laugardagur, september 08, 2007

Komin heim á ný




Það eina sem heyrist í húsinu núna eru hljóð frá vinnukonunum mínum frábæru og samviskusömu, uppþvottavélinni og þvottavélinni, þær vinna verkin fyrir mig og ég er mjög fegin því. Í dag var hins vegar líf og fjör hér í húsinu við ána því krakkarnir okkar komu í heimsókn og tilefnið var að hitta okkur Erling sem komum heim frá Mallorka í gærkvöldi. Það er skemmtilegt að ferðast, gaman að dvelja erlendis um stund en best af öllu er að koma heim aftur, hitta fólkið sitt og njóta samveru við þá sem eru manni kærastir.

Við vorum tvær vikur suður á Mallorka, eyjunni okkar fögru í Miðjarðarhafinu og með í för voru vinir okkar, Heiðar og Sigrún. Mér finnst Mallorka alveg einstök, ég finn mig næstum heima þar enda er ég alltaf að segja að ég hljóti að vera spænsk ættuð. Við vorum þarna á mjög fallegum stað, höfðum pantað okkur íbúð á netinu og þannig sparað stórfé í gistikostnað, flugfarið keyptum við svo bara af einni ferðaskrifstofunni. Við vorum svo búin að panta okkur bílaleigubíl sem beið okkar á flugvellinum. Þegar við lentum á flugvellinum í Palma var rigning og af pollunum að dæma var búið að rigna mikið. Ég ákvað þá að njóta þessara daga alveg sama hvernig veðrið væri, veðurfar myndi ekki stjórna minni líðan.

Þegar við komum á áfangastað sáum við að allt umhverfið var ævintýri líkast. Við sáum út á hafið af svölunum og rétt hjá var rómantískasti veitingastaður sem ég veit um enda voru það ófá kvöldin sem við vinirnir gengum þangað og nutum ljúffengra veitinga, nánast í fjöruborðinu


Horft niður að sundlaug og veitingastaðnum.

Við sundlaugina voru svo þjónar og nóg að panta eitthvað sem var svo komið með til okkar á bekkina þar sem við lágum í makindum og létum sólina baka okkur, lásum góðar bækur eða settum heyrnartólin af ipodinum í eyrun og hlustuðum á góða tónlist.


Sjónarhorn frá sólbekknum mínum, þetta eru mínar fögru tær :o)

Þarna voru ekki aðrir Íslendingar enda eru íslensku ferðaskrifstofurnar ekki með ferðir á þennan stað. Þarna voru heldur engir sölumenn sem eru sífellt að ónáða mann í sólbaðinu. Það er miklu betra að fara bara og leita uppi varninginn ef maður vill kaupa eitthvað.

Rómantískt sólarlag við bátahöfnina

Þar sem við vorum með bíl allan tímann þá skoðuðum við okkur líka um eyjuna fögru, fórum í heimsókn á gamalkunnar slóðir fyrri heimsókna okkar og bara nutum þess að eiga þennan tíma saman. Mér finnst svo gott við svona ferðalög að eiga Erling alveg útaf fyrir mig, hann skildi símann sinn eftir heima þannig að ekki var hann að trufla enda var fyrirtækið okkar í góðum höndum Badda vinar okkar á meðan við vorum í fríinu. Það verður síðan endurgoldið í sama þegar hann og Kiddý fara í frí. Já það er gott að eiga góða vini.

Við skruppum aðeins í búðir en þótt ég segi sjálf frá þá hef ég mikið lagast með þessar búðarferðir í ferðum okkar erlendis og Erling myndi örugglega vitna um það ef hann yrði spurður. En þar sem ég er nú einu sinni kona og örugglega spænsk að einhverju leyti þá hef ég gaman að fara í búðir og koma við allt í skranbúðunum á strandgötunum og Erling hefur ótrúlega mikla þolinmæði við mig við þær kringumstæður. Hann keyrir mig líka í verslunarmiðstöðvarnar (þeir Heiðar máttu bara keyra bílaleigubílinn) eins og ég bið hann um en ég passa mig líka á að hafa það í hófi.

Ég kem heim úr þessar dekurferð, endurnærð og ánægð. Það var enginn vandi að njóta lífsins, þetta var í alla staði góð ferð, veðrið var algert Mallorka veður, frábært að fara út á svalir á morgnana með kaffið og brauðið og finna hitann skella á andlitinu, heyra í sjónum leika sér við klettana og vita að góður dagur var framundan, eins góður og við sjálf vildum hafa hann.

Þegar vélin lenti í gærkvöldi og ég leit útum gluggann á landið mitt, fallega yndislega landið mitt fylltist ég þessari sömu tilfinningu og vanalega. Það gerist eitthvað óútskýranlegt inni í mér. Ég er svo stolt af landinu mínu, þakklát fyrir að eiga það því Ísland er jú best í heimi, alls staðar.

Framundan er svo daglega lífið með öllum sínum fallegu tónum og litbrigðum. Haustið er að skella á, tími kertaljósanna að koma enda keypti ég stór og falleg kerti í Zara home og hlakka til að njóta ljóssins og ilmsins frá þeim í vetur, bæði hér heima og á Föðurlandi.

Lífið er ljúft og gott, ég á mann og fjölskyldu sem elskar mig og dekrar og þau eru mér allt...... Þangað til næst vinir mínur

4 ummæli:

Eygló sagði...

"Sjónarhorn frá sólbekknum mínum, þetta eru mínar fögru tær :o)" Er BARA snilldar mynd :):) Þegar ég les bloggið þitt get ég alveg re-upplifað þegar við fórum öll til Mallorca 1997 og það var sko ein meiriháttar ferð :):) Þú lýsir svo skemmtilega! Gott að þið nutuð ferðarinnar í botn enda ef einhver á skilið svona dekurferð þá ert það þú mamma ;) Hafið það gott og ég vona að við hittumst fljótlega, þín Eygló

Nafnlaus sagði...

Skemmtilegt blogg hjá þér mamma:) Alltaf gott að fá ykkur heim þegar þið komið heim frá útlöndum. Takk fyrir mig í gær og núna... Hehehehe, elska þig milljón mikið. Arnan þín:)

Íris sagði...

Það var gaman að fá ykkur heim og enn skemmtilegra að hitta ykkur strax daginn eftir ;)
Bara frábært hvað þið pabbi njótið þess að vera til, svona á þetta að vera ;)
Þín elsta dóttir
Íris

Nafnlaus sagði...

Elsku Erlan mín
Velkomin heim ....úti er gott en heima er BEST...

Varðandi suðrænt útlit okkar, þá hefur hann tengdafaðir minn komist að því að við erum af konunglegm ættum ....afkomendur Tyrkjasoldáns.... og því er það ekki að undar að við kunnum best við okkur í sól og sumaryl.

Hlakka til að hitta þig mín kæra , sem verður vonandi fyrr en síðar.

Þín Uppáhalds
Sirrý litla