sunnudagur, desember 17, 2006

Hvað langar þig að fá í jólagjöf?

Ég kom við í foreldrahúsum einn daginn í liðinni viku. Það er alltaf jafn notalegt að kíkja við hjá mömmu og pabba eftir vinnu, fá sér kaffisopa í góðum félagsskap og heyra fréttir af fjölskyldunni og segja frá því sem á daga manns hefur drifið síðan síðast.
Auðvitað voru jólin rædd og allt tilstandið í kringum þau og misjafnt hversu langt hver og einn var kominn við undirbúning þessarar hátíðar okkar, hátíð ljóss og friðar.

“Hvað viltu svo fá í jólagjöf” spurði ég mömmu og hafa eflaust mjög margir fengið þessa spurningu sl vikur. “Mig skortir ekkert, á allt sem mig langar í og þarfnast” sagði þessi flotta mamma mín. “En mig langar í geit í jólagjöf” sagði hún svo. Einhverra hluta vegna þurfti þessi ósk hennar nánari útskýringar við. Jú það er nefnilega þannig að það er hægt að kaupa geitur og gefa fjölskyldum sem búa í svokölluðum þróunarlöndum og sú gjöf getur algerlega skipt sköpum fyrir viðkomandi fjölskyldu. Geitin framfleytir fjölskyldunni. Svo er líka hægt að kaupa vatnsbrunna og eins og þeir segja hjá Hjálparstofnun kirkjunnar þá gefur vatnið von.

Við Íslendingar, sem búum við allsnægtir, eigum erfitt með að setja okkur í þær kringumstæður þar sem geit og vatn getur skipt fólk ÖLLU máli. Við fáum vatnið, hreint og tært, beint úr krananum og kaupum mjólk, kjöt og aðrar nýlenduvörur bara í Bónus.
Einfalt, ekki satt, hvernig getur geit skipt svo miklu máli eða vatnsbrunnur?

Ég hef hugsað um þessi orð móður minnar, ég er líka í þeirra aðstöðu að eiga allt sem mig langar í, skortir ekki neitt og það sama gildir um flesta sem ég þekki og samt erum við að reyna að finna upp eitthvað sniðugt til að gefa hvert öðru í jólagjöf, já ég sagði, við reynum að finna eitthvað....

Hvað langar þig lesandi góður að fá í jólagjöf þetta árið?

4 ummæli:

Eygló sagði...

Mig langar í kápu, fallega svarta og hvíta, mig langar í matador, baggalútarjóladiskinn, brooklyn fæv jóladiskinn, nýtt nærfatasett, og margt fleira... En þetta er góð pæling, maður hefur það svo rosalega gott en við höfum líka gott af því að staldra aðeins við og hugsa til hinna sem hafa það ekki svona gott, maður tekur því sem alltof sjálfsögðum hlut.. Elska þig sæta mamma mín :) Þin dóttir Eygló

Nafnlaus sagði...

Í gamla daga sagði mamma alltaf þegar hún var spurð að þessu að hana langaði í 6 þæg börn - skil vel að hún hafi breytt þessu.... ég er viss um að það er auðveldara að kljást við EINA geit, en sex (Ó)þæg börn....
Mig langar allavega EKKI í 6 börn, reyndar langar mig ekkert voða mikið í geit heldur... þarf meiri tíma til að pæla í þessu.

Íris sagði...

Eygló, fínt að fá smá svona lista frá þér ;) Þá hefur maður úr aðeins fleiru að velja :D
Annars er þetta er alveg rétt. Maður rembist eins og rjúpa við staur að finna eitthvað sem mann langar í jólagjöf. Ekki vitlaust að gefa geit ;)
Þurfum að hugsa meira um tilgang jólanna!
Hlakka til að koma í heimsókna næst!
Þín Íris

Hrafnhildur sagði...

Þessi pæling með geitina er búin að vera hjá okkur líka. Og.. það er einfalt að framkvæma þetta. http://www.help.is/?hjalpa/gjafakort

"Sælla er að gefa en að þiggja"

Jólakveðja