Fjöldi fólks glatar hlut sínum í hamingjunni. Ekki vegna þess að það hafi aldrei fundið hana, heldur vegna þess að það nam ekki staðar til að njóta hennar.
mánudagur, desember 31, 2007
Á síðasta degi ársins
Árið hefur verið mér afar gott og ég lít tilbaka sátt og glöð. Auðvitað er alltaf hægt að gera betur og mín áramótaheit að þessu sinni snúast um að gera betur á nýja árinu því þótt ég leggi mig yfirleitt fram um að gera hlutina vel þá má alltaf bæta sig. Ekki ætla ég samt að leggja fram mín áramótaheit hér en þau snúast ekki að því að grennast, hætta að reykja eða drekka minna. Þau snúast um um mannlegar hliðar lífsins. Með hverju árinu er mér það ljósara hversu miklu máli fjölskylda mín og vinir mínir skipta mig. Hversu mikilvægt það er að rækta garðinn sinn því ekki blómstrar hann af sjálfsdáðum.
Talandi um fjölskylduna þá langar mig að minnast á jólaboð sem var hér í Húsinu við ána fyrir nokkrum dögum. Við höfðum boðið hingað systkinum Erlings ásamt mökum, börnum og barnabörnum og buðum þeim að koma með veitingar með sér. Það var mjög góð mæting, ekki síst hjá ungu kynslóðinni sem kom með litlu krílin sín með sér. Það var mikið fjör og gleði hér fram eftir degi og um kvöldið þegar við vorum búin að ganga frá þá settumst við niður, ég og Erling ásamt Örnu og Hrund og spjölluðum saman um hvað þetta var gaman. Þá fann ég þessa gleðitilfinningu fara um mig því ég fann að þarna var búið að sá í garðinn minn. Allir sem komu voru ánægðir með þetta og ég vissi að fjölskylduböndin voru hnýtt fastari böndum. Eins og stendur í helgri bók þá er fólkið hans Erlings mitt fólk og fólkið mitt hans fólk og þannig vil ég hafa það. Mér finnst ég vera frænka allra þessara “krakka” (systkinabarna Erlings) og mér þykir svo mikið vænt um þau og fólkið þeirra. Stelpurnar mínar vilja gera þetta að hefð og við Erling erum meira en til í að sjá um það með þeim.
Við mágkonur og svilkonur Erlings megin höfum tekið ákvörðun að efla tengslin okkar á milli og það gleður mig líka mikið. Við erum að leggja í sjóð til að fara saman í aðventuferð næsta haust og ekki efast ég um að það verður gaman hjá okkur.
Það er með mikilli tilhlökkun sem ég horfi fram á nýja árið. Við Erling munum, ef Guð lofar, fagna 30 ára brúðkaupsafmæli okkar þann 4. mars og ætlum að halda uppá það. Lífið er ljúft, gott og yndislegt og ég fagna hverjum degi. Ég bið góðan Guð að blessa ykkur lesendum mínum nýja árið og veita ykkur það sem hjarta ykkar þráir. Ég þakka ykkur heimsóknir á síðuna mína og hlakka til meiri samveru við ykkur í bloggheimum. Þangað til næst........
fimmtudagur, desember 27, 2007
Til umhugsunar...
Þorirðu aldrei að taka áhættu því þú ert hræddur við að gera mistök?
Veistu að mestu framfarir mannkyns urðu til vegna fólks sem þorði að taka áhættu og lærði af mistökum sínum?
Ég ætla að leyfa mér að birta hér ljóð úr bókinni hennar Eddu Andrésdóttur fréttakonu um það hvernig hún og fjölskylda hennar upplifðu það að pabbi þeirra greindist með Alsheimer. Ljóðið hins vegar tók ég af síðunni hennar Gerðu mágkonu minnar og mér finnst svo mikill sannleikur í því að ég vil endilega að þeir lesendur mínir sem ekki fylgjast með blogginu hennar fái að lesa það. Ég held að það væri okkur öllum hollt að íhuga efni ljóðsins og læra af því.
Höf: Borges
mánudagur, desember 24, 2007
Aðfangadagur jóla.....
Þótt ótrúlegt sé, er enn einu sinni kominn aðfangadagur jóla, úti er hvítur snjór yfir öllu, ég sit inni á skrifstofu og pikka nokkrar jólalínur á tölvuna, frammi eru þrjár af ömmustelpunum mínum orðnar hálf trylltar af biðinni og kannski líka að nammið hafi þessi áhrif. Eygló og Bjössi voru að koma inn og ætla að eyða kvöldinu með okkur og þau og Arna og Erling sitja og spjalla frammi í eldhúsi. Hrund er að vinna til kl fjögur.
Hér ríkur yndislegur friður og ró, sannkölluð jólastemming eins og ég vil hafa hana.
Grauturinn og sírópið er að kólna úti á palli, hryggurinn bíður á eldhúsborðinu eftir að Erling geri hann tilbúinn í ofninn og tími til kominn fyrir mig að fara að gera salatið og huga að kartöflunum.
Inni í stofu er ljósum skrýtt jólatré ofan á mikilli pakkahrúgu og ekki skýtið þótt þrjár litlar stúlkur eigi erfitt með að bíða eftir að fá að rífa utan af þeim. Jólatónlistin ómar um húsið og mér líður svo vel. Það eru forréttindi af fá að upplifa jól á þennan hátt.
Ég vil óska ykkur lesendum mínum gleðilegra jóla og bið ykkur ríkulegrar Guðs blessunar og að friður Hans og gleði megi umvefja ykkur á sérstakan hátt.
laugardagur, desember 15, 2007
Skemmtilegt
Mamma, stelpurnar hennar og tengdadætur og svo stelpurnar okkar og tengdadætur, fara saman fyrir jólin út að borða og eiga skemmtilegt kvöld saman. Alís vinkona okkar og Sissa frænka komu með okkur eins og áður og það er gaman að þær vilja vera með okkur. Dúdda frænka hefur líka stundum komið með okkur en komst ekki að þessu sinni.
Fyrir okkur Selfossbúa leit ekki vel út í gærmorgun að komast til byggða. Við fjölskyldan í Húsinu við ána fórum á fætur á réttum tíma en þegar halda skyldi af stað til höfuðborgarinnar var veðrið orðið það slæmt að Erling tók ákvörðun að fresta för.
Við mæðgurnar skriðum aftur undir sæng en hann var á vaktinni.
Í hádeginu kom svo miðja lægðarinnar yfir og við nýttum okkur lognið á undan næsta stormi og ókum til byggða.
Það voru 14 prúðbúnar stelpur sem hittust svo í anddyrinu á Grand hótel og við áttum mjög skemmtilegt kvöld saman. Það var nánast full mæting fyrir utan að Ella Gitta var veik, Sólveig var að vinna og Thea ekki komin heim í jólafrí frá Svíþjóð. Maturinn var mjög góður, eina sem var ekki í lagi var að sósan með heita matnum kláraðist og það var korters bið í að önnur sósa kæmi. Svona á auðvitað ekki að gerast á fínu hóteli en við vorum nú ekki að velta okkur uppúr því.
Við skiptumst á jólapökkum og það er alltaf spennandi að vita hvað er í þeim pakka sem dregið er. Ég fékk t.d. flottan kertastjaka frá Sirrý systir sem hún hafði búið til sjálf enda er hún listakona af Guðs náð og gerir fallega keramikmuni.
Sigga Beinteins og Bryndís Ásmundsdóttir sungu svo fyrir okkur og nokkrir stigu dans og ég er nú ekki frá því að ef Erling hefði verið með okkur þá hefðum við jafnvel nýtt okkur danskunnáttuna frá námskeiðinu okkar, allavega fann ég kitlið í fótunum undir lögunum þeirra. Þær voru alveg frábærar.
Kvöldið heppnaðist frábærlega vel og við Hrund ókum heim á leið um kl ellefu og það gekk bara vel á heimleiðinni og komumst heilar á höldnu heim þrátt fyrir mikinn éljagang og hvassviðri á Sandskeiði og Hellisheiði.
Framundan er svo skemmtileg helgi með fullt af uppákomum. Á eftir erum við að fara á jólatónleika sinfóníuhljómsveitarinnar og strax á eftir í jólaboð til Eyglóar og Bjössa.
Á morgun er svo afmæli Katrínar Töru og annað kvöld förum við á Frostrósartónleikana.
Já aðventan er svo sannarlega skemmtilegur tími og ég nýt hennar í botn og ég vona svo sannarlega að þið gerið það líka vinir mínir. Takk fyrir skemmtilega samveru í gærkvöldi stelpur mínar, það er svo gaman að tilheyra stórri fjölskyldu ekki síst því við erum allar svo skemmtilegar. Þangað til næst......
mánudagur, desember 03, 2007
Hún er þriggja ára í dag,

fimmtudagur, nóvember 29, 2007
Súrmjólk og fleira skemmtilegt.......
