……..en þú þarft að styrkja þig að innan".
Það verður aldrei um mig sagt að ég sé fullkomin að utan og ekki einu sinni að ég sé nokkuð þokkalega útlítandi að utan enda var þessi setning ekki sögð um mig heldur sagði lýtalæknirinn þessi orð við ofurfyrirsætuna sem leitaði til hans og vildi gjarnan leggjast undir hnífinn hjá honum til að reyna að auka sjálfstraustið. Merkilegt. Maður skyldi nú halda að ofurfyrirsætur sem hafa atvinnu af því að láta taka af sér myndir, því þær líta svo vel út, skuli bæði hugsa og framkvæma það að fara til lýtalæknis út af útlitinu. Þær eru þá eftir allt á sama stað og við þessar venjulegu konur sem eru sjaldan eða aldrei ánægðar með sig? Þegar konur hittast þá er nánast undantekningarlaust farið að tala um aukakíló, hrukkur, hárið ýmist of slétt eða of liðað og svo mætti lengi telja. Ég held að við konur séum oft ekki nógu duglegar að rækta okkar innri mann, huga að andlegri heilsu okkar eða sinna því sem okkur finnst skemmtilegt og við getum ekki alltaf kennt tímaleysi um. Ef ég tek sjálfa mig sem dæmi þá hef ég allan heimsins tíma til að gera það sem mig langar til. Heimilið er létt, við Erling erum bara tvö með yngstu dekurdolluna okkar. Eftir vinnu á daginn þá vil ég helst flýta mér heim til að fara að gera eitthvað þar, tel mér trú um að ég hafi ekki tíma til að fara í ræktina, hef ekki tíma til að kíkja til vinkvenna minna eða rölta aðeins í búðir. Þetta er auðvitað mesta bull því þegar ég kem heim þá er ég ekki ofvirk við að laga til og Erling eldar alltaf kvöldmatinn þannig að ekki þarf ég að hugsa um það heldur. Ég fór og hitti heimilislækninn minn í vikunni og talið barst meðal annars að breytingarskeiðinu margfræga. Hún sagði mér að flestar konur finna ekki neitt fyrir þessu tímabili líkamlega séð en hinsvegar verði margar konur daprar og hætta að finna tilgang með lífinu en það sé ekki síst vegna ytri aðstæðna sem breytast hjá konum. Börnin fara að fara að heiman, hjón hafa ekki sömu áhugamál þótt nú sé meiri tími til að sinna þeim en áður og konunni fer að finnast hún jafnvel óþörf á heimilinu. Við konur verðum að vera duglegar að rækta okkar innri mann og þar þarf hver og ein að finna þá leið sem henni hentar en ég held að í framhaldinu þá smátt og smátt styrkist sjálfsmynd okkar og það hefur áhrif á útlit okkar. Okkur fer að líða betur, við verðum glaðari, berum okkur betur, erum duglegri að hafa okkur til og pælum meira í hvernig fatnaði við erum og svo mætti lengi telja.
Lífið tekur oft skrýtnar beygjur sem við gerum ekki alltaf ráð fyrir og það á jafnt við um mig og aðra og án nokkurs fyrirvara var ég var sett í slíka beygju fyrir fimm vikum. Beygjan hefur valdið mér andvökunóttum, ég upplifði höfnun og hef staðið mig að undarlegri depurð af hennar völdum. Það er mjög ólíkt mér að vera döpur og ég ræddi það aðeins við lækninn minn og ráðið hennar var; drífðu þig aftur í líkamsræktina. Hún sagði mér að góðar þolæfingar úti eða inni á hlaupabretti gefi sömu eða jafnvel betri raun en þunglyndislyf, það gera efnin sem líkaminn leysir sjálfur út við áreynslu.
Já við erum þá fullkomin sköpun eftir allt saman.
Mig langar að reyna að vera duglegri að gefa mér tíma fyrir sjálfa mig, rækta vinkonur mínar sem ég veit að ég hef vanrækt, gott spjall við bestu vinkonuna er á við marga tíma hjá sálfræðingi þó svo að ég viti að stundum þurfum við á þeirra faghjálp að halda. Hvað beygjuna varðar þá er það nú þannig að þegar einar dyr lokast þá er pottþétt að Guð opnar aðrar dyr og þannig verður það líka hjá mér því ég er undir náð hans, hún er ný á hverjum degi og nægir mér.
6 ummæli:
Rosalega komstu þessu vel frá þér!! Góður penni ;) Annars lýst mér vel á að þú drífir þig í ræktina aftur, held að það sé alveg rétt hjá lækninum að það er betra en mörg lyfin. Svo veit ég að það opnast aðrar dyr fyrir þig, hvenær er bara spurningin ;)
Þú ert frábært og ég elska þig í milljón ;)
Þín Íris
Algerlega sammála Írisi og mér finnst þú algjört æði :) Þú ert laaaaaaaaangbest.. Lov U endalaust, þín uppáhalds Eygló
Erla mín, mér finnst þú frábær nákvæmlega eins og þú ert! Betri stórusystur er ekki hægt að hugsa sér.
Svo er ég sammála þér með náð Guðs sem er ný á hverjum degi. Beygjan verður þér til blessunar þegar upp er staðið.
Takk fyrir að vera þú!
Gott hjá þér Erla mín, en ég verð að segja við þig, Klukk
= 5 tilgangslausar staðreyndir um þig og að klukka svo fimm í viðbót.
Kveðja Kiddi Klettur
Ég ætlaði að klukka þig en þar sem Kiddi er búinn og þú ekki búin að gera "klukkið" þá ertu bara klukkuð tvöfalt ;) Ég bíð spennt eftir næstu færslu ;) Þú mátt samt sleppa við að klukka 10 aðra, 5 nægir ;)
Nú var ég heppin...
ætlaði að klukka þig en þar sem Kiddi er búinn og Íris líka EEEEN þú ekki búin að gera "klukkið" þá ertu bara klukkuð þrefalt ;) Ég bíð spennt eftir næstu færslu ;) Þú mátt samt sleppa við að klukka 15 aðra, 5 nægir ;)
Myndi drífa mig að blogga áður en það breytist.... kannski þarftu annars að skrifa 15 staðreyndir... sem væri reyndar ágætt..
Skrifa ummæli