laugardagur, október 07, 2006

Stóri dagurinn

Þá er stóri dagurinn þeirra Eyglóar og Bjössa runninn upp bjartur og fagur. Veðrið er gott enda er mamma búin að biðja fyrir góðu veðri þennan dag í marga mánuði.

Undirbúningsvinnnan er búin og allt hefur gengið samkvæmt áætlun. Ég fór í gær og kíkti á veislusalinn þar sem verið var að leggja á borð en síðan mun hún Christina vinkona mín sjá um skreytingar og hún hefur harðbannað mér að stelast til að kíkja í dag og sjá afraksturinn, þetta á að koma okkur á óvart. Ég hins vegar treysti henni alveg enda er hún líka búin að setjast niður með brúðhjónunum tilvonandi og skrifa niður þeirra óskir og langanir.

Það er frábært að tilheyra samheldinni fjölskyldu þar sem allir eru boðnir og búnir að aðstoða okkur. Mamma mín er búin að standa í ströngu við að baka brúðartertuna og Hildur mágkona bakaði kransakökurnar, Sirrý systir gerði helling af fallegum leirskálum sem á að nota undir konfekt, Ella Gitta gerði.......leyndarmál.... fram yfir brúðkaupið en hún er alger snillingur í því sem hún gerði. Systur brúðarinnar hafa lagt sitt af mörkum og það er líka leyndarmál fram yfir brúðkaupið en það má samt segja frá því að Íris bjó til flott blað um þau og það verður í veislunni.

Í þessum skrifuðu orðum eru mamma, Dúdda og Sissa frænkur mínar að skreyta brúðartertuna og Christina er að skreyta salinn og kirkjuna. Ástarþakkir til ykkar allra fyrir alla hjálpina og ekki síst fyrir að vera vinkonur mínar. Ég met mikils að þið gefið af tíma ykkar fyrir mig.

Brúðurin tilvonandi gisti í föðurhúsum í nótt og í gærkvöldi eftir æfingu í kirkjunni kom fjölskyldan hans Bjössa hingað til okkar í kaffi og það var mjög notalegt og gaman að kynnast þeim. Seinna um kvöldið þá vorum við Erling hér með dæturnar fjórar og litlu brúðarmeyjarnar, Petru Rut og Daníu Rut. Það var hlegið og spjallað og rifjaðir upp gamlir tímar á þessum tímamótum Eyglóar.

Rétt bráðum mun fallega stofan okkar Erlings breytast í snyrti- og hárgreiðslustofu því Rakel, systurdóttir Erlings, og Ólafía, vinkona Írisar, eru væntanlegar til að dekra við brúðina og okkur hinar skvísurnar og gera okkur fínar. Erling er búinn að fara í bakaríið og kaupa brauð og sætindi handa okkur öllum og ég veit að þetta verður skemmtilegur og frábær dagur og ég ætla að njóta hans í botn enda nýt ég þeirra forréttinda að vera móðir brúðarinnar.

Og já kjóllinn.......hann er glæsilegur.......en hann er samt ennþá leyndarmál.

Þangað til næst kæru vinir, ég ætla að fara og kíkja á hana dóttur mína sem eftir nokkar klukkutíma fær titilinn ”Frú Eygló”

4 ummæli:

Eygló sagði...

Oh en skemmtilegt blogg hjá þér elsku mamma :) Þetta verður alveg ÆÐISLEGUR dagur og mér þykir rosalega gaman að vera hér síðustu nóttina og vera með ykkur :) Takk líka fyrir alla hjálpina, ég er svo þakklát fyrir allt sem þú ert búin að gera fyrir okkur, og auðvitað er ég líka þakklát öllum hinum sem hafa lagt hönd á plóginn, gott að eiga góða vini að og þú ert 1.flokks vinur :) Ég elska þig í fullt af ræmum og takk fyrir að vera besta mamma í heimi og þótt víðar væri leitað :) Þín Eygló brúður :)

Nafnlaus sagði...

Innilega til hamingju með Eygló! Þetta verður alveg æðislegur dagur!!
Þín Íris

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með stelpuna Erla mín.
Nanna

Nafnlaus sagði...

Innilega til hamingju með stækkun fjölskyldunnar, Eygló og Björn Ingi eiga eftir að fara snilldarlega með þetta. Svakalega klár bæði kveðja Davíð