Það var svona þokkalegt veður á heiðinni en þó nokkuð hvasst samt. Í Hveragerði var stoppað til að gera innkaup í Bónus. Erling skildi mig eftir þar og skrapp út á bensínstöð á meðan. Ég tíndi í körfuna það sem ég taldi að vanhagaði um heima, svona sitt lítið af hverju, keypti meira að segja súrmjólk aldrei þessu vant, held að súrmjólk hafi ekki áður komið með mér heim í Húsið við ána. Jæja, hvað um það, ég hélt áfram för minni eftir göngum verslunarinnar og stundum skildi ég körfuna eftir til að snúa við og ná í eitthvað sem ég gleymdi þegar ég gekk framhjá.
Ég var búin að taka lokastefnu á kassana þegar ég mundi eftir rjómanum, ekki mátti nú gleyma honum, hafragrautur með rjóma er algert lostæti og fyrir ykkur sem hugsið núna að það sé ekki skrýtið að Erling eigi svona mikið af mér þá er það hann sem notar rjómann hversdags en ég svona spari, haha. Karfan var yfirgefin og rjóminn sóttur en þegar ég kom tilbaka mætti ég Erling með körfuna okkar. Ég var nú hissa og spurði hann hvernig hann vissi að þetta væri karfan okkar. Hann leit á mig og sagði, ég þekkti innihaldið, veit hvernig þú verslar krúttið mitt. Og það þótt það væri súrmjólk í körfunni. Hann var þá búinn að ganga framhjá fleiri körfum sem voru einmana á göngunum en það var nóg fyrir hann að líta ofaní þær til að vita að þarna var ég ekki á ferð. Mér fannst þetta skondið en um leið lýsa því vel hversu samofin hjón geta verið.
Nú sit ég inni í stofu, úti er hrikalega vont veður, Erling var úti að setja í skjól hluti sem geta fokið en sem betur fer voru sumarhúsgögnin á pallinum tekin í hús síðustu helgi. Veðrið á bara að versna svo við ætlum bara að hafa það notalegt hér eins og vanalega, setja jólalög undir geislann og kveikja á kertum. Vinnukonurnar mala við verkin sín frammi, þær eru frábærar.
Framundan er skemmtilegur tími, nokkrir dagar eftir af vinnutörninni og svo bregðum við landi undir flugvél til að eiga saman nokkra góða daga í uppáhaldsborginni okkar, Köben. Og svo koma jólin............ Þangað til næst vinir mínir........
laugardagur, nóvember 24, 2007
Allar komu þær aftur...
Fjörið byrjaði auðvitað strax í Keflavík þegar við vorum allar komnar í gegnum alla skoðun og eftirlit og sestar niður með kaffi og með því. Vélin fór í loftið á áætlun og flugið út gekk bara vel. Ég hitti Guðrúnu Finnbjarnar, bekkjarsystur mína úr Kvennó, í vélinni en hún var líka að fara til Boston með mömmu sinni og systur. Skemmtileg tilviljun því hún var líka samferða mér til Kaupmannahafnar sl vor.
Í Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Í Boston fundum við okkur margt til skemmtunar. Við fórum í útsýnisturn, alla leið upp á
50. hæð og útsýnið var stórkostlegt. Við fórum í brunch á jazzklúbb í nágrenninu og það var mjög gaman. Við fengum borð alveg upp við sviðið og bandið sem spilaði var svo skemmtilegt og söngvarinn fór að spjalla við okkur í hléinu og við sögðum honum að Kiddý væri líka söngvari. Svo var það í einu laginu eftir hlé að hann beygði sig niður tók í hendina á Kiddý og bað hana að syngja með sér, sem hún og gerði og það var svo flott hjá henni.
Við skoðuðum Vísindakirkjuna, fórum í útsýnisferð um borgina í gamaldags rútu og með leiðsögumanni og bara virkilega nutum þess að vera til. Eitt kvöldið fórum við á hinn fræga Quinchi markað í Funehill hverfinu og þar var allt jólaskreytt. Maturinn þarna er mjög góður og við vorum vanar að byrja morgnana á að fara á Starbucks og fá okkur kaffi og eitthvað með því og svo enduðum við alltaf á að borða allar saman á kvöldin. Við vorum duglegar að splitta hópinn á daginn svo við værum ekki alltaf að biða eftir hver annarri í búðunum. Þó var það sjaldnast þannig að einhver væri ein nema hún vildi það sjálf.
Ég fór í “make up” í sjálfum Armani básnum í flottri snyrtivörubúð, ekkert smá gaman og andlitið varð bara miklu betra á eftir. Eyddi þar nokkum dollurum í flottar og góðar snyrtivörur.
Já búðir, alveg rétt, við fórum “aðeins” í búðir eða allavega nóg til þess að það þurfti tvo tíu manna leigubíla til að koma okkur og farangrinum út á völl. Þjónarnir á hótelinu og leigubílstjórarnir brostu góðlátlega að okkur og voru svo sætir að tala bara um hvað við værum fallegar og mennirnir okkar heppnir að eiga okkur.
Verðlag í búðunum þarna er alveg ótrúlegt, ég hefði hreinlega ekki trúað þessu að óreyndu. Ég vil nú ekki ganga svo langt að segja að það borgi sig að kaupa ferð og hótel til að kaupa jólagjafir en ef maður hefur áhuga á að fara í skemmtiferð svona að hausti til þá myndi ég mæla með því að hafa þá ferð aðeins lengri og kaupa jólagjafir og föt á fjölskylduna svona í leiðinni.
Þegar við vorum búnar að losa herbergin og skila þeim fórum við Ella og Kiddý í gönguferð um hið fræga Beacon hill hverfi. Sagt er að maður hafi ekki komið til Boston ef maður hefur ekki komið þangað. Mjög fallegar litlar götur og litlar kósi búðir alls staðar. Þar er bannað að hafa stór og mikil skilti enda eru öll skilti mjög gamaldags. Þar er m.a. hinn frægi Cheers bar og ekki amalegt að geta sagt “öllum” að ég hafi verið þar.......
Stelpur, takk fyrir frábæra og skemmtilega samveru.
mánudagur, nóvember 12, 2007
"Flugfreyjuklúbburinn" fer til Boston
Svo var það í janúar sl. að við hittumst í okkar árlega jólaklúbbi og þá var loksins tekin ákvörðun um að fara saman á þessu ári. Sjóðurinn hefur komið sér vel, ég er t.d. búin að borga hótelið og flugið og mun eiga helling af dollurum eftir til að kaupa eitthvað fallegt. Það er notaleg tilhugsun að vita til þess að visareikningurinn mun ekki hrella mig þegar heim verður komið.
Við erum sem sagt að fara 10 saman til Boston á fimmudaginn og verðum í 5 daga. (Við förum allar í klúbbnum nema Kata mágkona sem var búin að skipuleggja ferð til Orlando á sama tíma með systrum sínum og frænkum). Ekki er nú áætlunin sú að vera bara í búðum þessa fimm daga heldur skoða sig um í þessari amerísku borg sem er sögð vera mjög evrópsk. Við ætlum að reyna að fara í leikhús, skoða fallegar byggingar, fara á gospelsamkomu, sitja á kaffihúsi og skoða mannlífið og bara njóta þess að vera til og njóta félagsskapar við vinkonur sínar.
Sennilega verða töskurnar fleiri og þyngri þegar við komum heim aftur enda erum við að hugsa um að semja bara við eitthvað rútufyrirtæki um að sækja okkur á völlinn og biðja þá um að koma á nógu stórri rútu fyrir allan farangurinn. Jólin eru framundan og um að gera að reyna að versla jólagjafir á hagstæðu verði.
Svo tek ég undir með dætrum mínum að ég hlakka svooooo til jólanna, finnst þau alveg sérlega notaleg. Þangað til næst vinir mínir.............
sunnudagur, nóvember 04, 2007
Gospelkór Reykjavíkur, róleg helgi og frábær bók
Hljómsveitin sem spilaði með þeim var líka alveg einstök. Þau þyrftu bara að hafa tónleika oftar, þau eru bara snillingar. Ekki spillir fyrir að Íris dóttir mín er ein af meðlimum kórsins og það er svo gaman að sjá hana syngja. Einn vinnufélagi minn hafði orð á því eftir að hafa séð hana einu sinni syngja með kórnum að það væri svo gaman að sjá hana því hún syngi af svo mikilli innlifun. Get tekið heils hugar tekið undir það.
