sunnudagur, júlí 23, 2006

Mér líður svo vel

Í dag eru sex vikur síðan við fluttum í Húsið við ána og óhætt að segja að margt hafi breyst hér innan dyra síðan 11. júní sl. Erling er búinn að hvítta allan panelinn og mála margt og laga og við höfum í sameiningu gert þetta að heimili með öllum þessum litlu og stóru hlutum sem tilheyra heimili. Við höfum keypt okkur ný húsgögn þar sem þeirra var þörf og þau, í bland við þessi sem fyrir voru, skapa fallega umgjörð í hreiðrinu okkar.
Ég vona að þeir sem hingað koma finni að við fluttum hjörtu okkar með því eins og ég las einhvers staðar nýlega þá er heimilið þar sem hjartað er.

Ég er mjög þakklát fyrir þau forréttindi sem við njótum að fá að búa á svona stað, áin heillar, virðuleg og þung streymir hún stöðugt framhjá gluggunum hjá okkur og ég get staðið nánast endalaust og horft á hana og fylgst með fuglunum fljúga tignarlega yfir henni eða synda makindalega á henni. Sjónarspil náttúrunnar er mjög stórbrotið og sköpunarverk Guðs er svo augljóst hér fyrir utan, ég tala ekki um seint á kvöldin þegar fjöllin litast af rauðum bjarma himinsins þegar sólin er við það að ganga niður. Stórkostleg sjón.

Eitt kvöldið fyrir stuttu síðan sátum við Erling við eldhúsborðið þegar hann Gunnar nágranni okkar gekk upp götuna með þennan líka stóra lax sem hann var að draga uppúr ánni. Erling stökk auðvitað út og spjallaði við hann enda veiðiáhuginn sameiginlegur með þeim.

Ég held næstum að við séum búin að fá fleiri gesti þessar sex vikur hér í Húsinu við ána heldur en tvö árin sem við bjuggum í Vesturberginu og okkur finnst það alveg meiriháttar. Gestir eru miklir auðfúsugestir hér á óðalssetrinu okkar Erlings og Hrundar.

Veðrið hefur leikið við okkur undanfarna daga eins og aðra landsmenn og helgin er búin að vera alveg stórskemmtileg. Í gær fór ég og hitti hluta af stórfjölskyldunni minni en þau voru í útilegu við Apavatn. Þarna voru allar dætur mínar með sitt fólk, mamma, pabbi og flest systkini mín með sitt fólk. Við eyddum deginum saman og krakkarnir nutu sín í botn enda er þetta meiriháttar góð aðstaða þarna og greinilega tekið mið af börnum við skipulagningu svæðisins. Erling kom síðan um kvöldmatarleytið og grillaði með okkur en hann var á Fitinni að reisa litla sumarhúsið sem við erum að koma okkur upp þar. Í gær kom í ljós að Húsasmiðjan hafði afgreitt okkur með vitlaust hús en við vorum svo heppin að Hlynur mágur minn, starfsmaður Húsasmiðjunnar, var staddur þarna í sínu húsi og hann var snar í snúningum, ræsti út mannskap og hætti ekki fyrr en hann var búinn að láta senda bíl af stað með annað hús fyrir okkur og svo tók hann á móti því fyrir okkur í gærkvöldi svo Erling gæti komið til okkar í útileguna.
Þegar ég fór svo á fætur “snemma” í morgun var Erling farinn austur og er væntanlega byrjaður að reisa húsið núna en hann ætlar að vera búinn að því fyrir verslunarmannahelgi.

Ég ætla að njóta sólarinnar á pallinum í dag og vona svo að fólkið mitt komi við á heimleið frá Apavatni seinna í dag. Njótið lífins vinir mínir því það er svo skemmtilegt og munið að ef við erum heima þá er alltaf heitt kaffi á boðstólum í Húsinu við ána og þið eruð velkomin. Þangað til næst………

2 ummæli:

Íris sagði...

Takk fyrir gærdaginn og áðan! Þetta var alveg ferlega skemmtilegt!! Verðum að endurtaka þetta sem fyrst ;)
Sjáumst
Þín elsta dóttir!

Nafnlaus sagði...

Tek undir með Írisi, takk fyrir samveruna í gær, það var snilld að enda góða og skemmtilega útilegu á pallinum hjá þér. Sjáumst á fimmtudaginn, kannski fyrr;) Þín Arna