mánudagur, desember 11, 2006

Strákur eða stelpa?????

Hvað það verður veit nú enginn en ólíkt því sem er í jólalaginu fræga þá er ekki mikill vandi að spá fyrir um þetta þar sem hingað til hafa einungis komið litlar prinsessur í heiminn í fjölskyldunni okkar Erlings og bara gaman að þeim litlu yndigullum.
Petra Rut og Katrín Tara eru að verða stóru systur og það verður rétt eftir miðjan maí sem það kemur í ljós hvort tíundi afkomandi okkar verður karlkyns eða kvenkyns. Elsku Íris og Karlott, innilega til hamingju og ég bið Guð að allt gangi vel á meðgöngunni.

Annars er allt gott af okkur að frétta, jólin eru alveg að koma og ég hlakka ekkert smá til, það verður gaman að halda jólin í fyrsta sinn í “Húsinu við ána”. Erling er að leggja lokahönd á það sem verður klárað af eldhúsinnréttingunni fyrir jólin og þá get ég farið að hengja upp jólagardínur og setja jólaljós út í glugga. Það verður síðan verkefni nýs árs að ljúka við það sem ekki hafðist að klára fyrir jólin. Mér finnst það ekkert mál og mun halda frábær og gleðileg jól þótt ekki sé allt tilbúið.

Við komum heim frá Köben í gærkvöldi eftir frábæra ferð. Eins og ykkur lesendum mínum er kunnugt þá var þetta vinnustaðaferð með vinnunni minni og svo bauð Örn, eigandi stofunnar, okkur á Reef and Beef veitingastaðinn sem ég sagði ykkur frá um daginn og maturinn var algerlega ómótstæðilegur. Ég fékk mér strútakjöt og það var mjög sérstakt og mjög gott. Erling fékk nautakjöt sem var framleitt í Ástralíu eftir sömu aðferð og japanska nautakjötið sem hefur verið talað um og fær svo sérstaka meðferð, t.d nudd einu sinni á dag svo kjötið verði mýkra. Það eru aðeins fjórir búgarðar í allri Ástralíu sem hafa fengið leyfi til að nota þessa aðferð og þetta kjöt kom frá einum þeirra. Það er ekki nokkur leið að lýsa bragðinu með orðum en kannski orð eins og meiriháttar, besta sem ég hef smakkað eða eitthvað í þá áttina segi kannski smá. Vinnufélagar mínir fengu sér ýmist krókódíl, kengúru, strút eða nautakjöt en þau voru í skýjunum yfir matnum eins og við.

Við fórum í búðir, settumst á bekk á Ráðhústorginu og skoðuðum mannlífið, fórum tvisvar á Baresso kaffihúsið sem er komið í uppáhald hjá okkur, sváfum út, borðuðum mikið af góðum mat, fórum í jólatívolíð og skemmtum okkur frábærlega vel. Í gær enduðum svo ferðina á að fara í gönguferð um slóðir Íslendinga í Kaupmannahöfn undir öruggri leiðsögn Guðlaugs Arasonar, mæli með gönguferðunum hans ef þið eruð í kóngsins Köben á þeim tíma sem hann er með þær.

Jæja vinir, nú ætla ég inn í stofu og fá mér kaffi og konfekt með Erling. Hér með tek ég undir með konunni sem skrifaði í nýjustu Vikuna, “Til hvers að stressa sig við það á aðventunni að komast í kjólinn fyrir jólin. Þeir sem umgangast mann á jólunum hafa hvort sem er séð mann eins og maður er núna og elska mann hvort sem aukakílóin eru eða ekki.” Höfum það kósí með kertaljós, rauðvín og osta, eða kaffi og konfekt og njótum þess að vera til. Og eins og Ella systir segir í blogginu sínu “Borðum jólasmákökurnar núna því við höfum hvort sem er ekki lyst á þeim yfir sjálf jólin” Það má svo bara snúa sér að grænmetinu á nýja árinu.

Þangað til næst............

3 ummæli:

Íris sagði...

Já, það verður spennandi að vita hvort þetta sé strákur eða stelpa þrátt fyrir yfirgnæfandi líkur á að þetta sé stelpa ;)
Gaman að lesa um ferðina ykkar og greinilegt að þið nutuð hennar í botn! Hlakka til að koma og skoða myndir og hitta ykkur því það er orðið alltof langt síðan við hittumst.
Hlakka til að drekka kakó og borða nammi og mandarínur!
Sjáumst

Nafnlaus sagði...

Já það er spennandi að vita hvort það verður frændi eða frænka..... Það væru skrýtið að fara að skoða blátt í búðunum en líka rosa gaman. Ég hlakka til að hitta þig mamma og allar hinar gellurnar á eftir á Argentínu:):):) Ohhh, það verður gaman, svo verð ég að fara að kíkja á Selfoss... Þín Arna

Eygló sagði...

Gaman hvað þið pabbi kunnið að njóta lífsins :) Og til hamingju með komandi ömmubarn ;) Gaman að því, Erling litli eða Erla litla?? Hehehehe... Jæja við sjáumst í kvöld sæta :) Þín uppáhalds Eygló ;)