Annars er helgin bara búin að vera róleg. Ég var ein heima föstudagskvöld og á laugardeginum því Erling fór austur í Kofann og var að veiða um helgina og kom svo heim með þrjá fína laxa, duglegur strákur, alltaf að draga björg í bú. Þessir laxar ásamt fleirum enda svo í reykhúsi og verða á boðstólum um jólin. Það er reyndar mjög gaman að bjóða upp á lax sem húsbóndinn hefur veitt og svo grefur hann sjálfur laxa sem verða líka á boðstólum. Eins og fólkið mitt veit þá höfum við meira af svona sælkeramat um hátíðirnar heldur en sætindum. Okkur líkar það betur hjónunum og svo hafa stelpurnar smitast af því líka og eru farnar að kaupa inn brauð og lax frekar en sælgæti.
Ég fór í Bónus á föstudaginn og það er nú ekki í frásögur færandi svo venjulegt sem það er, nema ég sá í einni hillunni bók sem vakti áhuga minn. Sérstaklega þar sem neðst framan á bókinni stóð; Aðeins fyrir karlmenn. Aha, er það ekki þannig með okkur mannfólkið að oft er svo spennandi það sem er ekki okkur ætlað og ég tók eintak af bókinni, sneri henni á hvolf í körfunni og hlakkaði til að lesa hana þegar heim kæmi. Bókin er einfaldlega um það hvernig á að gera konuna sína hamingjusama.
Þar sem mínum manni hefur nú aldeilis tekist það bærilega þá langaði mig samt að lesa hvernig aðrir menn fara að því að gera sínar konur hamingjusamar. Ég er ekki alveg búin með bókina en vitið þið það að einhverra hluta vegna þá er alveg eins og þeir hafi skrifað bókina í sameiningu Erling og hann Þorgrímur (enda er konan hans frænka mín). Það er ótal margt sem Þorgrímur er að ráðleggja sem er alveg eins og Erling kemur fram við mig. Karlar og konur eru svo ólík en saman geta þau myndað þessa heild sem væru þau einn maður. Kynin nefnilega bæta hvort annað upp ef þau leyfa hvort öðru að njóta sín. Mér finnst alveg frábært að fá að vera veikara kerið, finna þessa umhyggju og finna það þegar mér er einfaldlega pakkað inní bómull og þarf ekki að vera að vasast í öllu mögulegu. Finna þegar byrðunum er létt af mínum öxlum yfir á sterku axlirnar hans og hann finnur alltaf lausn á öllum hlutum. Finna kærleikann þegar Erling bara tekur utan um mig og segir mér hvað honum finnst ég frábær. Finna umhyggjuna á ísköldum vetrarmorgnum þegar hann fer út og setur minn bíl í gang og skefur rúðurnar svo mér verði ekki of kalt þegar ég fer út. Setjast inn í stofu og vera fært kaffi og á sunnudögum er oftast súkkulaðimoli með. (Það má á nammidögum sem eru alltaf á laugar- og sunnudögum). Erling er ekki góðkunningi blómasalans og hann er ekki duglegur að koma mér á óvart en í öllu þessu daglega og hversdagslega þá finn ég hversu heitt ég er elskuð og metin. En vegna þess að hann kemur mér ekki oft á óvart með einhverju þess betur kann ég sennilega að meta það þegar það gerist og það er nú stundum. Mjög iðulega fer hann í búðina þegar við erum bara tvö og kaupir gott í matinn og eldar og ég þarf ekkert að gera nema njóta.
Hann kemur stundum heim með eitthvað sem við höfum verið að tala um að fá okkur og hann hefur hringt í mig og beðið mig að panta ferð fyrir okkur til Köben því hann veit að ég elska svoleiðis ferðalög.
Stelpurnar okkar eru algerar pabbastelpur enda dekrar hann þær algerlega uppúr skónum og litlu afagullin hafa hann algerlega í vasanum. Besti maður í heimi? Já fyrir mig er hann það svo sannarlega og ég þakka Guði fyrir hann.
Núna er komið sunnudagskvöld. Það er hljótt hér í Húsinu við ána. Hrund er í Reykjavík að hitta nokkrar bekkjarsystur sínar. Við erum því bara tvö heima hjónin og Erling var að elda þessa líka fínu steik og hún bragðaðist frábærlega. Þetta var folaldafillet sem hann setti kálfalifrarpaté inní. Umm þvílíkt góð.
Núna ætla ég að fara inn í stofu, stelast til að setja jólalög undir geislann, það eru nú alveg að koma jól, eða er það ekki, það finnst mér allavega.
Þangað til næst vinir mínir.........
föstudagur, október 26, 2007
Afmælisdagurinn hans Erlings

Það var eitthvað sérstakt við hann og mig langaði að kynnast honum betur. Það gekk eftir og hann er enn í dag besti vinur minn, sálufélagi minn og sá einasti eini sem þekkir mig betur en ég sjálf og er mjög næmur á mig og allt sem mér viðkemur. Það þýðir ekkert að segja honum eitthvað annað en satt þegar hann spyr um mína líðan og hann er óþreytandi í að gleðja mig á allan mögulega hátt.
Við höfum gengið saman í gegnum lífið þessi 32 ár, afkomendahópurinn stækkar stöðugt og tengdasynir bætast í hópinn. Á næsta ári, ef Guð lofar, munum við halda uppá 30 ára brúðkaupsafmælið okkar og erum þegar farin að leggja drög að frábærri ferð til að halda uppá þessi tímamót. Það er perlubrúðkaup en ég sagði honum nú fyrir stuttu að mig langaði ekki í perlur af þessu tilefni, ég er ekki svo mikið fyrir þær og hann sagði mér bara að hann þekkti mig nú nógu vel til að detta ekki í hug að kaupa handa mér perlur en hins vegar kallar hann mig ýmist perluna sína eða krúttluna. Mér þykir vænt um þær nafngiftir hjá honum.
Í dag á hann afmæli, er orðinn 48 ára, en eins og venjulega þá mundi hann það ekki þegar ég óskaði honum til hamingju í morgun. Hann á tvö stór áhugamál og ég er mjög ánægð með að hann sinnir þeim vel. Annars vegar er það veiðidellan, enda er það skylda hvers manns að draga björg í bú, er það ekki annars..... og hins vegar er það mótorhjóladellan sem hann er svo búinn að smita mig af.
Ég er ákaflega stolt af manninum mínum, elska hann meira en hægt er að lýsa í einni bloggfærslu og bið Guð að leyfa okkur að eldast saman, svo við getum gengið saman inní sólarlagið, tvær krumpaðar sveskjur hönd í hönd.
Til hamingju með daginn flotti maðurinn minn.....
mánudagur, október 22, 2007
Heima er best....
Við vorum í Kofanum um helgina og það var ljúft og gott að vanda. Það var þó nokkur gestagangur hjá okkur, hittum mörg systkini Erlings og það var bara gaman. Á laugardagskvöldinu grilluðum við góðan mat og nutum samfélagsins við hvort annað. Gylfi og Christina kíktu svo á okkur seinna um kvöldið og við spjölluðum um ýmis málefni. Um hádegi á sunnudag hringdi síminn hans Erlings og lögmaður frá virtri lögmannsstofu í bænum kynnti sig og spurði Erling hvort hann væri ekki höfundur að BA ritgerð um ábyrgð byggingarstjóra og iðnmeistara. Jú, ekki neitaði Erling því og erindi lögmannsins var hvort það væri möguleiki að fá ritgerðina keypta. Í stuttu máli þá fór Erling á skrifstofuna hans í dag og lögmaðurinn sagði að það væri mikill fengur að fá þessa ritgerð og tók upp veskið og greiddi uppsett verð án spurninga. Síðan spurði hann Erling hvort hann gæti aðeins farið yfir ákveðið mál sem varðaði byggingarstjórn og gefið sér álit sem Erling og gerði. Langaði bara aðeins að segja ykkur frá þessu því þetta var auðvitað gaman og mikil viðurkenning á skrifum Erlings.
Lexor mun bráðum fagna eins árs afmæli og vex og dafnar vel. Við erum mjög ánægð með að hafa tekið ákvörðun um að stofna þetta fyrirtæki með þeim markmiðum sem við lögðum upp með. Svo það eru spennandi tímar framundan hjá okkur.
Jæja vinir mínir, ætla að hætta og fara og fá mér kaffi með Erling, stofan okkar er svo freistandi. Þangað til næst.......
miðvikudagur, október 17, 2007
Hún á afmæli í dag.....

Það var haldið uppá afmælið hennar í Húsin við ána sl laugardag og það var svo gaman.
