sunnudagur, febrúar 12, 2006

Hvunndagshetjur.....

Ég fór í sextugsafmæli í gær hjá einni af uppáhalds frænku minni, henni Sissu systir hans pabba. Mér hefur verið sagt að þegar ég var lítið og auðvitað MJÖG fallegt barn þá hafi hún og systir hennar mömmu rifist um hvor væri meira skyld mér, þetta finnst mér fyndið
sérstaklega þegar við erum nú allar fullorðnar konur. Þær eru allavega báðar tvær í miklu uppáhaldi hjá mér þó svo að ég sé ekkert dugleg að hafa samband þá eiga þær sérstakan stað í hjarta mínu.
OG ÞAÐ UPPLÝSIST HÉR MEÐ AÐ ÉG ER JAFNSKYLD ÞEIM BÁÐUM.

Ég hitti auðvitað þó nokkuð af frændfólki mínu og var svo heppin að sitja nálægt Ellu og Sirrý systrum mínum og gat spurt þær um skyldleika við fólk sem ég þekkti ekki.

Einni frænkunni (pabbar okkar eru bræður) heilsaði ég í eldhúsinu og HÚN ÞEKKTI MIG EKKI, bömmer. Ég get auðvitað valið ástæðuna fyrir því að hún þekkti mig ekki, er ég orðin svona ellileg að hún þekkti mig ekki eða er ég alltaf að yngjast og þess vegna þekkti hún ekki þessa svarthærðu frænku sína. Ég hef ákveðið að þetta seinna sé ástæðan því mér myndi líða miklu verr ef hitt væri ástæðan.
Segi svo einhver að maður hafi ekki eitthvað að gera með það sjálfur hvernig manni líður.

Ég átti athyglisvert samtal við eina skáfrænku mína, þ.e. konu sem er gift bróðir hans pabba. Í haust skrifaði ég færslu um hana á blogginu mínu því hún veikstist skyndilega sl vor, fékk blóðeitrun eða sýklasótt og í kjölfarið þurfti að taka af henni báða fæturnar rétt fyrir neðan hné. Hún var fullfrísk einn daginn en þann næsta var henni ekki hugað líf og henni var haldið sofandi í öndunarvél í þó nokkurn tíma.

Í dag eru fjórir mánuðir síðan hún fékk gervifætur og ég verð bara að segja að ég dáist að dugnaði hennar, góða skapinu og síðast en ekki síst, óbilandi kjarki. Útlimir hennar eru alsettir örvefum og einna líkast er þetta eins og þegar fólk brennur mjög illa. Hún sýndi mér handleggina sína en þakkaði um leið fyrir að andlitið skyldi sleppa að undanskyldu einu slæmu öri við efri vörina. Hún var svo þakklát fyrir lífið sjálft og sagðist bara biðja Faðir vorið og það virkaði.

Hún gekk um í veislunni, göngulagið kannski ekki alveg eins og það á að vera ennþá en ef fólk vissi ekki að hún var á gervifótum þá myndi engum hafa dottið það í hug. Í samtali okkar sagði hún með bros á vör að læknarnir vildu að hún færi að ganga beint en ekki skakklappast svona eins og hún orðaði það. Aðspurð sagðist hún auðvitað stundum verða döpur yfir því að geta ekki bara farið út í göngutúr eins og hún var vön að gera en um leið sagði hún að það myndi koma að því, hún ætlar að halda áfram að þjálfa sig.

Hún var svo glöð að vera útskrifuð og geta verið heima hjá sér og að þurfa ekki að vera í hjólastól. Þvílík hetja sem hún er þessi kona sem er aðeins eldri en ég, á frábæra fjölskyldu, eiginmann, þrjú börn, eitt barnabarn og annað á leiðinni. Og hún kunni að þakka, ég get margt lært af henni……

Ég tek ofan fyrir öllum hvunndagshetjum þessa lands……………

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já Erla mín...hún Hanna "frænka" er sko sannkölluð hetja. Aldrei kvartar hún og hefur óbilandi trú á Guð og að Hann hjálpi henni. Það mættu margir taka hana sér til fyrirmyndar.

Sirrý litla

Íris sagði...

Ji, rosalega er hún dugleg!! Held að það væri rosalega auðvelt að detta ofan í þunglyndi og láta sér liða MJÖG illa ef maður myndi lenda í svona en hún hetja að geta haldið sér uppi og verið sterk!
Alveg rétt að maður getur lært mikið á svona fólki!!!
Takk fyrir þessa færslu, mjög góð!!!

Nafnlaus sagði...

Já hún er ekkert smá mikil hetja!! Ég dáist alveg að henni! Ooooog til hamingju með kílóin 3,5!! Ekkert smá dugnaður það! Lov U endalaust! Þín Eygló

Nafnlaus sagði...

Vildi bara segja til hamingju með færslu vigtarinnar í rétta átt.... þú ert rosalega dugleg!!!!
Mér finnst þú líka vera hvunndagshetja!!!