föstudagur, desember 29, 2006

Svona liðu jólin.....

Aðfangadagur rann upp ljúfur og góður líkt og áður. Ég svaf svona næstum til hádegis enda var Sveinka á ferð þegar langt var liðið nætur eftir erilsaman en skemmtilegan Þorláksmessudag.

Við hjónin, ásamt yngri dætrum okkar, snæddum saman okkar mjög svo hefðbundna hádegisverð þessa dags, reyktur og grafinn lax, nýbökuð smábrauð, egg, síld og mandarínur. Í pottinum kraumaði reykt nautatunga sem Erling keypti og þetta var allt svo notalegt og ljúft, alveg samkvæmt vananum.

Dagurinn leið svo yfir eldamennsku og undirbúning áður en hátíðin sjálf gekk í garð. Kvöldið var skemmtilegt og við nutum þess öll í botn. Eygló og Bjössi komu til okkar og eyddu kvöldinu með okkur. Allir fengu flottar gjafir og það var þreytt en ánægt fólk sem gekk til hvílu að kvöldi aðfangadags, reyndar var komið fram á jólanótt.

Á jóladag fórum við til messu í Selfosskirkju og síðan komu þau öll til okkar, Íris og Karlott með litlu gullin sín og einnig Eygló og Bjössi. Arna var hjá okkur yfir jólin en litlu krúttin hennar eyddu jólunum með pabba sínum og foreldrum hans í sveitinni fyrir norðan.

Á annan í jólum var svo afmælisboð heima hjá Tedda og það hefur alltaf verið eins og jólaboð, Kata mágkona mín töfrar alltaf fram frábærar veitingar og það var ljúft að spjalla við vini sína og vandamenn. Kvöldinu eyddum við svo hér í góðu yfirlæti í “Húsinu við ána”.

Við Erling erum búin að vera í fríi milli jóla og nýárs en Arna og Hrund fóru í bæinn því þær eru að vinna en svo koma þær heim á laugardagskvöld og þá verða með í för litlu stelpurnar hennar Örnu og við ætlum að hafa smá litlu jólin á gamlárskvöld fyrir þær mæðgur og þá fær Arna allavega að fylgjast með þeim taka upp nokkra pakka. Mikið hlakka ég til þess.

Í fyrrakvöld kláruðum við jólakveðjuna frá okkur þetta árið og svo vöktum við fram á nótt meðan við vorum að prenta hana út og kveðjan fór í póst í gær. Okkur fannst mjög gaman að þessu enda hefur árið verið okkur svo viðburðarríkt og gott að full ástæða var til að sleppa hefðbundnum jólakortum og segja ykkur svolítið meira frá árinu en rúmast fyrir á litlu korti.

Í gær fórum við austur í Fljótshlíð, kíktum á fjallakofann okkar á Föðurlandi og þar var allt í stakasta lagi, alltaf jafn notalegt að koma þangað, setjast í sófann umvafinn teppi meðan gasofninn hitar upp fyrir okkur og fylgjast með kertalogunum leika listir sínar á veggjunum. Frábært athvarf. Við heimsóttum síðan vini okkar sem þar búa, gott að eiga góða vini. Á heimleiðinni, klukkan að ganga ellefu, segi ég við Erling að mig langi nú bara í steik en því miður var búið að loka búðum. Við komum hingað á herragarðinn rétt fyrir ellefu og Erling fer eitthvað að vesenast. Og viti menn, þremur korterum seinna er mér boðið til málsverðar, tveggja manna miðnæturpartí. Grillaður humar, lambalundir ásamt meðlæti. Hann Erling minn er alveg meiriháttar og svona stundir sem við eigum saman hjónin skreyta lífið miklu meira en hægt er að segja frá í nokkrum orðum.

Hafið það um áramótin og farið varlega með flugeldana,
þangað til næst.....

2 ummæli:

Eygló sagði...

Skemmtileg frásögn og jólin voru alveg einstaklega skemmtileg og notaleg eins og búast má við þegar þeim er eytt hjá ykkur, ekkert stress, bara verið að njóta hátíðarinnar í botn :) Love it! Hlakka til að koma svo austur á sunnudaginn með sæta manninn minn :) Kveðja uppáhalds Eyglóin þín ;)

Nafnlaus sagði...

Vá þið pabbi alveg æðisleg. Alltaf að gera eitthvað fallegt fyrir hitt. Þið eruð góð fyrirmynd, Ást, ást... Arna