Ég er svo rík að eiga 5 litlar (stórar að eigin sögn) prinsessur sem eru allar vinkonur mínar og svo er kominn einn prins sem verður örugglega líka vinur ömmu sinnar.
laugardagur, september 29, 2007
Að lifa í Núinu
Eins og flestum lesendum mínum er kunnugt þá höfum við Erling ásamt fjölskyldunni hans allri verið minnt harkalega á það að ekkert er sjálfgefið. Eina stundina er allt í lagi og svo eins og hendi sé veifað er einn bróðirinn alvarlega veikur. Öðrum lesendum mínum til glöggvunar þá gerðist það á föstudagskvöld fyrir viku síðan að elsti bróðir hans Erlings, Hjalli, fékk alvarlega heilablæðingu og liggur núna á sjúkrahúsi, lamaður öðrum megin. Hjalli er bara 64 ára gamall, hefur að því er ég best veit aldrei legið á sjúkrahúsi áður og auðvitað er þetta mikið áfall fyrir alla og mest konuna hans og börnin þeirra. Á síðunni hans Erlings http://www.erlingm.blogspot.com/ er hægt að lesa meira um hvernig þetta allt er fyrir þá sem hafa áhuga.
Þessi atburður, ásamt því að hann Jói hennar Hildar fékk hjartaáfall fyrr í sumar og það er kraftaverk að hann lifði það af, fær mann til að staldra aðeins við og hugsa sig um. Þetta skerpir þá sýn á lífið og tilveruna sem við Erling fórum að sjá fyrir nokkuð löngu síðan. Það er alltof algengt að fólk njóti ekki “Núsins” Gefi sér ekki tíma til að staldra við í amstri dagsins, gefi sér ekki tíma til að sjá alla gimsteinana sem eru lagðir í götu okkar daglega. Og jafnvel þótt fólk sjái gimsteinana þá gefur það sér ekki tíma til að staldra við og tína þá upp vegna þess að það ætlar að finna alla gimsteinana sem eru við endann á regnboganum. Hversu oft heyrir maður ekki að einhver ætlar að gera þetta eða hitt þegar þessu eða hinu er lokið, eða einhverjum áfanga er náð, þá á að njóta lífins. Svo kemur í ljós að það er engin fjársjóðskista við endann á regnboganum
Það dapurlega er að margir ná aldrei að ljúka því sem þeir ætluðu að gera áður en hægt væri að njóta lífsins. Það getur svo margt komið uppá áður en þeim fyrirætlunum er náð. Við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér.
Þegar hann Hjalli kvaddi Sigrúnu sína þennan föstudagseftirmiðdag, óskaði henni góðrar ferðar til Danmerkur, en þangað var hún að fara í vinnuferð, þá hefur hvorugu þeirra rennt í grun að næst þegar þau myndu hittast væri við þessar kringumstæður, hún nýlent eftir að hafa fengið þessar hræðilegu fréttir erlendis og hann svona mikið veikur á sjúkrahúsi og spurning um bata.
Kæru vinir mínir, njótum daganna, göngum hægt um götuna, horfum niður fyrir okkur, notum tækifærin og allar þær góðu gjafir sem Guð leggur í götu okkar. Njótum núsins það er það eina sem við höfum ráð á. Förum vel með okkur, hugum að heilsunni, hreyfum okkur meira, borðum hollari mat, það er bara til eitt eintak af okkur og lítið um varahluti. Þó svo að oft hafi verið lagt af stað með góðar fyrirætlanir og þær mistekist eins og t.d hjá mér varðandi það að létta mig þá má alltaf byrja upp á nýtt, það snýst um það að nenna að minnka áhættuna á hættulegum sjúkdómum.
Ég bið ykkur um fyrirbæn fyrir Hjalla og fjölskyldunni, bænin megnar ótrúlegustu hluti.
Þangað til næst........
föstudagur, september 21, 2007
Haustdagar.....
En ekki alveg samt tilbreytingalaust......Síðustu helgi var hér líf og fjör, matarklúbburinn hittist hér í Húsinu við ána sl laugardagskvöld og það var sko mikið gaman, mikill og góður matur og félagsskapurinn alveg frábær.
Á sunnudeginum kom síðan allur mannskapurinn okkar Erlings í heimsókn og það var gaman að hafa barnaskarann hjá sér með tilheyrandi látum og pönnukökubakstri að ömmu og sveitakonusið. Hildur og Jói komu svo við á leið heim úr sveitinni og gaman að hitta þau.
Línudansinn er byrjaður aftur og ekkert nema gaman og svolítið erfitt líka því nú erum við ekki lengur byrjendur heldur hópur á öðru ári og eigum að geta orðið eitthvað. Mér finnst samt gott að sjá að ég er ekki eini klaufinn í hópnum.
Okkur Erling hefur í mörg ár langað að læra samkvæmisdansa en ekki látið verða af því fyrr en núna. Við skráðum okkur á byrjendanámskeið hjá Dansskóla Jóns Péturs og Köru og erum búin að fara tvisvar. Þetta er svoooooooo gaman og mikil hreyfing.
Þarna eru pör á öllum aldri misflink en öll að byrja. Jón Pétur kennir okkur sjálfur og hann er fínn, tekur sjálfan sig ekki hátíðlega og hvetur okkur áfram og er alltaf að segja okkur hvað við séum flink. Gott fyrir sálina að heyra það og smátt og smátt síast það inn hvað við erum dugleg og fyrir vikið verðum við enn duglegri. Ég pantaði DVD diska á Amazon með línu- og samkvæmisdönsum og það verður gaman að sjá þá og reyna að læra af þeim.
Núna er langt liðið á föstudagskvöld. Ég sit inni á skrifstofu og pikka á tölvuna, frammi í eldhúsi eru Hrund og Elva vinkona hennar með tónleika fyrir mig án þess að vita það samt. Þær eru svo skemmtilegar þessa skvísur. Erling er fyrir austan með Hlyn og ætla þeir að njóta helgarinnar saman og baða orma, borða góðan mat og njóta samfélagsins. Þeir hafa gert þetta bræðurnir í nokkur ár að eiga svona helgi saman að hausti til og reyna að telja okkur trú um að þeir séu bara að gegna skyldu sinni sem húsbændur og fara og draga björg í bú, Góðir... :o) Mér finnst þetta bara gott hjá þeim.
Áðan var ég að reyna að tengja nýja myndlykilinn og var svo dugleg. Ég var búin að setja fullt af snúrum á einhverja staði, fá valmyndina upp og finna einhverjar stöðvar en svo kom þessi leiðinda tilkynning á skjáinn: EKKERT MERKI. Vesen....... Ég sem var svo ánægð með mig, reyndi að ná í Tedda bróðir til að spyrja hann hvort maður þurfi að hafa örbylgjuloftnet hér á Selfossi en náði ekki í hann. Það var búið að loka í þjónustuverinu þannig að ég reyni kannski aftur á morgun.
Vinkonurnar frammi í eldhúsi eru að bjóða mér í partí, ég ætla aðeins að spjalla við þær og fara svo að skoða augnlokin að innan. Vinnan kallar í fyrramálið þrátt fyrir að það sé laugardagur....... Þangað til næst......
þriðjudagur, september 11, 2007
Hann á afmæli í dag, hann........
Það var fyrir nokkrum árum síðan þegar við Erling komum heim úr einhverju ferðalaginu að við fréttum að ungur maður hefði boðið Írisi út á kaffihús og stuttu síðar fegnum við að hitta þennan unga mann. Hann hefur algerlega staðist þær væntingar sem við gerðum til hans og í dag eiga þau Íris þrjú yndisleg börn saman og þau eru einstaklega samhent í öllu er viðkemur heimilishaldi og uppeldi á börnunum.
Karlott nýtur einnig mikillar hylli á vinnustað sínum, Landsbankanum og eru bæði yfirmenn og samstarfsfélagar mjög ánægðir með hann og stendur hann sig með stakri prýði enda sannkallað ljúfmenni á ferð.
Karlott minn, ég óska þér innilega til hamingju með daginn, hlakka til að kíkja á ykkur í kaffi en það verð ég að segja að þú átt það sameiginlegt með konunni þinni að valda mér höfuðverkjum þegar velja á gjöf í tilefni dagsins. Kannski best að ég láti tengdapabba þinn um það :o) Guð blessi þig ríkulega og ég er stolt af þér.
laugardagur, september 08, 2007
Komin heim á ný
Það eina sem heyrist í húsinu núna eru hljóð frá vinnukonunum mínum frábæru og samviskusömu, uppþvottavélinni og þvottavélinni, þær vinna verkin fyrir mig og ég er mjög fegin því. Í dag var hins vegar líf og fjör hér í húsinu við ána því krakkarnir okkar komu í heimsókn og tilefnið var að hitta okkur Erling sem komum heim frá Mallorka í gærkvöldi. Það er skemmtilegt að ferðast, gaman að dvelja erlendis um stund en best af öllu er að koma heim aftur, hitta fólkið sitt og njóta samveru við þá sem eru manni kærastir.
