mánudagur, maí 15, 2006

Endurfundir


Mikið fékk ég skemmtilegan tölvupóst um daginn. Sendandi var bekkjarsystir mín úr Kvennaskólanum, Helga Benediktsdóttir. Það var komið að því að bekkurinn ætlaði að hittast því á þessu ári eru 30 ár síðan við lukum landsprófi úr Kvennó en í þá daga var Kvennó gagnfræðaskóli en ekki menntaskóli eins og í dag.

Sl laugardagskvöld vorum við svo mættar í Veitingahúsið Tjarnarbakkann í Iðnó, milli 25 og 30 hressar og flottar konur sem eyddu þessum skemmtilegu gagnfræðaskólaárum saman í leik og námi með dr. Guðrúnu P. Helgadóttur sem skólameistara.

Hópurinn spannar sennilega flestar starfsgreinar þjóðfélagsins og það er gaman að segja frá því að í þessum hópi er engin fráskilin og það útaf fyrir sig er stórmerkilegt í þjóðfélagi þar sem hjónaskilnaðir eru svona algengir.

Kvöldið heppnaðist mjög vel og ég skemmti mér frábærlega. Sumar stelpurnar hafði ég ekki séð í 30 ár en þekkti þær samt allar strax enda lítum við allar svo vel út eins og ég sagði hér að framan. Glæsilegar Kvennaskóladömur.

Það er líka gaman að segja frá því hér að ég tengist þessum stelpum líka í gegnum dætur mínar. Þórey bekkjarsystir mín kennir Hrund ensku í Kvennó og Sigga vinkona Þóreyjar, er með Írisi í bekk í laganáminu í Háskólanum í Reykjavík og þær eru meira að segja saman í vinnuhóp. Bara gaman að því.

Njótið lífsins kæru lesendur, það geri ég allavega........því sumarið er komið

3 ummæli:

Íris sagði...

Þetta hefur örugglega verið æðislegt kvöld! Hlakka til að fá að sjá myndir!

Erling.... sagði...

Þið verðið bara flottari með aldrinum..!!!

Nafnlaus sagði...

Ohhh, var þetta ekki skemmtilegt. SEgi eins og Íris, hlakka til að sjá myndir. Sjáumst hressar... Arna