þriðjudagur, júní 19, 2007

Töffarinn á bænum

Flottur

Þetta er nú eitthvað dularfullt hvað ég er oft orðin ein heima, ætli ég sé svona leiðinleg? Nei ég held varla, enda er ég ekki alveg ein heima. Við Hrund erum hér tvær í húsinu þar sem aðaltöffarinn á heimilinu fór í morgun í árlega veiðiferð strákanna úr Kotinu.
Kl rúmlega átta í morgun voru hér mættir á svæðið fjórir töffarar og sá fimmti var hér fyrir. Stefnan var tekin á Þórisvatn en þangað hafa þeir farið saman í nokkur ár frændurnir og komið heim með góðan afla. Silungurinn úr Þórisvatni er sá allra besti og ég hlakka bara til að fá grillaðan fisk annað kvöld.


Sl föstudag hringdi Erling til mín í vinnuna fljótlega eftir hádegi. “Erla mín” sagði hann, “væri nokkur möguleiki á að þú værir komin heim á Selfoss fyrir kl þrjú?” “Ja ég veit það ekki, ég er að vinna verkefni og ég veit ekki alveg hvenær ég er búin”, var svarið.
“Sko, sýslumannsskrifstofan lokar kl þrjú og mig vantar svo að láta fara með pappírana mína úr bifhjólaprófinu þangað svo ég fái bráðabirgðaökuheimild fyrir helgina” sagði minn frábæri eiginmaður. “En Erling minn, útskriftarveislan hennar Kötu byrjar kl sjö í kvöld og svo erum við að fara til Akureyrar í fyrramálið þannig að þú getur hvort sem er ekkert hjólað um helgina OG SVO ÁTTU EKKERT HJÓL HELDUR.” “Ég er að fara að skoða hjól á eftir sem mig langar að kaupa” sagði hann “og ef þú getur þetta ekki þá get ég ekki hjólað á því heim og þá get ég ekki hjólað eftir veisluna og aðeins á laugardagsmorgni áður en við förum”. Þetta skildi ég alveg og vinnufélagarnir sýndu þessu mikinn skilning, ekki hægt að hafa þetta af honum og auðvitað fór ég austur og fékk þetta fyrir hann.

Kl hálf sjö hringdi hann og spurði hvort það væri ekki í lagi að koma ekki alveg á réttum tíma í veisluna þar sem hann væri akkúrat að ganga frá kaupum á hjólinu og ætti eftir að hjóla heim. Erling er stundvísasti maður sem ég þekki og því vissi ég að þetta var honum mjög mikilvægt fyrst hann var til í að koma ekki á tilsettum tíma. Það var hörku töffari sem kom heim, algallaður með hjálm á höfði og stoltur af gripnum sínum. Þetta er hjól sem hægt er að fara á út fyrir malbikið og ég veit að honum finnst það stór kostur.

Norðurferðin gekk vel og helgin var mjög skemmtileg. Við fórum á Bifhjólasýningu og Bílasýningu og meira segja fannst mér gaman að þessu. Tilefni norðurferðar var hinsvegar að fagna með henni Júlíönu vinkonu okkar, konunni hans Rúnars, en hún var að útskrifast sem þroskaþjálfi.

Það er alltaf gott að koma heim eftir ferðalög og Selfoss tók á móti okkur með sól og blíðu og veiðimennirnir voru mættir á Ölfusárbakkann strax í gærkvöldi.

Jæja, ég ætla að fara upp til Hrundar og athuga hvað hún er að bralla.
Njótið lífsins vinir, munið Pollýönnuleikinn ef á móti blæs, hann gagnast oftast..... Þangað til næst........

2 ummæli:

Eygló sagði...

Mamma - þú ert BEST!

Íris sagði...

Heh, ekki hélt ég að pabbi myndi kaupa sér svona hjól en frábært að hann er kominn með hjól til að leika sér á ;) Og flottur í gallanum! Algjör gæi ;) Hlakka til að sjá gripinn og kannski fá að sitja aftaná í smá túr ;)
Sjáumst í dag, hlakka til!
Þín elsta dóttir Íris