Við vorum tvær vikur suður á Mallorka, eyjunni okkar fögru í Miðjarðarhafinu og með í för voru vinir okkar, Heiðar og Sigrún. Mér finnst Mallorka alveg einstök, ég finn mig næstum heima þar enda er ég alltaf að segja að ég hljóti að vera spænsk ættuð. Við vorum þarna á mjög fallegum stað, höfðum pantað okkur íbúð á netinu og þannig sparað stórfé í gistikostnað, flugfarið keyptum við svo bara af einni ferðaskrifstofunni. Við vorum svo búin að panta okkur bílaleigubíl sem beið okkar á flugvellinum. Þegar við lentum á flugvellinum í Palma var rigning og af pollunum að dæma var búið að rigna mikið. Ég ákvað þá að njóta þessara daga alveg sama hvernig veðrið væri, veðurfar myndi ekki stjórna minni líðan.
Þegar við komum á áfangastað sáum við að allt umhverfið var ævintýri líkast. Við sáum út á hafið af svölunum og rétt hjá var rómantískasti veitingastaður sem ég veit um enda voru það ófá kvöldin sem við vinirnir gengum þangað og nutum ljúffengra veitinga, nánast í fjöruborðinu
Við sundlaugina voru svo þjónar og nóg að panta eitthvað sem var svo komið með til okkar á bekkina þar sem við lágum í makindum og létum sólina baka okkur, lásum góðar bækur eða settum heyrnartólin af ipodinum í eyrun og hlustuðum á góða tónlist.
Sjónarhorn frá sólbekknum mínum, þetta eru mínar fögru tær :o)
Þarna voru ekki aðrir Íslendingar enda eru íslensku ferðaskrifstofurnar ekki með ferðir á þennan stað. Þarna voru heldur engir sölumenn sem eru sífellt að ónáða mann í sólbaðinu. Það er miklu betra að fara bara og leita uppi varninginn ef maður vill kaupa eitthvað.
Þar sem við vorum með bíl allan tímann þá skoðuðum við okkur líka um eyjuna fögru, fórum í heimsókn á gamalkunnar slóðir fyrri heimsókna okkar og bara nutum þess að eiga þennan tíma saman. Mér finnst svo gott við svona ferðalög að eiga Erling alveg útaf fyrir mig, hann skildi símann sinn eftir heima þannig að ekki var hann að trufla enda var fyrirtækið okkar í góðum höndum Badda vinar okkar á meðan við vorum í fríinu. Það verður síðan endurgoldið í sama þegar hann og Kiddý fara í frí. Já það er gott að eiga góða vini.
Við skruppum aðeins í búðir en þótt ég segi sjálf frá þá hef ég mikið lagast með þessar búðarferðir í ferðum okkar erlendis og Erling myndi örugglega vitna um það ef hann yrði spurður. En þar sem ég er nú einu sinni kona og örugglega spænsk að einhverju leyti þá hef ég gaman að fara í búðir og koma við allt í skranbúðunum á strandgötunum og Erling hefur ótrúlega mikla þolinmæði við mig við þær kringumstæður. Hann keyrir mig líka í verslunarmiðstöðvarnar (þeir Heiðar máttu bara keyra bílaleigubílinn) eins og ég bið hann um en ég passa mig líka á að hafa það í hófi.
Ég kem heim úr þessar dekurferð, endurnærð og ánægð. Það var enginn vandi að njóta lífsins, þetta var í alla staði góð ferð, veðrið var algert Mallorka veður, frábært að fara út á svalir á morgnana með kaffið og brauðið og finna hitann skella á andlitinu, heyra í sjónum leika sér við klettana og vita að góður dagur var framundan, eins góður og við sjálf vildum hafa hann.
Þegar vélin lenti í gærkvöldi og ég leit útum gluggann á landið mitt, fallega yndislega landið mitt fylltist ég þessari sömu tilfinningu og vanalega. Það gerist eitthvað óútskýranlegt inni í mér. Ég er svo stolt af landinu mínu, þakklát fyrir að eiga það því Ísland er jú best í heimi, alls staðar.
Framundan er svo daglega lífið með öllum sínum fallegu tónum og litbrigðum. Haustið er að skella á, tími kertaljósanna að koma enda keypti ég stór og falleg kerti í Zara home og hlakka til að njóta ljóssins og ilmsins frá þeim í vetur, bæði hér heima og á Föðurlandi.
Lífið er ljúft og gott, ég á mann og fjölskyldu sem elskar mig og dekrar og þau eru mér allt...... Þangað til næst vinir mínur
föstudagur, ágúst 31, 2007
Hún á afmæli í dag....

Núna er hún sjálf þriggja barna móðir og stundar lögfræðinám af fullum krafti, var einmitt að byrja þriðja árið og yngsta barnið er aðeins tæplega þriggja mánaða. Íris er líka svo heppin að eiga frábæran eiginmann, Karlott og hún gæti þetta ekki nema með þeim stuðningi sem hún hefur frá honum. Þau eru mjög samstíga í þessu öllu saman og ná að púsla hlutunum saman á frábæran hátt.
Íris mín, ég er svo þakklát Guði fyrir að hafa gefið okkur þig, þú ert einstök og svo ertu svo mikið lík honum pabba þínum og þú veist nú alveg hversu mikið álit ég hef á honum.
Elsku Íris mín, úr sólinni á Mallorka sendum við pabbi þinn þér bestu afmæliskveðjur og vonum að þú hafir það frábært í dag og við erum viss um að fjölskyldan þín dekrar þig í hvívetna. Hlökkum til að sjá ykkur þegar við komum heim.
föstudagur, ágúst 24, 2007
Petra Rut 5 ára
Petra Rut dótturdóttir mín er fimm ára gömul í dag og er alveg með það á hreinu að næst verður hún sex ára og byrjar í skóla. Petra Rut er mjög skemmtileg stelpa og alveg eins og mamma sín þá fæddist hún fullorðin eða svo má segja. Hún hefur mjög ákveðnar skoðanir á hlutunum og veit alveg hvað hún vill. Ég hitti hana í gær og þá sýndi hún mér Baby born dúkku sem hún fékk frá foreldrum sínum í afmælisgjöf og það er sko ekkert smá flott dúkka og hún heitir Fjóla. Ég fékk að halda á dúkkunni og svæfa hana og svo sagði Petra Rut við mig að ég mætti alveg vera amma dúkkunnar líka eins og hennar.
Láttu nú pabba og mömmu og systkini þín dekra við þig í allan dag og það verður gaman að heyra hvað þú velur að gera í leikskólanum í dag fyrir krakkana þar.
Við afi þinn hlökkum til að sjá þig þegar við komum heim aftur úr ferðalaginu.
föstudagur, ágúst 17, 2007
Ævintýraland
Ég á frí í vinnunni í dag en eins og ég hef áður sagt ykkur þá er stofan lokuð á föstudögum yfir sumartímann þótt auðvitað þurfum við stundum að vinna þá daga.
Í dag er ég því ein heima þar sem bæði Erling og Hrund eru í vinnunni. Hrund er mjög ánægð með vinnuna á Sambýlinu og forstöðukonan þar tímir alls ekki að missa hana í skólann og ég skil það vel. Samviskusamari starfskraft en hana er varla hægt að finna. Hún verður að vinna þarna í vetur með skólanum enda er hún að safna sér pening fyrir ákveðnum hlutum sem hana langar að gera næsta sumar. Með svona áframhaldi getur hún látið það eftir sér allavega miðað við innistæðuna hennar í bankanum. Mér fannst svo fyndið þegar hún sagði við mig að hún nennti varla að vera að fara til Reykjavíkur á hverjum degi í vetur, það væri miklu þægilegra eins og er núna að hún fær bílinn og fer þegar hún á frí og langar til að fara. Samt vill hún ekki skipta um skóla og fara í FSU og við erum sammála henni með það. Kvennó er mjög góður og virtur skóli og allt viðmót þar til mikillar fyrirmyndar.
Jæja, þar sem þrifnaðarkonan hefur ekki látið sjá sig í dag og ekki síðustu vikur (kannski vegna þess að við höfum enga :o) og húsmóðirin verið upptekin við vinnu og að vera á Föðurlandi í sumar þá ætla ég núna að þrífa fallega húsið mitt, set bara tónlist á og hef hátt í græjunum.... Var þó að hengja upp þvottinn úti og það var svo notalegt. Við Sigrún vinkona værum ágætar í að halda heimili saman, ég myndi sjá um þvottana og hún um gólfin því það leiðinlegasta við húsverkin að mínu mati er að þrífa gólfin en mér finnst bara gaman að vesenast með þvottinn. Hjá Sigrúnu er þessu alveg öfug farið, gaman hvað mannfólkið er ólíkt.
