þriðjudagur, október 17, 2006

Hún á afmæli í dag.....


Þótt ótrúlegt sé þá er ár eitt ár liðið síðan hún fæddist og hugur minn fer á flug aftur í tímann.

Það var frekar svefnlaus nótt, aðfararnótt 17. október. Nokkrum sinnum um nóttina vaknaði lítil stúlka og umlaði, vantaði snuðið sitt. Hún sofnaði um leið og það var komið á sinn stað. Þess á milli vaknaði ég við sms frá Örnunni minni sem var á fæðingardeildinni að eiga sitt þriðja barn. Það var ástæða þess að ég svaf ekki heima hjá mér heldur var ég hjá tveimur af ömmustelpunum mínum og það var Sara Ísold sem vaknaði af og til en Danía Rut er orðin svo stór að hún steinsvaf alla nóttina. Það var svo um hálf sex leytið að langþráða símtalið kom, lítil prinsessa hafði litið dagsins ljós rúmlega fimm um morguninn. Hún var algert grjón 12 merkur og 48 cm með mikið og dökkt hár eins og systur hennar voru. Þessi litla prinsessa er níunda stúlkan okkar Erlings í röð, við eigum 4 dætur og 5 dótturdætur og geri aðrir betur.

Já, hún Þórey Erla er orðin eins árs og í fyrradag héldum við upp á afmælið hennar hér í Húsinu við ána. Hér var margt um manninn og mikið fjör eins og vera ber í barnaafmæli og bara gaman að rifja upp gamlar endurminningar með því að hafa aftur barnaafmæli í húsinu.

Þórey Erla er hvers manns hugljúfi, einstaklega broshýr og geðgóð. Eldri systur hennar elska hana og eru mjög góðar við hana. Hún bræðir mann algerlega með brosinu sínu og svo skríkir hún og hlær þegar leikið er við hana. Hún er sannkölluð Guðs gjöf inn í líf okkar allra.

Elsku litla yndigull, ég óska þér til hamingju með daginn og bið Guð að vaka yfir lífi þínu og blessa þig um ókomin ár.

Ps. ef ykkur langar að vita eitthvað meira um brúðkaup Eyglóar og Bjössa og leyndarmálið varðandi kjólinn, kíkið þá á síðuna hans Erlings, hann er með pistil um það http://www.erlingm.blogspot.com/

2 ummæli:

Íris sagði...

Innilega til hamingju með minnstu skvísuna þína! Hún er algjört gull, það segiru satt!! Ótrúlegt að það sé komið ár síðan, svona er tíminn fljótur að líða!
Sjáumst hressar!
Þín Íris

Nafnlaus sagði...

Elsku mamma, takk fyrir flotta afmæliskveðju. Afmælisdaman "bað" sko um að fá að kíkja á ömmu sína í vinnuna áðan. Eða eitthvað. Sjáumst hressar og þú ert frábær, þín Arna