mánudagur, júní 11, 2007

11. júní - 1 ár liðið

Frábær dagur er að kvöldi kominn, sólin skín enn þótt klukkan sé langt gengin í tíu.
Ég er ein heima þessa stundina, Erling er í mótorhjólatíma ásamt Badda vini sínum og það styttist í prófið sem verður næsta mánudagskvöld, þ.e. eftir eina viku.

Sniglar.is er vinsæl síða þessa dagana enda er verið að leita að flottu og öflugu hjóli sem getur borið okkur bæði og það er víst þannig að það hjól þarf að vera með nokkra sterka hesta í vélinni. Hrund skrapp til Reykjavíkur eftir vinnu að heimsækja systur sínar. Hún fékk vinnu á sambýli hér á Selfossi og er mjög ánægð þar, finnst þetta bæði gefandi og skemmtileg vinna. Henni býðst svo vinna þarna í vetur við liðveislu en það felst í að fara með íbúana á Sambýlinu út á kvöldin, t.d. í bíó eða á kaffihús.

Helgin var góð, eftir vinnu á föstudag kíktum við á fjölskylduna okkar í Háholtinu og litli prinsinn dafnar vel og systur hans kunna sko alveg umgengnisreglur um hann. Ljósan er búin að spjalla við þær og kenna þeim aðeins á hann og það er gott. Þau mæðgin eru að jafna sig á fæðingunni og Erling Elí er alveg kominn með eðlilegan húðlit og er alveg yndislegur.


Gott að hafa puttann á afa svona til öryggis, ekkert smá sætt

Eftir þessa heimsókn fórum við í afmæli til Ellu systur og alltaf gaman að hitta fólkið sitt. Síðan var stefnan tekin austur yfir fjöllin tvö (eins og Petra Rut segir) og heim í Húsið okkar við ána. Erling var búinn að kaupa rafmagnsgeislahitara til að hafa á pallinum og við settumst út á pall og sátum þar undir hitanum og spjölluðum saman langt fram á nótt. Bara notalegt og skemmtilegt.

Arna kom á laugardeginum með gullin sín og seinni partinn fór Sara Ísold til afa síns, vafði litlu handleggjunum um hálsinn á honum og spurði hvort þær mættu ekki bara gista í afahúsi. Það var auðsótt mál og því var heilmikið fjör hér alla helgina en bara gaman að því. Eygló og Bjössi komu líka við og þegar börnin voru sofnuð löbbuðu stóru krakkarnir sér út á Olís og keyptu shake handa okkur og við sátum á veröndinni undir geislahitaranum langt fram á kvöld og enn var spjallað saman og mikið hlegið.

Í gær fór Erling að vinna aðeins fyrir austan en kom heim fyrir kaffi og Hjalli og Sigrún komu við hjá okkur á leiðinni í bæinn og það var mjög gaman að hitta þau.
Fólk er miklu duglegra að kíkja við hér á Selfossi heldur en í bænum og okkur finnst það alveg meiriháttar skemmtilegt.

Í dag er ár síðan við fluttum hingað og við erum alltaf ánægðari og ánægðari með lífið og tilveruna enda erum við lukkunnar pamfílar og við lútum höfði í þakklæti frammi fyrir Guði sjálfum sem gaf okkur líf í fullri gnægð og möguleika til að njóta þess til hins ítrasta.
Hafið það gott vinir mínir.........þangað til næst

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með eins árs afmælið í Húsinu við ána. Mikið hefur tíminn flogið hratt. Takk fyrir mig og sætu dúllurnar mínar um helgina. Alltaf gaman að koma í heimsókn og hlaða batteríin.. Arna

Eygló sagði...

Til hamingju með árs afmælið í Húsinu við ána :) Alltaf svoo gaman að kíkja til ykkar og takk kærlega fyrir okkur um helgina!! Pizzurnar voru svooooooo góðar! Þú ert auðvitað BARA snillingur! Lov U, þín Eygló