Þangað til næst vinir mínir, eigið góða og slysalausa helgi...........
sunnudagur, ágúst 12, 2007
Hrikalega skemmtilegt
Það verður erfitt að halda sig við áætlanir um að bíða með að taka prófið fram á næsta vor. Erling ætlar að kaupa handa mér fallegt dömuhjól sem er samt ekki eins þungt og hans, mig langar mest í perluhvítt eða dökk vínrautt skvísuhjól. Við sjáum hvað setur en eitt er víst að ég mun æfa mig meira á grasinu á Föðurlandi áður en vetur konungur kemur.
Helgin var fín og notaleg, við tókum aukafrídaga á fimmtudag og föstudag og nutum þess bara að vera saman, hjóluðum m.a til Reykjavíkur á laugardaginn og svo alla leið austur í Fljótshlíð seinni partinn með viðkomu hér heima í húsinu okkar góða við ána.
Kofinn okkar er orðinn svona eins og við viljum hafa hann, komið rafmagn og þá gátum við fengið okkur ísskáp og það er mikill munur. Það er einstaklega notalegt að eiga þetta athvarf þarna en það hef ég sennilega sagt ykkur áður.
Á morgun er það svo vinnan en það er mjög notaleg tilhugsun að eiga eftir tveggja vikna frí til Mallorka en þangað förum við 24. ágúst með vinum okkar Sigrúnu og Heiðari. Ég hlakka til að liggja á ströndinni í heitu löndunum og stinga tánum í sandinn eða labba berfætt eftir fjörunni og finna sjóinn leika um fæturnar á mér. Notalegt ekki satt..
Vona að vikan verði ykkur góð og skemmtileg lesendur mínir, þangað til næst.....
þriðjudagur, ágúst 07, 2007
Hversdagsleiki....
Ég fór svo aðeins að velta þessu fyrir mér. Er lífið ekki gott og skemmtilegt í hversdagsleikanum, er bara hægt að skrifa um þegar eitthvað spennandi er að gerast?
Máltæki segir að lífið sé það sem gerist meðan maður er upptekinn við að gera allar áætlanir. Við getum gengið veginn, fullan af gimsteinum á báðar hliðar en við erum að flýta okkur að enda vegarins þar sem okkur hefur verið sagt að sé fjársjóðskista. Við erum svo gjörn á að flýta okkur svo mikið að gimsteinar daglegs lífs fara framhjá okkur, við sjáum þá ekki. Síðan kemur í ljós að það er engin fjársjóðskista við enda vegarins en við getum ekki gengið hann tilbaka.
Ég hef lært það að njóta hversdagsleikans, flýta mér hægt og virða fyrir mér litadýrð steinanna sem liggja við veginn. Stundum staldra ég við og tek þá upp og veit að ég má eiga þá ef ég vil. Guð leggur svo marga góða hluti í veg okkar en það er erfitt að taka upp hluti ef maður er alltaf á hlaupum.
Eftir mikla vinnutörn var gott þegar föstudagurinn síðasti rann upp. Við stelpurnar á skrifstofunni lukum við að bóka öll fyrirtækin okkar og héldum út í langt og langþráð helgarfrí. Verslunarmannahelgin var góð, veðrið var ágætt, allavega rigndi ekki þótt auðvitað mætti rokið vera aðeins minna. Við Erling ásamt krökkunum okkar vorum á Föðurlandi, Íris og hennar fjölskylda gisti í kofanum, Arna og litlu gullin hennar voru í tjaldvagni Írisar og Karlotts og Hrund fékk að gista í tjaldvagninum með Eygló og Bjössa. Við hjónakornin keyrðum hins vegar heim á Selfoss bæði kvöldin og sváfum í rúminu okkar, það var mjög notalegt.
Við vorum í matarboði áðan hjá Írisi og Karlott og það var mjög gaman. Ég nýt þess heiðurs að Petra Rut vill alltaf fá að sitja við hliðina á mér við matarborðið og vera með mér og Katrín Tara á það til að koma allt í einu, henda sér í fangið á mér algerlega fyrirvaralaust, vefja litlu handleggjunum um hálsinn á og knúsa mig. Þær eru algerir bræðarar þessi yndi.
Það eru rólegir dagar í Húsinu við ána og ég nýt þess. 3 af ömmustelpunum mínum gista nú hér á efri hæðinni og mér finnst svo gott að sjá og finna þessi litlu gull hvíla róleg og örugg í ömmu og afahúsi, í heimsókn með mömmu sinni. Þær hafa ekki áhyggjur af morgundeginum, vita að um þær verður hugsað, það sama getum við öll gert, því öll erum við jú elskuð af Guði sjálfum, alltaf, alla daga.
Njótið daganna vinir, hvunndagurinn er líka góður.........
þriðjudagur, júlí 24, 2007
Hún á afmæli í dag
Danía Rut er mikill hjartabræðari og það er ekki hægt að lýsa tilfinningunni með orðum þegar hún kemur til mín, vefur handleggjunum um hálsinn á mér og segir mér að hún elski mig. Hún er mikill bókaormur og getur alveg gleymt sér í dúkkukróknum hér í Húsinu við ána, bara ef hún er með góða bók sem hún skoðar í krók og kima. Uppáhaldsdýrið hennar er kisa og hún á eina sem amma hennar og afi í sveitinni passa fyrir hana, það er hann Prins Mjá.
Elsku Danía Rut mín, ég vil óska þér innilega til hamingju með fimmta afmælisdaginn þinn og bið Guð að blessa þig og vaka yfir hverju þínu skrefi. Ég elska þig og er Guði þakklát fyrir að hafa gefið okkur þig.
föstudagur, júlí 20, 2007
Háaloft og fleira
Í stuttu máli sagt þá skal ég aldrei safna dóti á háaloftið hér í Miðtúni, allavega ekki miklu, hahah. Við fengum stelpurnar og tengdasynina með okkur enda áttu skvísurnar nú eins og einn og einn kassa þarna uppi. Það var hrikalega mikið dót þarna og ég skil nú ekkert í okkur að geyma t.d þrjú ryðguð reiðhjól á háaloftinu.
Við vorum marga klukkutíma að þessu en reyndar var gaman að heyra í stelpunum þegar þær fundu hina ýmsu “dýrgripi” sem þær héldu að væru löngu týndir.
Þegar allt var komið niður að neðri hæð hússins þá tók hver sitt dót og öllu drasli var hent út. Ég var mjög glöð þegar ég horfði á eftir sendibílnum á leið upp í Gufunes.
Framundan er frábær helgi á Föðurlandinu okkar. Við ætlum þangað á morgun og bara njóta samverunnar við hvort annað og systkini Erlings. Samgangur við þau hefur aukist mjög eftir að við fórum að vera meira fyrir austan og það er mjög gaman.
Síðustu helgi vorum við öll stórfjölskyldan að vinna þarna. Við bárum fúavörn á bústaðinn og borðin, settum hillur og sólbekki og svo var tekið inn bráðabirgða rafmagn svo núna er hægt að vera með ísskáp og ofn til að kynda með í stað gasofnsins.
miðvikudagur, júlí 11, 2007
Mótorhjólatöffarar og geitungabú.....
“Ættum við ekki bara að fara til Reykjavíkur í fyrramálið og kaupa á þig mótorhjólagalla”, sagði Erling við mig síðasta föstudagskvöld. Það þurfti nú ekki að dekstra mig til þess og þegar við vorum komin heim aftur eftir hádegi þann laugardag þá höfðum við okkur til og hjóluðum svo saman austur á Föðurlandið þar sem til stóð að dvelja í nokkra daga. Ferðin austur var mjög skemmtileg, hjóluðum á svona 90 til 100 km hraða og nutum góða veðursins. Á sunnudeginum fórum við svo í hjólatúr austur á Skóga, stoppuðum við Seljalandsfoss og teygðum úr okkur og bara nutum þess að vera til á svona fallegum sumardegi. Það er allt öðru vísi að ferðast um á hjóli heldur en í bíl. Maður er jú úti og finnur til dæmis lyktina af nýslegnu grasinu og það er mjög góð lykt. Allavega, dagurinn var frábær og skemmtilegur.
Við vorum á Fitinni í góðu atlæti þangað til í gær en þá fórum við heim á Selfoss. Sólin er búin að leika við okkur á allan hátt, algjör bongóblíða, gæti ekki verið betra.
Í síðustu viku tókum við eftir því að það var þó nokkuð af geitungum sem voru alltaf að koma á pallinn og þeir fóru alltaf niður á sama stað milli trjáborðanna. Við Erling vorum alveg viss að þeir væru að búa sér til bú þarna undir og ég var reyndar alveg viss um að búin væru allavega tvö ef ekki þrjú...... Erling hringdi í meindýraeyði svæðisins og hann kom við hér um kvöldmatarleytið, gekk um allt, barði og lamdi pallinn og skjólvegginn í kring og reyndi að fullvissa mig um að það væri ekkert bú hér, geitungarnir væru aðeins að sækja sér timbur til búgerða einhvers staðar annars staðar. Ég var nú ekki sannfærð en kunni ekki við að þræta við hann enda var hann sérfræðingurinn en ekki ég. Hann rukkaði okkur svo um 5000 kall fyrir útkallið og fór heim að grilla eins og hann sagði sjálfur frá.
