laugardagur, nóvember 25, 2006

Ja hérna hér.......

.......ég held að það hafi ekki áður liðið svona langt á milli bloggfærslna hjá mér. Allt hefur þó sínar skýringar og mín er sú að það ótrúlega ástand hefur verið hér á heimilinu að tvær af þremur tölvum eru ekki að virka og þessi eina sem er Hrundar tölva er frekar ásetin af lærdómsþyrstum menntskælingum sem hér búa.

Nú erum við hins vegar bara tvö heima hjónakornin, þær frænkur voru að leggja af stað til Reykjavíkur að hitta vini sína og því um að gera að nota tækifærið og pikka aðeins enda hef ég, eins og stjórnmálamennirnir, fengið fjölda áskorana um að láta nú í mér heyra :o)

Dagurinn er búinn að vera skemmtilegur eins og laugardagar eru yfirleitt. Húsið er undirlagt af pappakössum sem innihalda nýju eldhúsinnréttinguna okkar og Erling er byrjaður að setja hana saman. Undanfarna daga hefur hann verið að rifa niður loftklæðninguna í eldhúsinu og setja ný ljós í loftið ásamt því að taka niður þessa gömlu, litlu innréttingu sem var hér þegar við keyptum húsið. Þetta er allt mjög spennandi og ég hlakka mikið til þegar eldhúsið okkar verður tilbúið.

Við erum búin að hafa skemmtilega gesti i heimsókn seinni partinn, Karlott kom með litlu skvísunar sínar og eins komu Teddi, Kata og börnin. Það er alltaf gaman að hittast, gott að tilheyra fjölskyldu sem droppar inn og tekur sig ekki of hátíðlega. Það var mikið hlegið hér að alls konar bröndurum og sönnum frásögum af ýmsum uppákomum. Við drukkum líka mikið kaffi enda sérlega gott með kaffifroðu og súkkulaðispæni.

Aðventan er byrjuð hjá mér enda ekki seinna vænnna, tíminn líður svo hratt og jólin verða komin áður en við vitum af. Erling er búinn að fara og sækja nýju kaffivélina okkar og það er ekkert smá frábært að setjast inn í stofu og drekka nýlagað kaffi og fá sér heimabúið jólakonfekt með. Okkur finnst miklu betra að njóta þess núna að fá okkur mola því á jólunum höfum við hjónin ekki mikinn áhuga á súkkulaði, viljum frekar brauð og lax eða bara kjöt. Erling fór með hluta af veiðifeng sumarsins í reyk og við munum njóta þess um jólin.

Ég nú búin að keyra á milli Reykjavíkur og Selfoss daglega í marga mánuði og finnst það ekkert mál. Mér finnst verst ef það er mikil hálka en þá er um að gera að fara bara nógu rólega yfir, sérstaklega niður Kambana. Við á þessum bæ höfum eina setningu í hávegum þegar kemur að ferðalögum hér á milli, “Það er betra að halda lífi en áætlun”.

Það er útlit fyrir skemmtilegu kvöldi sem við Erling ætlum að eiga saman, njótið lífsins vinir og ekki láta neitt stress ná tökum á ykkur, það er ekkert þess virði..........

2 ummæli:

Íris sagði...

Frábært hjá ykkur. Vildi að ég hefði verið með ykkur en þar sem ég er þræll prófa þessa dagana þá varð ég að vera heima og læra :D
Hlakka til þann 12. desember þá get ég farið að slaka á og hætt að stressa mig á prófum!
Gott að þið njótið aðventunnar vel, ég ætla sko að koma í heimsókn og sjá þessa flottu eldhúsinnréttingu þegar hún verður komin. Hlakka til að sjá.
OG.. gaman að "heyra" loksins frá þér hér á blogginu þínu ;)
Your oldest :D

Eygló sagði...

Nei nei nei... Eftir "margra" mánaða bið þá kom loksins nýtt blogg!! Bjössi hafði þá ekki rétt fyrir sér, en hann sagði við mig um daginn, "mamma þín bloggar örugglega ekki aftur fyrr en hún kemur aftur frá Kaupmannahöfn", sem hefði verið svolítið fyndið... En það er alltaf svo gaman að lesa bloggið þitt og ég er ekkert hissa á að þú fáir áskoranir um að blogga meira! Svo verður gaman að sjá nýju eldhúsinnréttinguna þegar hún verður komin upp! Þín uppáhalds Eygló :)