miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Sara Ísold, 2ja ára afmælisprinsessa

Það var óborganlegur svipur sem kom á hana Örnu dóttur okkar þegar við Erling gengum inn á stofu 4 á FSA, fjórðungssjúkrahúsi Akureyrar, á þessum degi fyrir nákvæmlega tveimur árum. Hún gjörsamlega gapti af undrun enda átti hún alls ekki von á að sjá okkur þarna. Davíð var ekki eins hissa, það var allavega ekki að sjá á honum. Þetta var sunnudagur og við hjónin, nýbökuð afi og amma í þriðja sinn stóðumst ekki mátið að brenna norður og sjá dömuna sem hafði bæst í hópinn okkar.

Veðrið var eins og best verður á kosið um miðjan vetur og okkur því ekkert að vanbúnaði. Við sögðum engum frá því vegna þess að okkur langaði að koma á óvart og okkur tókst það svo sannarlega. Þeir sem best þekkja okkur hjónin vissu þegar þeir reyndu að ná í okkur að okkur hlyti að hafa dottið í hug að “skreppa aðeins” og sjá fólkið okkar norðan heiða.

Fyrr þennan sama dag, reyndar mjög snemma morguns, reyndar næstum um nóttina hafði Arna sem sagt hringt í okkur og tilkynnt okkur fæðingu annarrar dóttur sinnar. Við vorum búin að fylgjast með fæðingunni úr fjarlægðinni í Reykjavík og vorum auðvitað mjög spennt. Rúmlega hálf fjögur um nóttina leit hún dagsins ljós, Sara Ísold, litla daman sem á afmæli í dag.

Hún er mjög heillandi barn og mjög dugleg. Hún talar heilmikið og er algjör gullmoli.
Sara Ísold er mjög hrifin af afa sínum og hann á að hjálpa henni með alla hluti þegar hún er hjá okkur. Þá réttir hún út litlu hendurnar sínar og segir “Afi hjappa mer”. Ég skil nú vel að hann standist það ekki.

Elsku Sara Ísold mín, ég óska þér innilega til hamingju með daginn þinn og vona að þú verðir mjög fljótt frísk svo það verði hægt að halda uppá afmælisdaginn þinn bráðum. Þú ert sannkölluð Guðs gjöf inn í líf okkar allra. Ég elska þig gullið mitt.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mikið ertu rík systir mín. Til hamingju með dömuna - og lífið!

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir afmæliskveðjuna elsku amma mín..... Hlakka til að sjá þig næst.... Sara Ísold ömmugullið þitt:):)

Ella Gitta sagði...

Til hamingju með hægri sinnuðu vigtina þína!!! Þú stendur þig ekki smá vel!!! Ég er stolt af þér.
kv. Gittan