Þegar við svo komum heim í gær fannst mér að umferðin um pallinn frá geitungaættinni hafði heldur aukist og Erling sagði við mig að hann væri viss um að það væri bú þarna í byggingu. Það er ekki auðvelt að sjá svona í gegnum pallinn og ekki beint áhugavert að vera að rífa hann mikið ef ske kynni að óboðnir gestir væru að gera sig heimakomna. Í stuttu máli sagt þá fann Erling samt búið með því að rýna vel á milli spýtnanna og jú, þarna hékk það beint undir fótunum á okkur, frekar mikið ógeðfelld sjón. Hvað var nú til ráða, ætti ég að hringja í kallinn og segja honum að honum hafi skjátlast og fá hann aftur með eitrið sitt eða hvað???
En hann Erling er nú alger þúsund þjala smiður og kann ráð við öllu. Rúmlega eitt í gærkvöldi, þegar allir heimilismenn búsins voru væntanlega komnir heim í hvílu, þá útbjó hann banvænan kotkteil, setti í ílát beint yfir spýtunni sem huldi búið, lét blönduna leka í eldhúsbréf sem hann setti á milli rifanna og þetta lak auðvitað niður og inn í búið. Síðan stappaði hann fast niður á pallinn og dreif sig inn. Nokkir íbúar geitungabúsins komu út, kolringlaðir og vissu auðvitað ekkert hvað þeir áttu að gera enda ekki von, þeir voru nefnilega að drepast og ég get ekki einu sinni sagt, greyin, því þeir voru svo sannarlega MJÖG óvelkomnir. Að lokum skar Erling búið niður, henti gegnvættu eldhúsbréfinu ofaná það og síðan sjóðandi vatni. Allan tímann var ég fyrir innan gluggann, mikil hetja, opnaði svalahurðina fyrir honum svo hann gæti forðað sér inn.
Það var enginn geitungur á pallinum í dag.........en ég las í Fréttablaðinu í morgun að það væri stórhættulegt að reyna sjálfur að eyða geitungabúi......
Hafið það gott vinir, ég ætla út að hjóla á morgun með Erling þegar ég er aðeins búin að skreppa í vinnuna, ég er nefnilega í sumarfríi.....þangað til næst
föstudagur, júlí 06, 2007
Eftirsóknarvert....
Að sækjast eftir glæsileika í stað glingurs
Fágun í stað tískufyrirbæra
Að vera verðugur en ekki aðeins virtur
Auðugur en ekki ríkur
Að læra mikið, hugsa í hljóði
Vera varkár í orðum, heiðarlegur í gjörðum.
Að hlusta á stjörnurnar og fuglana
Á smábörn jafnt sem stórmenni með opnum huga, opnu hjarta;
Láta lífsgleðina ráða ríkjum
Hafa hughrekki til athafna
Að grípa tækifærin er þau gefast;
Hafa engar áhyggjur.
Í stuttu máli, að vera í andlegum og trúarlegum skilningi
enginn meðalmaður”
Las þetta í góðri bók sem ég á og
Mátti til með að deila þessu með ykkur lesendur mínir,
Eigið góða og skemmtilega helgi,
fimmtudagur, júlí 05, 2007
Í sól og sumaryl......eða þrumum.....eða bæði.....
Við Erling skruppum svo aðeins austur á Föðurland þegar hann kom heim úr vinnunni, það er svo notalegt að koma þangað. Við stoppuðum góða stund og grilluðum okkur smá mat áður en við héldum heim á Selfoss á ný. Hrund var væntanleg úr vinnu kl 10 og rétt fyrir þann tíma þá fékk ég sms frá henni; “Heldurðu að pabbi væri til í að fá sér hjólatúr út í Vallholt núna?” Sem ég var að opna smsið frá henni horfði ég á eftir pabba hennar hjóla af stað einmitt til að sækja skvísuna í vinnuna. Þeim leiðist þetta hvorugu, honum að hjóla og henni að vera aftaná. Það er líka mjög gaman. Ég er aðeins búin að prófa það. Við keyptum hjálm sem við Hrund notum saman en þar sem ég er ekki búin að fá mér skó eða hlífðarföt þá höfum við ekki enn krúsað saman útúr bænum.
Þegar þau feðgin komu svo heim þá settumst við öll út á pall, undir verandarhitarann og áttum skemmtilegt spjall saman. Erling náði í blað og penna og í sameiningu skrifuðum við niður allt sem þarf að gera hér heima, bæði innan húss og utan og svo skrifuðum við líka niður það sem okkur langar að gera en er ekki nauðsynlegt eða bráðliggur á. Þetta var nokkuð langur listi og því næst flokkuðum við þetta niður í þá forgangsröð sem við vildum hafa á þessu. Okkur fannst þetta gaman og svo verður enn meira gaman þegar hægt verður að strika yfir það sem búið er. Ykkur til fróðleiks þá var sett efst á listann að setja upp skjólgirðingu kringum pallinn úti og svo að klára alveg eldhúsið. Svo kom hitt svona í þeirri röð sem okkur fannst best.
Eftir að Erling setti upp verandarhitarann þá má segja að við endum alla daga á því að setjast út á pall, ýmist við tvö eða Hrund með okkur. Það er svo notalegt að sitja þarna og spjalla og það vill oftast verða svo að við förum alltof seint að sofa því við tímum ekki að fara inn.
Í dag er ég ein heima því Erling fór upp í Húsafell að smíða eitthvað í einhverjum sumarbústað, þannig að þið vinir mínir sem þetta lesið, kíkið bara á Selfoss, ég skal hafa gott með kaffinu handa þeim sem vilja heimsækja mig.
Njótið svo lífsins.......þangað til næst.........
mánudagur, júní 25, 2007
Þegar draumur verður að veruleika.....
Erling er í mörg ár búinn að dreyma um að þeysa um landið á mótorfák og því var ég mjög glöð þegar hann dreif sig í prófið fyrir nokkru síðan með Badda vini sínum. Þeir eru báðir búnir að kaupa sér hjól og í gær þegar við vorum á leiðinni heim af Fitinni þá hringdu þeir sig saman félagarnir og ákváðu að fara í hjólatúr í þessu líka frábæra veðri sem var í gær. Jakob, vinur Badda, slóst í för með þeim og það voru flottir félagar sem þeystu úr hlaði hér við Húsið við ána og vélfákarnir voru sko ekki af verri endanum. Þeir eru í “öldungadeildinni” og gæta sín vel að aka ekki yfir hámarkshraða enda skynsamir menn á ferð sem gera sér fulla grein fyrir þeirri miklu ábyrgð sem mótorhjólaakstur er.
Það er hverjum manni nauðsynlegt að stefna að því að láta drauma sína rætast. Lífið er svo stutt og við vitum ekki hversu langan þráð við höfum til ráðstöfunar. Við Erling vorum rækilega minnt á það sl laugardagskvöld þegar við vorum að njóta þess að vera til í fjallakofanum okkar á Föðurlandi og síminn hringdi rétt fyrir miðnætti. Jói, mágur Erlings og svili minn, hafði fyrr um kvöldið fengið hjartaáfall og það var hárréttum viðbrögðum Hildar mágkonu minnar að þakka að hann lifði af. Jói hefur ekki kennt sér neins meins varðandi hjartað og því kom þetta sem þruma úr heiðskíru lofti. Hann er nú á sjúkrahúsi en er á batavegi og við þökkum Guði fyrir að ekki fór verr.
Helgin var frábær að venju, alltaf gott að skreppa austur á Föðurlandið í sveitakyrrðina þótt hún sé reyndar líka til staðar hér á Selfossi. Við skruppum svo í afmæli til Bjössa seinni partinn í gær, ég fór á bílnum og Erling kom svo á hjólinu þegar þeir voru búnir með hjólatúrinn félagarnir. Eftir afmælið skruppum við svo aðeins og kíktum á vini okkar í Grafarvoginum, Sigrúnu og Heiðar og þar voru fyrir aðrir vinir okkar, Júlíana og Rúnar. Góðir vinir er dýrmætir og því um að gera að rækta slíkt samfélag.
Framundan er fyrri hluti sumarfrísins og við ætlum að eyða þeim hluta heima við og á Föðurlandi svona eftir því sem okkur langar til. Ég hlakka mikið til, það er notalegt á báðum stöðum. Við ætlum einnig að skreppa á fjöll og reyndar bara gera það sem okkur langar til að gera í það og það skiptið.
