þriðjudagur, ágúst 07, 2007

Hversdagsleiki....

"Er ekki kominn tími til að þú bloggir eitthvað Erla mín", sagði Erling við mig. "Æ ég veit það ekki, það er ekkert sérstakt að gerast hjá mér þessa dagana, lífið heldur áfram sinn vanagang og það nenna fáir að lesa um það", svaraði ég honum.
Ég fór svo aðeins að velta þessu fyrir mér. Er lífið ekki gott og skemmtilegt í hversdagsleikanum, er bara hægt að skrifa um þegar eitthvað spennandi er að gerast?

Máltæki segir að lífið sé það sem gerist meðan maður er upptekinn við að gera allar áætlanir. Við getum gengið veginn, fullan af gimsteinum á báðar hliðar en við erum að flýta okkur að enda vegarins þar sem okkur hefur verið sagt að sé fjársjóðskista. Við erum svo gjörn á að flýta okkur svo mikið að gimsteinar daglegs lífs fara framhjá okkur, við sjáum þá ekki. Síðan kemur í ljós að það er engin fjársjóðskista við enda vegarins en við getum ekki gengið hann tilbaka.
Ég hef lært það að njóta hversdagsleikans, flýta mér hægt og virða fyrir mér litadýrð steinanna sem liggja við veginn. Stundum staldra ég við og tek þá upp og veit að ég má eiga þá ef ég vil. Guð leggur svo marga góða hluti í veg okkar en það er erfitt að taka upp hluti ef maður er alltaf á hlaupum.

Eftir mikla vinnutörn var gott þegar föstudagurinn síðasti rann upp. Við stelpurnar á skrifstofunni lukum við að bóka öll fyrirtækin okkar og héldum út í langt og langþráð helgarfrí. Verslunarmannahelgin var góð, veðrið var ágætt, allavega rigndi ekki þótt auðvitað mætti rokið vera aðeins minna. Við Erling ásamt krökkunum okkar vorum á Föðurlandi, Íris og hennar fjölskylda gisti í kofanum, Arna og litlu gullin hennar voru í tjaldvagni Írisar og Karlotts og Hrund fékk að gista í tjaldvagninum með Eygló og Bjössa. Við hjónakornin keyrðum hins vegar heim á Selfoss bæði kvöldin og sváfum í rúminu okkar, það var mjög notalegt.

Við vorum í matarboði áðan hjá Írisi og Karlott og það var mjög gaman. Ég nýt þess heiðurs að Petra Rut vill alltaf fá að sitja við hliðina á mér við matarborðið og vera með mér og Katrín Tara á það til að koma allt í einu, henda sér í fangið á mér algerlega fyrirvaralaust, vefja litlu handleggjunum um hálsinn á og knúsa mig. Þær eru algerir bræðarar þessi yndi.

Það eru rólegir dagar í Húsinu við ána og ég nýt þess. 3 af ömmustelpunum mínum gista nú hér á efri hæðinni og mér finnst svo gott að sjá og finna þessi litlu gull hvíla róleg og örugg í ömmu og afahúsi, í heimsókn með mömmu sinni. Þær hafa ekki áhyggjur af morgundeginum, vita að um þær verður hugsað, það sama getum við öll gert, því öll erum við jú elskuð af Guði sjálfum, alltaf, alla daga.

Njótið daganna vinir, hvunndagurinn er líka góður.........

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir skemmtilega samveru um helgina mamma og takk fyrir að nenna að hafa mig og pæjurnar mínar í heimsókn. Þú ert einfaldlega frábær. Já það er gott að vita að Guð hugsar um okkur. Guð geymi þig, Arnan þín.. LUV U:)

Nafnlaus sagði...

Auðvelt að vera sammála þessu bloggi. Bestu kveðjur í sveitina. Kveðja Kiddi Klettur