föstudagur, september 21, 2007

Haustdagar.....

Það hefur verið frekar tilbreytingalaust lífið síðan við komum heim úr sumarfríinu hjónakornin, það er eiginlega þetta, vinna, borða og sofa. Á þessum árstíma er mjög mikið að gera í vinnunni enda er verið að senda inn ársreikninga lögaðila til Skattmann ásamt því að virðisaukaskil eru rétt handan við hornið.

En ekki alveg samt tilbreytingalaust......Síðustu helgi var hér líf og fjör, matarklúbburinn hittist hér í Húsinu við ána sl laugardagskvöld og það var sko mikið gaman, mikill og góður matur og félagsskapurinn alveg frábær.
Á sunnudeginum kom síðan allur mannskapurinn okkar Erlings í heimsókn og það var gaman að hafa barnaskarann hjá sér með tilheyrandi látum og pönnukökubakstri að ömmu og sveitakonusið. Hildur og Jói komu svo við á leið heim úr sveitinni og gaman að hitta þau.

Línudansinn er byrjaður aftur og ekkert nema gaman og svolítið erfitt líka því nú erum við ekki lengur byrjendur heldur hópur á öðru ári og eigum að geta orðið eitthvað. Mér finnst samt gott að sjá að ég er ekki eini klaufinn í hópnum.

Okkur Erling hefur í mörg ár langað að læra samkvæmisdansa en ekki látið verða af því fyrr en núna. Við skráðum okkur á byrjendanámskeið hjá Dansskóla Jóns Péturs og Köru og erum búin að fara tvisvar. Þetta er svoooooooo gaman og mikil hreyfing.
Þarna eru pör á öllum aldri misflink en öll að byrja. Jón Pétur kennir okkur sjálfur og hann er fínn, tekur sjálfan sig ekki hátíðlega og hvetur okkur áfram og er alltaf að segja okkur hvað við séum flink. Gott fyrir sálina að heyra það og smátt og smátt síast það inn hvað við erum dugleg og fyrir vikið verðum við enn duglegri. Ég pantaði DVD diska á Amazon með línu- og samkvæmisdönsum og það verður gaman að sjá þá og reyna að læra af þeim.

Núna er langt liðið á föstudagskvöld. Ég sit inni á skrifstofu og pikka á tölvuna, frammi í eldhúsi eru Hrund og Elva vinkona hennar með tónleika fyrir mig án þess að vita það samt. Þær eru svo skemmtilegar þessa skvísur. Erling er fyrir austan með Hlyn og ætla þeir að njóta helgarinnar saman og baða orma, borða góðan mat og njóta samfélagsins. Þeir hafa gert þetta bræðurnir í nokkur ár að eiga svona helgi saman að hausti til og reyna að telja okkur trú um að þeir séu bara að gegna skyldu sinni sem húsbændur og fara og draga björg í bú, Góðir... :o) Mér finnst þetta bara gott hjá þeim.

Áðan var ég að reyna að tengja nýja myndlykilinn og var svo dugleg. Ég var búin að setja fullt af snúrum á einhverja staði, fá valmyndina upp og finna einhverjar stöðvar en svo kom þessi leiðinda tilkynning á skjáinn: EKKERT MERKI. Vesen....... Ég sem var svo ánægð með mig, reyndi að ná í Tedda bróðir til að spyrja hann hvort maður þurfi að hafa örbylgjuloftnet hér á Selfossi en náði ekki í hann. Það var búið að loka í þjónustuverinu þannig að ég reyni kannski aftur á morgun.

Vinkonurnar frammi í eldhúsi eru að bjóða mér í partí, ég ætla aðeins að spjalla við þær og fara svo að skoða augnlokin að innan. Vinnan kallar í fyrramálið þrátt fyrir að það sé laugardagur....... Þangað til næst......

1 ummæli:

Eygló sagði...

Þið pabbi eruð bara snillingar og ekkert annað!! Farin að læra samkvæmisdansa! E-ð sem ég væri sko alveg til í að læra og hver veit nema maður skelli sér eftir áramót?? Það væri sko BARA gaman! gætum svo haldið dansball í stofunni heima hjá ykkur :) Gott plan er það ekki? Lov U endless, Þín Eygló