Njótið lífsins vinir mínir, það geri ég svo sannarlega og þakka fyrir hvern þann dag sem ég fæ að vakna heilbrigð og frísk, það er ekki sjálfgefið........Þangað til næst
föstudagur, júní 22, 2007
Hann á afmæli í dag
Eins og lesendur mínir vita þá er ég svo heppin að tilheyra stórri fjölskyldu og í minni eigin nánustu fjölskyldu þá er ég ættmóðir margra og því eru oft afmælisskrif á síðunni minni og það er einmitt í dag.
Annar tengdasonur minn, hann Bjössi hennar Eyglóar á afmæli í dag, 33 ára kappinn.
Ég kynntist honum fyrst svona að einhverju ráði fyrir rúmu ári síðan og leist ágætlega á hann. Ég spurðist aðeins fyrir um hann hjá fólki sem ég þekki og vissi að þekkti hann betur en ég og það voru alls staðar sömu svörin, hún verður heppin sem fær hann Bjössa því hann er einstakt góðmenni. Fólk vissi ekki afhverju ég var að spyrja en ég var ánægð með svörin. Bjössi hefur síðan sýnt það með viðmóti sínu og framkomu að umsagnir um hann voru ekki orðin tóm. Hann er duglegur strákur, elskar og umvefur Eyglóina sína og þau hjónin eru dugleg og samhent í að koma sér vel fyrir og njóta lífsins. Hann er með veiðidellu eins og tengdapabbinn og Karlott hennar Írisar og þeir hafa nú þegar farið í eina veiðiferð saman tengdafeðgarnir og Bjössi kom heim með eina fiskinn sem kom á land í þeirri ferð :o) Ég er hinsvegar alveg viss um að það var bara fyrsta ferðin þeirra saman en ekki sú síðast.
Bjössi minn, ég óska þér innilega til hamingju með daginn, hlakka til að kynnast þér enn betur og bið Guð að blessa þig ríkulega í leik og starfi.
þriðjudagur, júní 19, 2007
Töffarinn á bænum
Þetta er nú eitthvað dularfullt hvað ég er oft orðin ein heima, ætli ég sé svona leiðinleg? Nei ég held varla, enda er ég ekki alveg ein heima. Við Hrund erum hér tvær í húsinu þar sem aðaltöffarinn á heimilinu fór í morgun í árlega veiðiferð strákanna úr Kotinu.
Kl rúmlega átta í morgun voru hér mættir á svæðið fjórir töffarar og sá fimmti var hér fyrir. Stefnan var tekin á Þórisvatn en þangað hafa þeir farið saman í nokkur ár frændurnir og komið heim með góðan afla. Silungurinn úr Þórisvatni er sá allra besti og ég hlakka bara til að fá grillaðan fisk annað kvöld.
Sl föstudag hringdi Erling til mín í vinnuna fljótlega eftir hádegi. “Erla mín” sagði hann, “væri nokkur möguleiki á að þú værir komin heim á Selfoss fyrir kl þrjú?” “Ja ég veit það ekki, ég er að vinna verkefni og ég veit ekki alveg hvenær ég er búin”, var svarið.
“Sko, sýslumannsskrifstofan lokar kl þrjú og mig vantar svo að láta fara með pappírana mína úr bifhjólaprófinu þangað svo ég fái bráðabirgðaökuheimild fyrir helgina” sagði minn frábæri eiginmaður. “En Erling minn, útskriftarveislan hennar Kötu byrjar kl sjö í kvöld og svo erum við að fara til Akureyrar í fyrramálið þannig að þú getur hvort sem er ekkert hjólað um helgina OG SVO ÁTTU EKKERT HJÓL HELDUR.” “Ég er að fara að skoða hjól á eftir sem mig langar að kaupa” sagði hann “og ef þú getur þetta ekki þá get ég ekki hjólað á því heim og þá get ég ekki hjólað eftir veisluna og aðeins á laugardagsmorgni áður en við förum”. Þetta skildi ég alveg og vinnufélagarnir sýndu þessu mikinn skilning, ekki hægt að hafa þetta af honum og auðvitað fór ég austur og fékk þetta fyrir hann.
Kl hálf sjö hringdi hann og spurði hvort það væri ekki í lagi að koma ekki alveg á réttum tíma í veisluna þar sem hann væri akkúrat að ganga frá kaupum á hjólinu og ætti eftir að hjóla heim. Erling er stundvísasti maður sem ég þekki og því vissi ég að þetta var honum mjög mikilvægt fyrst hann var til í að koma ekki á tilsettum tíma. Það var hörku töffari sem kom heim, algallaður með hjálm á höfði og stoltur af gripnum sínum. Þetta er hjól sem hægt er að fara á út fyrir malbikið og ég veit að honum finnst það stór kostur.
Norðurferðin gekk vel og helgin var mjög skemmtileg. Við fórum á Bifhjólasýningu og Bílasýningu og meira segja fannst mér gaman að þessu. Tilefni norðurferðar var hinsvegar að fagna með henni Júlíönu vinkonu okkar, konunni hans Rúnars, en hún var að útskrifast sem þroskaþjálfi.
Það er alltaf gott að koma heim eftir ferðalög og Selfoss tók á móti okkur með sól og blíðu og veiðimennirnir voru mættir á Ölfusárbakkann strax í gærkvöldi.
Jæja, ég ætla að fara upp til Hrundar og athuga hvað hún er að bralla.
Njótið lífsins vinir, munið Pollýönnuleikinn ef á móti blæs, hann gagnast oftast..... Þangað til næst........
mánudagur, júní 11, 2007
11. júní - 1 ár liðið
Ég er ein heima þessa stundina, Erling er í mótorhjólatíma ásamt Badda vini sínum og það styttist í prófið sem verður næsta mánudagskvöld, þ.e. eftir eina viku.
Sniglar.is er vinsæl síða þessa dagana enda er verið að leita að flottu og öflugu hjóli sem getur borið okkur bæði og það er víst þannig að það hjól þarf að vera með nokkra sterka hesta í vélinni. Hrund skrapp til Reykjavíkur eftir vinnu að heimsækja systur sínar. Hún fékk vinnu á sambýli hér á Selfossi og er mjög ánægð þar, finnst þetta bæði gefandi og skemmtileg vinna. Henni býðst svo vinna þarna í vetur við liðveislu en það felst í að fara með íbúana á Sambýlinu út á kvöldin, t.d. í bíó eða á kaffihús.
Helgin var góð, eftir vinnu á föstudag kíktum við á fjölskylduna okkar í Háholtinu og litli prinsinn dafnar vel og systur hans kunna sko alveg umgengnisreglur um hann. Ljósan er búin að spjalla við þær og kenna þeim aðeins á hann og það er gott. Þau mæðgin eru að jafna sig á fæðingunni og Erling Elí er alveg kominn með eðlilegan húðlit og er alveg yndislegur.
Eftir þessa heimsókn fórum við í afmæli til Ellu systur og alltaf gaman að hitta fólkið sitt. Síðan var stefnan tekin austur yfir fjöllin tvö (eins og Petra Rut segir) og heim í Húsið okkar við ána. Erling var búinn að kaupa rafmagnsgeislahitara til að hafa á pallinum og við settumst út á pall og sátum þar undir hitanum og spjölluðum saman langt fram á nótt. Bara notalegt og skemmtilegt.
Arna kom á laugardeginum með gullin sín og seinni partinn fór Sara Ísold til afa síns, vafði litlu handleggjunum um hálsinn á honum og spurði hvort þær mættu ekki bara gista í afahúsi. Það var auðsótt mál og því var heilmikið fjör hér alla helgina en bara gaman að því. Eygló og Bjössi komu líka við og þegar börnin voru sofnuð löbbuðu stóru krakkarnir sér út á Olís og keyptu shake handa okkur og við sátum á veröndinni undir geislahitaranum langt fram á kvöld og enn var spjallað saman og mikið hlegið.
Í gær fór Erling að vinna aðeins fyrir austan en kom heim fyrir kaffi og Hjalli og Sigrún komu við hjá okkur á leiðinni í bæinn og það var mjög gaman að hitta þau.
Fólk er miklu duglegra að kíkja við hér á Selfossi heldur en í bænum og okkur finnst það alveg meiriháttar skemmtilegt.
Í dag er ár síðan við fluttum hingað og við erum alltaf ánægðari og ánægðari með lífið og tilveruna enda erum við lukkunnar pamfílar og við lútum höfði í þakklæti frammi fyrir Guði sjálfum sem gaf okkur líf í fullri gnægð og möguleika til að njóta þess til hins ítrasta.
Hafið það gott vinir mínir.........þangað til næst
mánudagur, júní 04, 2007
Nýjar myndir
Þarna er stóra stóra systirin að umvefja bróður sinn
Yndislegastur