fimmtudagur, júlí 05, 2007

Í sól og sumaryl......eða þrumum.....eða bæði.....

Það var skrýtið að sitja úti á palli og heyra þrumurnar sem ómuðu í loftinu. Fyrst hélt ég að þetta væri svona þung umferð stórra bíla yfir brúna en svo gat það bara ekki verið. Ég fór inn í eldhús til að gá hvort Hekla væri nokkuð byrjuð að gjósa því lætin voru þó nokkur. Þá sá ég þetta líka skrýtna skýjafar þarna austur eftir, flott var það en ólíkt því sem ég hef séð. Hitastigið var rúmlega 20 gráður í skugga og eitthvað var það í skýjunum sem olli þessum þrumum og eldingum sem gengu yfir Suðurlandið eftir hádegi í gær. Þetta var bara skemmtilegt að upplifa, svolítið útlandalegt líka.

Við Erling skruppum svo aðeins austur á Föðurland þegar hann kom heim úr vinnunni, það er svo notalegt að koma þangað. Við stoppuðum góða stund og grilluðum okkur smá mat áður en við héldum heim á Selfoss á ný. Hrund var væntanleg úr vinnu kl 10 og rétt fyrir þann tíma þá fékk ég sms frá henni; “Heldurðu að pabbi væri til í að fá sér hjólatúr út í Vallholt núna?” Sem ég var að opna smsið frá henni horfði ég á eftir pabba hennar hjóla af stað einmitt til að sækja skvísuna í vinnuna. Þeim leiðist þetta hvorugu, honum að hjóla og henni að vera aftaná. Það er líka mjög gaman. Ég er aðeins búin að prófa það. Við keyptum hjálm sem við Hrund notum saman en þar sem ég er ekki búin að fá mér skó eða hlífðarföt þá höfum við ekki enn krúsað saman útúr bænum.

Þegar þau feðgin komu svo heim þá settumst við öll út á pall, undir verandarhitarann og áttum skemmtilegt spjall saman. Erling náði í blað og penna og í sameiningu skrifuðum við niður allt sem þarf að gera hér heima, bæði innan húss og utan og svo skrifuðum við líka niður það sem okkur langar að gera en er ekki nauðsynlegt eða bráðliggur á. Þetta var nokkuð langur listi og því næst flokkuðum við þetta niður í þá forgangsröð sem við vildum hafa á þessu. Okkur fannst þetta gaman og svo verður enn meira gaman þegar hægt verður að strika yfir það sem búið er. Ykkur til fróðleiks þá var sett efst á listann að setja upp skjólgirðingu kringum pallinn úti og svo að klára alveg eldhúsið. Svo kom hitt svona í þeirri röð sem okkur fannst best.

Eftir að Erling setti upp verandarhitarann þá má segja að við endum alla daga á því að setjast út á pall, ýmist við tvö eða Hrund með okkur. Það er svo notalegt að sitja þarna og spjalla og það vill oftast verða svo að við förum alltof seint að sofa því við tímum ekki að fara inn.

Í dag er ég ein heima því Erling fór upp í Húsafell að smíða eitthvað í einhverjum sumarbústað, þannig að þið vinir mínir sem þetta lesið, kíkið bara á Selfoss, ég skal hafa gott með kaffinu handa þeim sem vilja heimsækja mig.
Njótið svo lífsins.......þangað til næst.........

1 ummæli:

Íris sagði...

Sniðug þið að gera svona lista :D Ég stel kannski bara hugmyndinni af ykkur ;) Hægt að gera svona yfir það sem mann langar að gera og hvað maður vill gera fyrst ;)

Ég hefði verið til í að sjá þessar eldingar og heyra þrumurnar í gær. En ég las bara um þetta á mbl.is ;)

Gott að þú sért að njóta þín í fríi heima. Ef stelpurnar væru ekki farnar á róló og Erling Elí sofandi úti í vagni þá hefðum við kannski bara rennt við á Selfossi en það bíður þá bara betri tíma ;)

Sjáumst nú samt vonandi sem fyrst!
Þín elsta dóttir
Íris E.