mánudagur, apríl 17, 2006

Páskar


Þessar myndir eru teknar hjá Hrefnu á Vífilstöðum á páskadag




“Þú verður að vera leiðinleg þessa dagana og ekki reyna að draga mig neitt með þér” sagði húsbóndinn á heimilinu við mig þegar páskafríið var að skella á. Ég sagði honum eins og var að ég gæti ekki verið leiðinleg því ég er alltaf svo skemmtileg :o) og hann yrði bara sjálfur að bera ábyrgð á því að loka sig inni á skrifstofu og skrifa BA ritgerð og lesa undir lokaprófin. Ég lofaði því bara að reyna ekki að draga hann neitt með mér þessa frídaga og vera dugleg að laga kaffi og bjóða honum að koma fram í frímínútur. Þetta var auðvitað sagt í léttum tón en það hefur hins vegar reynst erfitt að standa við það að draga hann ekki út í góða veðrið sem hefur að mestu glatt okkur þessa dagana.

Á skírdag var okkur boðið í fermingarveislu hjá Hlyn bróðir Erlings og Gerði konunni hans. Það var Ragnheiður, önnur heimasætan á bænum sem var að fermast og hún var mjög sæt og fín í hvítum fermingarkjól. Veislan var auðvitað glæsileg eins og við var að búast enda er hún Gerður snillingur í að gera góðar kökur og brauðrétti. Það var gaman að hitta fólkið hans Erlings og gaman að heyra hvað þau samglöddust okkur með "Húsið við ána" og ég er viss um að við eigum eftir að eiga fleira samverustundir með þeim þar heldur en hér í höfuðborginni. En aftur að veislunni. Það sem mér fannst sérstaklega gaman þar var að veislan var brotin upp með því að bróðir Gerðar, konan hans og dóttir tróðu upp með tvo gítara og eina fiðlu og þau sungu og spiluðu þekkt íslensk lög og fengu svo gesti til að taka undir með sér í síðasta laginu. Þau voru svo ófeimin og skemmtileg, mér finnst alltaf svo gaman þegar fólk þorir að vera bara það sjálft.

Páskarnir hafa verið góðir og í gær tók eiginmaðurinn sér frí frá öllu skólastússi. Ég hafði afþakkað páskaegg og langaði frekar að fá nokkra “flotta og fína” konfektmola frá Konfektbúðinni og þeir runnu ljúflega niður með kaffinu í gærmorgun. Eygló gisti hjá okkur og Erling faldi eggið hennar og Hrundar og gerði síðan erfiðar vísbendingar fyrir þær og það fór drjúgur tími í það hjá þeim systrum að leita og þurftu m.a. að fara niður í geymslugang og á fleiri skrýtna staði áður en þær gátu farið að njóta súkkulaðibragðsins.

Eftir hádegi fórum við síðan og heimsóttum Hrefnu tengdamömmu á Vífilstaði og hún var bara hress og lét vel af sér og reytti af sér brandarana. Hún er með Alzheimer sjúkdóminn en líður samt bara mjög vel.

Seinna um daginn komu svo Íris og Arna með fjölskyldurnar sínar í heimsókn og við elduðum lamb og áttum skemmtilega stund saman. Það er svo frábært að vera amma og hafa þessar litlu stelpur allt í kringum sig. Þær bræða mann algerlega með framkomu sinni, segjandi manni að þær elski mann og vefja svo litlu handleggjunum sínum um hálsinn á manni og segja að þær eigi þessa ömmu, hver haldið þið að standist svoleiðis enda fá þær allt sem þær vilja eða því sem næst.

Núna er ég hins vegar að hugsa um að brjóta loforðið mitt og reyna að draga Erling aðeins út í góða veðrið. Ég hef ekki séð "Húsið við ána" í 8 daga og finnst tími til kominn að kíkja aðeins á það. Finnst ykkur ekki allt í lagi að freista þess að draga hann frá lærdómnum sem hann er búinn að sinna síðan klukkan átta í morgun?

Bara í svona 2 tíma eða svo...........................

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Go for it!!!!

Íris sagði...

Takk fyrir okkur á páskunum! Það var rosa gaman að taka einn heilan dag í frí og vera með fjölskyldunni og njóta þess að vera til!
En ég veit ekki hvernig það fór hvort þú náðir að draga pabba út en ég veit það með mig að það er rosalega leiðinlegt þegar maður þarf að vera að lesa að þurfa að segja nei og ekki fara með, og líka af þeirri ástæðu að mann kannski langar með en veit að maður hefur ekki efni á því ;)
Bara svona smá innsýn í hina hliðina á málinu :D