föstudagur, ágúst 24, 2007

Petra Rut 5 ára


Ég er svo heppin að eiga margar litlar vinkonur og í dag á ein þeirra afmæli.
Petra Rut dótturdóttir mín er fimm ára gömul í dag og er alveg með það á hreinu að næst verður hún sex ára og byrjar í skóla. Petra Rut er mjög skemmtileg stelpa og alveg eins og mamma sín þá fæddist hún fullorðin eða svo má segja. Hún hefur mjög ákveðnar skoðanir á hlutunum og veit alveg hvað hún vill. Ég hitti hana í gær og þá sýndi hún mér Baby born dúkku sem hún fékk frá foreldrum sínum í afmælisgjöf og það er sko ekkert smá flott dúkka og hún heitir Fjóla. Ég fékk að halda á dúkkunni og svæfa hana og svo sagði Petra Rut við mig að ég mætti alveg vera amma dúkkunnar líka eins og hennar.
Petra Rut bræðir mig algerlega með sínu sérstaka brosi og það er svo gaman hvað hún sækir í að vera við hliðina á manni við matarborðið eða þegar hún hringir í okkur afa sinn og spyr hvort þau megi koma í heimsókn á Selfoss.
Elsku Petra Rut mín, innilega til hamingju með afmælið þitt, þú ert alger Guðs gjöf inn í líf okkar allra og við elskum þig allan hringinn eins og þú segir svo gjarnan sjálf.
Láttu nú pabba og mömmu og systkini þín dekra við þig í allan dag og það verður gaman að heyra hvað þú velur að gera í leikskólanum í dag fyrir krakkana þar.
Við afi þinn hlökkum til að sjá þig þegar við komum heim aftur úr ferðalaginu.

1 ummæli:

Íris sagði...

Takk fyrir þetta ;)
Ég las þetta fyrir Petru Rut og henni fannst þetta gaman og hún ætlar að segja ykkur hvað hún ákvað að gera í dag í leikskólanum þegar þið komið heim!
Hafið það annars gott í útlöndunum ;)