föstudagur, júlí 20, 2007

Háaloft og fleira


Þegar við Erling seldum Kidda og Ástu Hamrabergið fyrir um 4 árum síðan skildum við eftir “smávegis” af dóti á háaloftinu og lofuðum að koma bráðum og taka þetta. Á þessum fjórum árum hefur Kiddi annað slagið minnt mig á þetta og við höfum alltaf verið alveg á leiðinni. Svo fluttum við á Selfoss og þá var auðvitað orðið langt að sækja þetta svo við höfðum nú afsökun :o) Nema hvað, haldið ekki að þau séu núna búin að selja Hamrabergið og um daginn hringdi Kiddi og spurði hvað við ætluðum að gera við dótið. Ég sagði honum bara að selja háaloftið ekki með en hann var nú eitthvað að mótmæla því. Þar sem við Kiddi erum miklir vinir þá vildi ég nú hafa hann góðan og lofaði að koma. Þau voru að fara í sumarfrí vestur á Ísafjörð og okkur samdist um að við myndum tæma þetta á meðan og ég byrjaði eiginlega strax að kvíða fyrir þessu.

Í stuttu máli sagt þá skal ég aldrei safna dóti á háaloftið hér í Miðtúni, allavega ekki miklu, hahah. Við fengum stelpurnar og tengdasynina með okkur enda áttu skvísurnar nú eins og einn og einn kassa þarna uppi. Það var hrikalega mikið dót þarna og ég skil nú ekkert í okkur að geyma t.d þrjú ryðguð reiðhjól á háaloftinu.
Við vorum marga klukkutíma að þessu en reyndar var gaman að heyra í stelpunum þegar þær fundu hina ýmsu “dýrgripi” sem þær héldu að væru löngu týndir.
Þegar allt var komið niður að neðri hæð hússins þá tók hver sitt dót og öllu drasli var hent út. Ég var mjög glöð þegar ég horfði á eftir sendibílnum á leið upp í Gufunes.

Framundan er frábær helgi á Föðurlandinu okkar. Við ætlum þangað á morgun og bara njóta samverunnar við hvort annað og systkini Erlings. Samgangur við þau hefur aukist mjög eftir að við fórum að vera meira fyrir austan og það er mjög gaman.




Síðustu helgi vorum við öll stórfjölskyldan að vinna þarna. Við bárum fúavörn á bústaðinn og borðin, settum hillur og sólbekki og svo var tekið inn bráðabirgða rafmagn svo núna er hægt að vera með ísskáp og ofn til að kynda með í stað gasofnsins.


Ég hef sagt það áður og segi það enn, að það eru alger forréttindi að eiga þennan stað í sveitinni. Ég er aðeins að læra á fuglana, nöfnin og hljóðin en það gengur samt mjög hægt. Skil ekki hvernig stendur á því að svona bráðgreind kona eins og ég eigi í þessum erfiðleikum með að muna fuglanöfn og þekkja í sundur geldingahnapp og klóelftingu...........

2 ummæli:

Íris sagði...

Já þetta var ekkert smáræði þarna uppi! En gaman að fá nokkur nostalgíuköst, hehe.
Og þvílíkur munur á kofanum eftir að hann var fúavarinn!! Algjört æði!
Sjáumst sem fyrst!
Þín Íris

Nafnlaus sagði...

Já nostalgíuköstin, Eygló átti nú besta kastið þegar hún hristi hausinn eins og hún væri í transi. BARA fyndið. En gott að þetta er búið. Þvílíkt sem við söfnuðum á þetta blessaða háaloft. En sjáumst fyrr en seinna, Arnan þín:)