laugardagur, apríl 29, 2006

Ábyrgð eða ábyrgðarleysi - okkar er valið

Heilsan og heilsufar hefur verið ofarlega í huga mér síðustu daga. Góð heilsa er ekki sjálfsögð og sá sem missir hana missir mikið. Ég sá í sjónvarpinu fyrir nokkrum dögum viðtal við heiðursborgara Ísafjarðarkaupstaðar, frú Ruth Tryggvason, 85 ára gamla konu og var hún við afgreiðslu í Gamla bakaríinu en þar vinnur hún frá 9 á morgnana til 6 á kvöldin. Hún var hress og kát og naut þess virkilega sem hún var að gera. Mér fannst þetta ótrúlegt, ég sem hef verið að segja við Erling að mér finnist of mikið að vinna frá 9 til 5!!!!

Frú Ruth gæti hins vegar ekki unnið svona eða verið svona hress nema vegna þess að hún er svo lánsöm að vera heil heilsu meðan, því miður, alltof margir jafnaldrar hennar og þaðan af yngra fólk er löngu dæmt úr leik vegna heilsuleysis.

Heilsan fæst ekki keypt, jafnvel þótt maður ætti öll heimsins auðævi, en við getum haft heilmikið um það að segja hvort við höldum henni. Auðvitað eru margir sjúkdómar sem enginn getur ráðið við hvort hann fær eða ekki, en það eru líka margir sjúkdómar sem við getum komið í veg fyrir með því einu að lifa heilsusamlegu lífi.

Ef ég tala aðeins út frá sjálfri mér þá hef ég í gegnum tíðina sýnt alltof mikið ábyrgðarleysi gagnvart eigin heilsu þrátt fyrir að mitt heilsufar sé alls ekki mitt einkamál heldur skiptir hún fjölskyldu mína líka heilmiklu máli. Það að leyfa sér að vera alltof þungur svo árum skiptir er ekkert annað en ábyrgðarleysi því með því bjóðum við heim hættunni á alls kyns sjúkdómum s.s. hækkuðum blóðþrýsingi, áunninni sykursýki, ýmsum hjartasjúkdómum svo fátt sé nefnt. Ég las líka fyrir nokkrum dögum að of feitar konur séu í meiri hættu að fá brjóstakrabbamein en aðrar konur.

Ég er nú svo lánsöm að vera heilsuhraust ennþá fyrir utan að vera komin með hækkaðan blóðþrýsing sem má örugglega rekja til þess að ég er alltof þung. Ég hef hins vegar ákveðið að taka nú í taumana á mun róttækari hátt en áður og fara að sýna ábyrgðarfulla hegðun á lífi mínu, bæði mín vegna og fjölskyldunnar minnar vegna.

Það að fara eftir aðferðarfræði þess sem setti saman danska kúrinn, er mín meðferð og mitt “læknisráð” til að verða heilbrigð. Ég er nokkuð viss um að þeir sem þjást af alvarlegum sjúkdómum þætti danski kúrinn auðveld meðferð, ef það nægði þeim til að sigrast á sjúkdómi sínum. Allar þær konur sem koma fram á síðum “stelpublaðanna” og segja frá frábærum árangri við að ná tökum á ofþyngdinni eiga a.m.k eitt sameiginlegt. ÞÆR GÁFUST EKKI UPP. Þær hafa án nokkurs efa upplifað það að nenna þessu ekki, hella sér bara aftur út í sukkið og hætta, en verið nógu ábyrgðarfullar til að leyfa sér ekki slíka hegðun.

Ég og þú berum ábyrgð á lífi okkar og heilsu og það er ekki okkar einkamál, því flest eigum við fjölskyldu og okkur ber að hafa hana í huga. Væri ekki sorglegt ef við myndum deyja frá þeim og þau gætu litið tilbaka og komist að því að dauðdaginn hefði kannski verið á okkar ábyrgð að einhverju leyti. Kannski hefðum við verið búin að hunsa allar viðvaranir sem líkaminn og jafnvel læknirinn var búinn að gefa okkur....?
Spáum aðeins í þessu.........!

2 ummæli:

Erling.... sagði...

Nnáákvææææmleeega.....!
Góður pistill hjá þér. Mál sem varðar okkur öll.
Þinn E

Nafnlaus sagði...

Gæti ekki verið meira sammála síðasta ræðumanni! Þetta er rosalega góður pistill hjá þér og svo sannarlega eitthvað sem allir þurfa eða ættu að taka til sín!! Þú ert massa dugleg :) Lov U böööns. Eyglóin þín