laugardagur, september 29, 2007

Að lifa í Núinu

“Fortíðin er liðin, framtíðin er ráðgáta en dagurinn í dag er gjöf.” Ég las þetta í einhverju blaðinu í dag og mikið er þetta rétt.

Eins og flestum lesendum mínum er kunnugt þá höfum við Erling ásamt fjölskyldunni hans allri verið minnt harkalega á það að ekkert er sjálfgefið. Eina stundina er allt í lagi og svo eins og hendi sé veifað er einn bróðirinn alvarlega veikur. Öðrum lesendum mínum til glöggvunar þá gerðist það á föstudagskvöld fyrir viku síðan að elsti bróðir hans Erlings, Hjalli, fékk alvarlega heilablæðingu og liggur núna á sjúkrahúsi, lamaður öðrum megin. Hjalli er bara 64 ára gamall, hefur að því er ég best veit aldrei legið á sjúkrahúsi áður og auðvitað er þetta mikið áfall fyrir alla og mest konuna hans og börnin þeirra. Á síðunni hans Erlings http://www.erlingm.blogspot.com/ er hægt að lesa meira um hvernig þetta allt er fyrir þá sem hafa áhuga.

Þessi atburður, ásamt því að hann Jói hennar Hildar fékk hjartaáfall fyrr í sumar og það er kraftaverk að hann lifði það af, fær mann til að staldra aðeins við og hugsa sig um. Þetta skerpir þá sýn á lífið og tilveruna sem við Erling fórum að sjá fyrir nokkuð löngu síðan. Það er alltof algengt að fólk njóti ekki “Núsins” Gefi sér ekki tíma til að staldra við í amstri dagsins, gefi sér ekki tíma til að sjá alla gimsteinana sem eru lagðir í götu okkar daglega. Og jafnvel þótt fólk sjái gimsteinana þá gefur það sér ekki tíma til að staldra við og tína þá upp vegna þess að það ætlar að finna alla gimsteinana sem eru við endann á regnboganum. Hversu oft heyrir maður ekki að einhver ætlar að gera þetta eða hitt þegar þessu eða hinu er lokið, eða einhverjum áfanga er náð, þá á að njóta lífins. Svo kemur í ljós að það er engin fjársjóðskista við endann á regnboganum

Það dapurlega er að margir ná aldrei að ljúka því sem þeir ætluðu að gera áður en hægt væri að njóta lífsins. Það getur svo margt komið uppá áður en þeim fyrirætlunum er náð. Við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér.

Þegar hann Hjalli kvaddi Sigrúnu sína þennan föstudagseftirmiðdag, óskaði henni góðrar ferðar til Danmerkur, en þangað var hún að fara í vinnuferð, þá hefur hvorugu þeirra rennt í grun að næst þegar þau myndu hittast væri við þessar kringumstæður, hún nýlent eftir að hafa fengið þessar hræðilegu fréttir erlendis og hann svona mikið veikur á sjúkrahúsi og spurning um bata.

Kæru vinir mínir, njótum daganna, göngum hægt um götuna, horfum niður fyrir okkur, notum tækifærin og allar þær góðu gjafir sem Guð leggur í götu okkar. Njótum núsins það er það eina sem við höfum ráð á. Förum vel með okkur, hugum að heilsunni, hreyfum okkur meira, borðum hollari mat, það er bara til eitt eintak af okkur og lítið um varahluti. Þó svo að oft hafi verið lagt af stað með góðar fyrirætlanir og þær mistekist eins og t.d hjá mér varðandi það að létta mig þá má alltaf byrja upp á nýtt, það snýst um það að nenna að minnka áhættuna á hættulegum sjúkdómum.

Ég bið ykkur um fyrirbæn fyrir Hjalla og fjölskyldunni, bænin megnar ótrúlegustu hluti.

Þangað til næst........

1 ummæli:

Ella Gitta sagði...

Ketill átti einu sinni gullkorn sem hefur setið í mér.

Það hljómaði eitthvað á þessa leið: "Ef ég hefði ekki hrasað um steininn sem lá í götu minni, hefði ég misst af gimsteininum sem leyndist bak við hann."

Held að það sé gott að halda í þessi orð þegar kringumstæður okkar verða svolítið yfirþyrmandi og það er ekkert sem við getum gert til að breyta þeim.

Elska þig trilljón