aftur. Hef staðið við það núna í 23 ár.
3. Mér finnst pallaleikfimi hræðilega leiðinleg. Að hoppa upp á palla og niður aftur, eiga svo í ofanálag að gera flókin spor í leiðinni, nei það er ekki fyrir mig, ég ruglast svo mikið.
4. Ég HATA geitunga. Ég hef oft skemmt samferðafólki mínu með tilþrifum þegar þessi viðbjóðslegu kvikindi gerast svo djörf að bjóða sér inn þar sem ég er viðstödd. Ég vil þeim allt illt.
5. Það er kisa á heimilinu sem hún Hrund á og ég er mjög ánægð með það. Ég hefði reyndar ekki trúað því að mér ætti eftir að líka vel að hafa kött hér heima en svo er hún Skvísa bara alveg meiriháttar og ég myndi sakna hennar ef hún færi.
6. Mér finnst gaman að dansa og er að hugsa um að drífa mig í að læra dans og hef reyndar fengið samþykki frá Erling að við förum saman að læra dans þegar hann er búinn með skólann en fyrr er víst ekki tími hjá laganemanum nema til að lesa þessar leiðinda skruddur.
7. Ef ég ætti að velja á milli þess að fá aldrei framar ís eða sælgæti myndi ég hiklaust fórna namminu. Ís er svoooooo góður.
8. Ég get helst ekki verið með húfu því ég þoli ekki að eitthvað sé yfir eyrunum á mér.
9. Ég safna gömlum antikbollum, vil helst hafa þá litla og með sætri mynd á.
10. Ég er með alveg hrikalega mikla innilokunarkennd, gæti örugglega aldrei farið í svona rannsókn þar sem manni er rennt inn í hólk og svo á maður að vera grafkyrr MJÖG LENGI eða í svona hálftíma. Svo væri ég líka hrædd um að ég myndi festast þar inni :o)
11. Ég elska að sofa út um helgar, dætur mínar vita til dæmis að það þýðir ekki að hringja í mig fyrir hádegi þá daga. Þær skilja þetta reyndar ekki en hvað get ég gert að því?
12. Bleikur er uppáhaldsliturinn minn enda klæðir hann mig bara nokkuð vel.
13. Skemmtilegustu búðir sem ég fer í eru gjafavörubúðir og svo klikkar ekki að skoða (og kaupa) amerískt jóladót.
14. Ég veit hvað rómantík er. Þegar við Erling vorum á Mallorka árið 2000 þá var það eitt kvöldið eftir ánægjulegan kvöldverð á veitingahúsi að við röltum upp á hótel en komum við á ströndinni. Við löbbuðum niður í fjöru, ég fór úr skónum, lyfti pilsinu aðeins upp og óð í grunnri fjörunni. Það var tunglskin og þá spurði Erling mig að því hvað rómantík væri. Alveg ósjálfrátt þá rann svarið út úr munni mínum og Erling var bara ánægður með svarið.......
15. Ég er alveg rosalega ópólitísk og reyndar leiðist mér alveg svakalega að hlusta á pólitískar umræður.
16. Ég er dugleg að rækta garðinn minn og fjölskylduna mína.
17. Skemmtilegasta vinna sem ég veit er að vinna með tölur, skýrslur og að koma skipulagi á hluti sem eru í óreiðu.
18. Ég er mikið jólabarn og þegar aðventan byrjar þá skipti ég um hluti á heimilinu, pakka niður skrautmunum og tek upp allt fallega jóladótið mitt. Ég elska það að gera jólalegt. Ég eyði aðventunni ekki í brjáluð þrif heldur nýt ég þess að vera heima með skemmtilegu fjölskyldunni minni, kveikja á kertum og bera fram rjúkandi heitt súkkulaði með þeyttum rjóma. Svo setur maður flottan jóladisk undir geislann.
19. Eftir því sem ég hugsa meira um setningar eins og; Hamingjan er ekki hlutir, hún er heimagerð og: Hamingjan er ekki að fá það sem maður vill heldur að vilja það sem maður hefur, því betur líður mér því þá geri ég mér betur grein fyrir því hvað maður hefur mikið um það að segja sjálfur hvernig manni líður.
20. Þessi staðreynd er reyndar hvorki gagnslaus eða tilgangslaus en það er bara einfaldlega staðreynd að ég á besta mann í heimi, mér finnst hann Erling alveg frábær og flottastur og hann hefur lag á að láta mér líða eins og drottningu og hann getur alltaf komið mér í skilning um hvernig hlutirnir eru þegar ég sé þá í vitlausu ljósi. Framkoma hans er þannig að ég veit alltaf að ég er elskuð. Ég einfaldlega elska þennan mann minn alveg svakalega mikið.

Þá læt ég þessu lokið í bili og hér með klukka ég Heiðar mág minn og Birgir Stein frænda minn.

7 ummæli:

Íris sagði...

Vá bara fjórföld ánægja að lesa klukkið þitt ;) Gaman að lesa þetta ;) Sjáumst sem fyrst ;)

Nafnlaus sagði...

Snilldin ein að lesa svona mikið um þig, ég vissi t.d ekki þetta með húfur og að vilja ekki hafa neitt yfir eyrunum.. Bara gaman að lesa þetta :) Hafðu það langbest dúllan mín og ég elska þig í milljón strimla... Þín Eygló

Íris sagði...

Jæja, hvar er skrifgleðin??? Farin að sakna þess að lesa ekki nýtt blogg!!

Karlott sagði...

Hæ hæ tengdamamma!
Gaman var að lesa þessar áhugaverðu staðreyndir um þig... Íris hefur greinilega erft geitungahatrið frá þér....

Annars segi ég eins og min kvinna: hvar er skrifgleðin?

En, annað: ég þakka Guð mínum og frelsara fyrir þig og fyrir að vera móðir konunnar minnar og amma dætra minna!
Bara svo að þú vitir það, þá: líkar mér afskaplega vel við þig!

Kveðja,

Tengdasonurinn á fertugsaldrinum : )

Nafnlaus sagði...

Vá það er ekkert smá sem þú ert dugleg að geta bloggað 20 atriði. Ég var í algjörum vandræðum með mín 5. En mig langar líka að fara að lesa nýtt blogg... Svo fer ég vonandi að heyra í þér fljótlega til að biðja þig að passa á meðan ég kem unganum í heiminn. Arnan þín.....

Nafnlaus sagði...

Hæ Erla mín
Gaman að lesa klukkið:-)

Íris sagði...

Til hamingju með nýjasta barnabarnið ;) Kom ekki á óvart að það kom stúlka ;)
Sjáumst sem fyrst!