sunnudagur, júní 25, 2006

Ert þú lögfræðingurinn sem er......

......nýfluttur í hverfið, spurði maður nokkur sem Erling hitti á árbakkanum í gærkvöldi.
Hvaða á, jú auðvitað Ölfusá, en í gær var opnunardagur árinnar og jafnframt afmælisfagnaður Stangveiðifélags Selfoss. Það er greinilegt að við erum flutt í lítið samfélag í ört vaxandi bæjarfélagi og fólkið hefur verið að spjalla saman um “nýja” fólkið í götunni. Sá sem spurði er hann Gunnar í Skarði og hann býr beint á móti okkur.

Já, við erum flutt til Selfoss, erum reyndar búin að vera hér í hálfan mánuð og það er gaman að segja frá því að okkur er vel tekið hér. Við höfum líka heyrt það á nokkrum stöðum að fólkið sem býr í hverfinu okkar, þ.e utan ár, sé sérlega samheldið og standi saman. Ég var að bera inn dót úr bílnum fyrir nokkrum kvöldum þegar ég heyri að maður nokkur rekur all hastarlega á eftir hundi og segir honum að hypja sig heim. Fyrir hornið á húsinu mínu geysist síðan lítill smáhundur og á eftir honum kemur maðurinn sem er að reka hann. Hundurinn hverfur inn á lóðina rétt hjá mér en maðurinn stoppar hjá mér og spyr mig hvort ég sé nýi nábúinn hans. Ég svara eins og er að ég viti það ekki en ef hann búi hér við hliðina þá sé það rétt hjá honum. Það kom í ljós að þetta var hann Valdimar sem býr í húsinu við hliðina. Hann bauð mig hjartanlega velkomna í hverfið og sagði mér aðeins frá umhverfinu og hann kvaddi með orðunum, sjáumst vinkona.

Það kom svo í ljós daginn eftir þegar hann hitti Erling að hann er forfallinn veiðimaður sem þekkir Ölfusá eins og fingurnar á sér og hann er búinn að rölta með Erling og sýna honum alla bestu veiðistaðina í ánni. Erling er auðvitað búinn að ganga í veiðifélagið og það var einmitt í gær sem hann Valdimar kom og sagðist vera búinn að fá leyfi til að kenna nýja manninum á ána og mér fannst það skondið að horfa á eftir Erling labba með stöngina niður að ánni og ég gat fylgst með honum í veiðiferðinni útum gluggana hjá okkur.

Það er mjög notalegt að keyra inn kyrrláta götuna “mína” eftir langan vinnudag, leggja beint fyrir utan húsið og finna hvað húsið býður mig velkomna heim. Þetta er eitthvað sem erfitt er að lýsa en alveg einstök tilfinning.

Erling er búinn að vera að mála og sparsla, hvítta panel ásamt svo mörgu öðru til að fegra heimilið okkar, það er bara verst hvað vinnan okkar er alltaf að slíta sundur daginn fyrir manni. Það er samt gaman að sjá hvernig húsið er smátt og smátt að verða eins og við viljum hafa það. Rétt bráðum ætla ég að fara og kíkja á stofuna mína og sjá hvað Erling er búinn með mikið en þegar hún er búin sækjum við nýju Chesterfield sófana okkar sem við vorum að versla okkur, sérhannaðir í danskri verksmiðju fyrir Valhúsgögn.

Það eru aukin lífsgæði fyrir okkur að hafa keypt þetta hús á þessum frábæra stað og ég á eiginlega ekki orð til að lýsa því hvernig mér líður með þetta. Ég fyllist lotningu gagnvart náttúrunni í kvöldgönguferðunum okkar Erlings, Guðs blessun er það sem ég þakka fyrir á hverjum degi og fullvissan um að Guð er með okkur og náð hans vakir yfir okkur er nóg fyrir mig. Já lífið er dásamlegt.........þangað til næst.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Elsku systir mín

Það er sannarlega gaman að því hvað þú nýtur þess að vera nálægt náttúrunni...sjálf Reykjavíkurmærin hehe.

Njóttu lífsins og allar þeirrar blessunnar sem Drottinn hefur úthlutað þér.

Lof jú í ræmur .....

Sirrý litla

Nafnlaus sagði...

ÆÐISLEGT!!!! Ég er svo ánægð fyrir ykkar pabba hönd með húsið við ána :) það er svo gaman að fylgjast með ykkur þar og hvað þið blómstrið og bara alles :) Húsið verður fallegra og fallegra í hvert skipti sem maður kemur þangað :) Sjáumst hressar á eftir sæta mamma mín :) Þín Eygló nýtrúlofaða ;) ;)

Nafnlaus sagði...

A ekkert ad blogga meira? Langar i frettir *blink*
kv. Iris