sunnudagur, desember 24, 2006

Aðfangadagur jóla er einmitt í dag.......

Það er allt að verða hljótt hér í Húsinu við ána. Klukkan er farin að ganga tvö eftir miðnætti, Þorláksmessa að baki og framundan er aðfangadagur jóla.

Ég breytti útaf vananum og fór úr húsi í dag en það hef ég ekki gert á Þorláksmessu í mörg ár. Hef verið í fríi þennan dag eins lengi og ég man eftir og verið búin að kaupa allt inn og bara notið þess að vera heima og undirbúa heimilið undir hátíðina.

Við Erling fórum sem sagt í bæjarferð í dag, hann fór að hitta Hlyn bróður sinn yfir kæstri skötu og ég fór og keypti síðustu jólagjöfina. Við hjónakornin hittumst svo þegar þessu var lokið og buðum okkur í kaffi til mömmu og pabba áður en við keyrðum yfir heiðina á leið heim á herragarðinn okkar. Alltaf jafngott að koma við hjá þeim og þau voru hress eins og vanalega.

Vinir okkar Gylfi og Christina komu svo við áðan og við áttum notalegt samfélag með þeim yfir rjúkandi súkkulaði með þeyttum rjóma ásamt ýmsu öðru meðlæti sem tilheyrir þessum árstíma.
Við Christina ákváðum að gera þetta að hefð.

Um tíuleytið komu síðan Hrund og Arna heim, örþreyttar eftir daginn en við skreyttum samt jólatréð áðan og borðstofuborðið en mér finnst það algerlega nauðsynlegt að það sé tilbúið þegar ég kem niður að morgni aðfangadags og þótt heimilisfólkið hér væri þreytt þá var það samt látið eftir mér.

Erling er búinn að skreyta stóra jólatréð hér fyrir utan og setti í það um 700 perur svo það er mjög flott.

Við erum sem sagt tilbúin í jólin, á morgun verður bara notalegur dagur, mikil afslöppun og eina sem þarf að huga að er matseldin og Erling sér um það og ég held honum bara félagsskap á meðan og færi honum kaffi annað slagið. Eygló og Bjössi koma svo seinnipartinn og halda jólin með okkur og ég er mjög ánægð með það. Helst vildi ég hafa allar stelpurnar mínar og þeirra fólk en ég skil líka vel þegar þær vilja fara að halda sín eigin jól og skapa sínar hefðir fyrir sig og börnin sín. Mér finnst reyndar mjög gaman að sjá hversu mikið af okkar hefðum halda áfram hjá þeim og nefni ég þar t.d. hinn sérstaka hrísgrjónagraut sem hún tengdamóðir mín gerði alltaf og við höfum hann alltaf og nú er Íris farin að gera hann líka og þannig helst þetta kynslóð eftir kynslóð. Bara gaman.

Jæja, hér á þessum bæ er Sveinki enn á kreiki á nóttunni fyrir jólin, þótt hér búi bara fullorðin börn, það væri samt kannski réttara að tala um Sveinku í okkar tilfelli og ég held að það sé best að fara að athuga með hana.

Jólakveðjan okkar fer í póst milli jóla og nýárs en ég vil óska lesendum mínum gleðilegra jóla og bið þess að friður Guðs og gleði umvefji ykkur ríkulega þessa jólahátið.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já hún Sveinka er sko aldeilis gjafmild við uppkomna brottflutta barnið sitt sem dvelur hjá henni og Sveinka yfir jólin. Sálin og Gospel sló sko alveg í gegn:):)
Mamma þú ert æði lengst í gegn og langt út fyrir það. Ég elska þig gommu og miklu meira en það:) Þín Arna

Eygló sagði...

Gleðileg jól elsku mamma, það var ekkert smá notalegt að koma til ykkar í gær og ekki skemmdi góði jólamaturinn fyrir!! :) Hlakka til að sjá þig og ykkur á eftir :) kveðja Eyglóin þín og Bjössinn minn biður að heilsa :)