sunnudagur, júlí 30, 2006

Góðar minningar eru dýrmætar

Það eru rúm 30 ár síðan ég sá þá bræður í Kirkjulækjarkoti í fyrsta sinn. Ég var komin á mitt fyrsta Kotmót og í fyrstu fannst mér þeir allir eins, um tíma vissi ég aldrei hver var hver en þó voru þeir mjög ólíkir. Það var auðséð að fólk bar virðingu fyrir þeim enda vorum við öll gestir á þeirra heimaslóðum. Ekki datt mér nú í hug þarna hversu mikið ég átti eftir að tengjast fólkinu í Kotinu, hvað þá að einn bræðranna yrði tengdafaðir minn. Maggi, Ninni og Grétar voru allir elskulegir menn og vildu allt fyrir alla gera og eins og er með syni þeirra þá held ég að þeir hafi getað gert allt sama hvert viðfangsefnið var.

Ég var að hugsa um þetta á föstudaginn var þegar við fylgdum Ninna til grafar, sá síðasti af þeim bræðrum sem kvaddi þetta líf. Maggi tengdafaðir minn fór fyrstur, síðan Grétar einu og hálfu ári seinna og nú Ninni. Eftir útförina þá kíktum við í Kotið í kaffi til vina okkar Gylfa og Christinu. Þegar við komum á hlaðið við sjoppuna hans Ninna þá voru þar Davíð og Már frændur Erlings og við fórum að spjalla við þá. Smátt og smátt fjölgaði ættingjum á planinu og mikið skrafað og rætt eins og venjulega þegar fólk sem hittist sjaldan hittist svo.

Hugur minn fór á reik, ég man svo vel eftir því þegar ég var 15 ára og var á Kotmóti og fékk þann heiður að fá að vinna í sjoppunni um verslunarmannahelgina. Það var sko gaman, alltaf straumur í sjoppuna og mest seldist af Spur, síríuslengju og lakkrísrúllu.

Synir bræðranna voru sko flottir gæjar og ekki spillti fyrir þegar þeir komu í sjoppuna til að kaupa nammi að þeir stoppuðu og spjölluðu við okkur Barbro en hún var oft með mér að afgreiða. Það verður þó að segjast að einn þeirra vakti meiri athygli mína en hinir og þegar hann kom inn í sjoppuna þá kom svo undarleg tilfinning alltaf yfir mig, hjartað hamaðist og fæturnir urðu undarlega linir. Hann var við það að stela hjarta mínu og eitt kvöldið fórum við ásamt fleirum í göngutúr. Göngutúrinn var afdrifaríkur og eins og þið flest vitið þá höfum við gengið saman veginn í 30 ár, 4 dætrum og 5 dótturdætrum ríkari. Já hann Erling minn var svo sannarlega flottur gæi, með liðað hár niður á axlir, átti jakka með loðkraga (sem reyndar hvarf á dularfullan hátt fljótlega eftir að við fórum að búa) og svo átti hann skellinöðru og það voru ófáar ferðirnar sem við Barbro fengum að vera aftan á.

Hinir gæarnir í Kotinu og konurnar þeirra eru miklir vinir okkar Erlings og ég er svo þakklát fyrir þessa vináttu og bræðraböndin sem binda þessa stráka svo þétt saman enn í dag enda eru þeir aldir upp hlið við hlið og hafa ófá prakkarastrik framið saman. Gylfi og Christina, Rúnar og Júlíana, Heiðar og Sigrún, Hlynur og Gerður, Erling og Erla, þetta eru litlu og stóru strákarnir úr Kotinu og þeirra frábæru konur.

Það er gott að eiga svona minningar og við fráfall Ninna þá drýp ég höfði í virðingu við minningu þessara bræðra frá Kirkjulækarkoti sem mér þótt svo mikið vænt um. Ég veit að þeir eru allir heima hjá Drottni og ég fæ að sjá þá aftur. Mættum við öll taka breytni þeirra til fyrirmyndar því þeir voru allir stólpar í Guðs ríkinu og eitthvað svo sannir í trú sinni. Þeir sýndu trú sína meira í verki en orði og ég veit að vegna þeirra hafa margir eignast lifandi trú á Jesú Krist. Guð blessi minningu þeirra allra.

1 ummæli:

Heidar sagði...

Takk fyrir skemmtilegt "flashback" og tek undir með þér að trú bræðranna í Kotinu er til eftirbreytni.