þriðjudagur, september 26, 2006

Daglegt líf




Ég get hreinlega gleymt mér við útsýnið sem blasir við úr eldhúsgluggunum í Húsinu við ána þegar ég kem niður á morgnana. Sólarupprásin er svo stórkostleg og Hekla, hinum megin við Ölfusána, böðuð rauðum bjarma sólarinnar, er svo tignarleg og falleg.

Lífið er komið í fastar skorður eftir sumarfrí og búið er að finna út hvenær þarf að leggja af stað til Reykjavíkur svo Hrund nái strætó úr Mjóddinni í tæka tíð svo hún komi á réttum tíma í skólann. Við mæðgur ökum sem sagt samferða til höfuðborgarinnar á morgnana og svo heim aftur seinni partinn. Við notum tímann til að spjalla saman um allt mögulegt en stundum á morgnana sefur daman við hliðina á mér og ég hlusta bara á góða tónlist.

Það er ekki hægt að segja að nein lognmolla einkenni líf mitt þessa dagana, hvorki í vinnunni eða heima fyrir. Skattskil lögaðila ásamt uppgjöri virðisaukaskatts gerir það að verkum að mikið er að gera í vinnunni en við fengum reyndar fyrirheit frá eigenda stofunnar um Danmerkurferð í desember ef við myndum ljúka við ákveðin verkefni fyrir ákveðinn tíma og það tókst. Við förum, vinnufélagar og makar, að morgni 7. desember og komum heim að kvöldi 10. desember. Mikið hlakka ég nú til, Kaupmannahöfn í jólabúningi klikkar ekki.

Síðan er það auðvitað í fyrsta sæti brúðkaup Eyglóar og Bjössa sem er framundan. Þau ætla að gifta sig í Selfosskirkju 7. október. Undirbúningur hefur gengið vel og verið er að leggja lokahönd á það sem þarf að gera. Það er auðvitað í mörg horn að líta en þetta hefur verið skemmtilegur tími og ég efa ekki að þau hjónaleysin verða stórglæsileg á þessum merkisdegi. Kjóllinn er meiriháttar, hann er........leyndarmál................en hún verður falleg brúður hún dóttir mín..........

Við Erling höfum, síðustu tvær helgar, verið í húsinu okkar á Föðurlandi og það er svo notalegt að eiga svona athvarf þarna í sveitinni sem okkur þykir svo vænt um.
Húsið er tilbúið fyrir utan að það vantar rafmagn sem við erum nánast ákveðin í að taka inn fyrir veturinn. Þá verður hægt að vera meira þar.

Liltu og stóru ömmugullin mín dafna vel og það er alltaf jafn gaman að hitta þær. Íris og Arna komu með þær hingað áðan og það var aldeilis líf og fjör. Þær eru svo ólíkar en heilla mig algerlega hver með sínu nefi eins og sagt er.

Ég er byrjuð að læra línudans, sá auglýst námskeið fyrir byrjendur hér á Selfossi og skráði mig bara og dreif mig ein. Ég er búin að fara tvisvar og þetta lofar góðu, búið að vera mjög skemmtilegt. Mig hefur lengi langað að læra línudans og svo þarf maður einhvern veginn að kynnast fólkinu sem hér býr. Síðan erum við Erling búin að skrá okkur á námskeið í samkvæmisdönsum en það verður eftir áramót. Bara gaman.

Jæja vinir, það veitir ekki af að fara að koma sér í svefninn, þar sem klukkan verður stillt á að hringja kl 6 í fyrramálið eins og aðra daga þá er gott að fara stundum snemma að sofa. Njótið lífsins, það er svo skemmtilegt...... þangað til næst

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég frétti að nýju græjurnar höfðu gert lukku... hávaðalagið sett á og litlar ömmuhnátur dansandi glaðar!
Flott hjá þér að skella þér í línudans... á hann Erling ekki kusurekahatt? Þá er bara fyrir hann að láta vaða (er örugglega ekkert óvanur því)haha!
Ég frétti einnig að ég hefði misst af kóngarétti... nýveiddum laxi með tilheyrandi gúmmulaði á la Erling! Svoldið svekktur...
Bið að heilsa,
Karlott

Hrafnhildur sagði...

Það liggur við að ég öfundi ykkur af þessu ævintýrahúsi á ævintýrastaðnum en ég hef ákveðið að samgleðjast ykkur frekar :)
Frábært hjá þér Erla að fara í línudansinn! Ég fór einu sinni á þriggja mán. námskeið og ég skal sko dansa með þér þegar tækifæri gefst ;)
Bið að heilsa öllum þínum.

Eygló sagði...

Skemmtilegt blogg hjá þér mamma :) Þú ert alveg frábærasta mamma í heiminum og ef ég ætti þig ekki þá væri ég ekki komin svona langt með að skipuleggja allt í kringum brúðkaupið! Það er sko alveg á hreinu!! Takk fyrir alla hjálpina og ég hlakka ýkt til að sjá kjólinn sem þú keyptir fyrir stærsta daginn minn :) Lov U endalaust, þín dóttir, the bride to be :) Eygló

Nafnlaus sagði...

Vá þetta er sko að lifa lífinu...
Þú ert fyrirmynd og það sú besta elsku mamma:):) Þín Arna