sunnudagur, ágúst 12, 2007

Hrikalega skemmtilegt


“Geturðu ekki bara hringt í hann Þráinn ökukennara og spurt hvenær næsta bifhjólapróf verður”, sagði ég við Erling í morgun. Ástæðan fyrir þessari skyndilegu óþolinmæði minni var sú að ég var búin að fara í fyrsta ökutímann að læra að hjóla svona stóru hjóli. Erling var kennarinn og þetta var alveg hrikalega gaman. Fyrst reyndar þorði ég ekki af stað, þorði ekki að setja fæturnar uppá fótstigin því ég var svo hrædd um að detta. Erling var þolinmæðin uppmáluð, lét mig hafa fæturnar bara útfrá hjólinu og gekk með því loksins þegar ég þorði aðeins að fara af stað. Það kom svo að því að ég gat hjólað sjálf, löturhægt en með fæturnar á réttum stað.
Það verður erfitt að halda sig við áætlanir um að bíða með að taka prófið fram á næsta vor. Erling ætlar að kaupa handa mér fallegt dömuhjól sem er samt ekki eins þungt og hans, mig langar mest í perluhvítt eða dökk vínrautt skvísuhjól. Við sjáum hvað setur en eitt er víst að ég mun æfa mig meira á grasinu á Föðurlandi áður en vetur konungur kemur.

Helgin var fín og notaleg, við tókum aukafrídaga á fimmtudag og föstudag og nutum þess bara að vera saman, hjóluðum m.a til Reykjavíkur á laugardaginn og svo alla leið austur í Fljótshlíð seinni partinn með viðkomu hér heima í húsinu okkar góða við ána.
Kofinn okkar er orðinn svona eins og við viljum hafa hann, komið rafmagn og þá gátum við fengið okkur ísskáp og það er mikill munur. Það er einstaklega notalegt að eiga þetta athvarf þarna en það hef ég sennilega sagt ykkur áður.


Á morgun er það svo vinnan en það er mjög notaleg tilhugsun að eiga eftir tveggja vikna frí til Mallorka en þangað förum við 24. ágúst með vinum okkar Sigrúnu og Heiðari. Ég hlakka til að liggja á ströndinni í heitu löndunum og stinga tánum í sandinn eða labba berfætt eftir fjörunni og finna sjóinn leika um fæturnar á mér. Notalegt ekki satt..

Vona að vikan verði ykkur góð og skemmtileg lesendur mínir, þangað til næst.....

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já, hún er flott, hún tengdamóðir mín!

Erla, skil þig svona oggupínupons vel að eftir að hafa prufað tryllitækið sé erfitt að bíða til næsta sumar... úff!

Takk fyrir mig síðast... það væri sko ekkert leiðinlegt að verða nágrannar ykkar... ef að yrði... þið vitið : )

Erla, það er meir en orð fá lýst, hve heppinn ég er að eiga tengdamóður eins og þig!

Þinn tengdasonur, Karlott

Íris sagði...

Endilega bara drífa í því að taka prófið ;) Mæli meððí ;)
Gott hjá ykkur að taka svona frí og njóta þess að vera á Fitinni og svo er það bara Mallorca ;) Nóg að gera í útlandaferðunum :D
Sjáumst sem fyrst!
Þín Íris

Eygló sagði...

Ég segi perluhvítt! ;) Það er e-ð svo elegant og passar vel við skvísuna þig mín kæra :) Það væri alveg flott sko! Og gott hjá ykkur að skella ykkur í kofann notalega, um að gera að nýta það að eiga hann :):) Er það ekki bara. Well, hafðu það súper, þín Eygló ;);)