sunnudagur, júní 11, 2006

Lögfræðingurinn

Ég vaknaði í morgun með mikinn spenning í maganum. Dagurinn sem hefur verið stefnt að í þrjú ár var loksins runninn upp.
Það er vægt til orða tekið að það hafi verið stoltar mæðgur sem mættu í Háskólabíó um hálf eitt leytið til að tryggja sér nógu góð sæti við athöfnina sem átti að hefjast kl eitt. Útskrift frá Háskólanum í Reykjavík var í vændum og Erling var einn af útskriftarnemendunum.

Þetta var skemmtileg athöfn og Guðfinna Bjarnadóttir rektor fór á kostum í ræðu sinni og lagði mikið upp úr því að hafa fjölskyldugildin í heiðri og hvatti útskriftarnemendur til að vera glöð og heiðarleg bæði í mótbyr og meðbyr og ekki síst í mótbyr því hann herðir þann sem í honum lendir. Greinilega afar skörp kona á ferð það.
Þórður Gunnarsson deildarforseti lagadeildar talaði um hvað laganámið sé þungt og strembið nám og að þeir sem útskrifist geti verið mjög stoltir af árangri sínum.

Ég get engan veginn lýst þeim tilfinningum sem fóru í huga minn þegar ég sá Erling í röð samnemenda sinna, ganga fram og taka við prófskírteini sínu úr hendi deildarforsetans og síðan rektor taka í hendina á honum. Ég var við það að rifna úr stolti og ekki var Hrund minna montin af pabba sínum.

Ég og dætur okkar ásamt mörgum sem lögðu hönd á plóginn, héldum honum síðan smá óvænta veislu í tilefni dagsins en hann sjálfur ætlaði ekki að hafa neina veislu fyrr en hann er búinn að sérhæfa sig enn frekar og taka mastersnámið sem er 4 annir. Mér hins vegar finnst þetta svo stór áfangi að það sé fullt tilefni til að halda uppá það. Íris og Karlott opnuðu heimili sitt í dag fyrir veislu og ég bauð systkinum okkar og allra nánustu vinum þangað og það var óborganlegt að sjá svipinn á honum þegar við komum þangað því hann var bara að fara þangað til að hitta krakkana okkar og litlu afastelpurnar.

Það er á engan hallað þegar ég segi að Íris og mamma báru hitann og þungann af þessu því ég gat ekki gert neitt, bæði vegna flutninga í Húsið við ána á morgun og eins vegna þess að Erling mátti ekki vita neitt af þessu. Eins var pabbi alveg frábær og fór margar ferðir á milli Breiðholts og Hafnarfjarðar með dót sem þurti að komast á milli staða. Ég vil samt nota þetta tækifæri og þakka öllum þeim sem hjálpuðu mér og stelpunum mínum að gera þennan dag ógleymanlegan fyrir lögfræðinginn okkar allra.

Í kvöld fórum við Erling svo í fyrsta sinn út að borða á Hótel Holt og það var bara snilldin ein, maturinn var frábær og öll þjónusta til mikillar fyrirmyndar.

Viðburðarríkur dagur er að kveldi kominn og það er bara þakklæti í huga mínum.
Ég er svo þakklát Guði fyrir lífið sjálft og fyrir að tilheyra fjölskyldu sem er þátttakandi í lífi mínu bæði í mótbyr og meðbyr.

Á morgun byrjar svo nýr kafli. Við flytjum í nýtt hús í nýrri borg, Erling er kominn með nýtt starfsheiti og enn á ný veit ég að fólkið okkar kemur og nú til að hjálpa okkur á sama hátt og þau tóku frá tíma til að samgleðjast okkur í dag. Enn á ný, þúsund þakkir.
Já lífið yndislegt.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

-Tek heilshugar undir hjá þér Erla mín: "Lífið er yndislegt" Það er svo margt að gerast hjá ykkur akkúrat núna. -Og meðbyrin og mótbyrinn sem þú talaðir um; það er svo skrýtið að oft verður mótbyrinn til þess að maður fer aðra leið en maður ætlaði í upphafi og útkoman verður jafnvel miklu betri en hefði maður farið hina leiðina. Þið megið vera stolt af ykkur og ég er það líka. Enn og aftur Hjartanlega til hamingju með allt saman.
Sys

Íris sagði...

Já þetta er sko ekkert smá glæsilegt hjá honum pabba!! Ég er rosalega stolt af honum! Svo er rosa gaman hvað dagurinn tókst vel, kom pabba algjörlega á óvart!
Hlakka til að hitta ykkur í dag!!

Kletturinn sagði...

Tek undir hamingjuóskirnar innilega. Menn ná ekki svona árangri með hendur í vösum. Það er á hreinu. Gangi ykkur svo allt í haginn á nýjum stað. Kveðja Kiddi Klettur