laugardagur, maí 20, 2006

Nýstúdent


Það er alltaf merkilegt þegar einhver nær langþráðu takmarki sínu og þá sérstaklega þegar mikið hefur verið fyrir því haft.

Í dag setti Davíð tengdasonur minn upp hvíta húfu ásamt skólasystkinum sínum í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Hann er búinn að taka nokkur ár í það að ljúka stúdentsnámi sínu og hefur unnið fulla vinnu með því og tekið námið í fjarnámi bæði frá Verkmenntaskólanum á Akureyri og líka frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Hann og Arna eiga líka þrjár litlar stúlkur sem þarf að hugsa um og því hafði hann meira fyrir hvítu húfunni sinni en margir aðrir og ég er því afar stolt af honum.

Hann stefnir á að fara í Háskóla Íslands í haust og nema sagnfræði og ég efast ekki um að honum muni ganga vel því hann hefur gaman af því.

Davíð og litlu ömmustelpurnar mínar þrjár eru núna í sveitinni hjá foreldrum hans og ég efast ekki um að Doris dekrar þau á tá og fingri og litlu stelpurnar sem við eigum saman elska hana og njóta þess að vera hjá henni. Arna gat ekki verið með þeim í dag en fer norður eftir nokkra daga til þeirra.

Innilega til hamingju með þennan áfanga í lífinu Davíð minn og ég bið Guð að blessa þig og fjölskylduna þína ríkulega.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ohhhhhhhh....En krúttlegur og skemmtilegur pistill hjá þér mamma. Ég er líka alveg óendanlega stolt af honum Davíð mínum. Það er svo frábært að hvíta húfan er komin og svo bara sagnfræðin í hasut... Arnan

Íris sagði...

Já, þetta er svo sannarlega flott hjá honum!! Alveg glæsilegt, ekki allir sem gætu þetta með 3 lítil börn og að vinna með! Innilega til hamingju Davíð ef þú lest þetta!!