miðvikudagur, júlí 11, 2007

Mótorhjólatöffarar og geitungabú.....

Tek ég mig ekki vel út í gallanum og á hjólinu flotta?

“Ættum við ekki bara að fara til Reykjavíkur í fyrramálið og kaupa á þig mótorhjólagalla”, sagði Erling við mig síðasta föstudagskvöld. Það þurfti nú ekki að dekstra mig til þess og þegar við vorum komin heim aftur eftir hádegi þann laugardag þá höfðum við okkur til og hjóluðum svo saman austur á Föðurlandið þar sem til stóð að dvelja í nokkra daga. Ferðin austur var mjög skemmtileg, hjóluðum á svona 90 til 100 km hraða og nutum góða veðursins. Á sunnudeginum fórum við svo í hjólatúr austur á Skóga, stoppuðum við Seljalandsfoss og teygðum úr okkur og bara nutum þess að vera til á svona fallegum sumardegi. Það er allt öðru vísi að ferðast um á hjóli heldur en í bíl. Maður er jú úti og finnur til dæmis lyktina af nýslegnu grasinu og það er mjög góð lykt. Allavega, dagurinn var frábær og skemmtilegur.

Afinn og amman á mótorhjóli, algerir töffarar..

Við vorum á Fitinni í góðu atlæti þangað til í gær en þá fórum við heim á Selfoss. Sólin er búin að leika við okkur á allan hátt, algjör bongóblíða, gæti ekki verið betra.

Í síðustu viku tókum við eftir því að það var þó nokkuð af geitungum sem voru alltaf að koma á pallinn og þeir fóru alltaf niður á sama stað milli trjáborðanna. Við Erling vorum alveg viss að þeir væru að búa sér til bú þarna undir og ég var reyndar alveg viss um að búin væru allavega tvö ef ekki þrjú...... Erling hringdi í meindýraeyði svæðisins og hann kom við hér um kvöldmatarleytið, gekk um allt, barði og lamdi pallinn og skjólvegginn í kring og reyndi að fullvissa mig um að það væri ekkert bú hér, geitungarnir væru aðeins að sækja sér timbur til búgerða einhvers staðar annars staðar. Ég var nú ekki sannfærð en kunni ekki við að þræta við hann enda var hann sérfræðingurinn en ekki ég. Hann rukkaði okkur svo um 5000 kall fyrir útkallið og fór heim að grilla eins og hann sagði sjálfur frá.

Þegar við svo komum heim í gær fannst mér að umferðin um pallinn frá geitungaættinni hafði heldur aukist og Erling sagði við mig að hann væri viss um að það væri bú þarna í byggingu. Það er ekki auðvelt að sjá svona í gegnum pallinn og ekki beint áhugavert að vera að rífa hann mikið ef ske kynni að óboðnir gestir væru að gera sig heimakomna. Í stuttu máli sagt þá fann Erling samt búið með því að rýna vel á milli spýtnanna og jú, þarna hékk það beint undir fótunum á okkur, frekar mikið ógeðfelld sjón. Hvað var nú til ráða, ætti ég að hringja í kallinn og segja honum að honum hafi skjátlast og fá hann aftur með eitrið sitt eða hvað???
En hann Erling er nú alger þúsund þjala smiður og kann ráð við öllu. Rúmlega eitt í gærkvöldi, þegar allir heimilismenn búsins voru væntanlega komnir heim í hvílu, þá útbjó hann banvænan kotkteil, setti í ílát beint yfir spýtunni sem huldi búið, lét blönduna leka í eldhúsbréf sem hann setti á milli rifanna og þetta lak auðvitað niður og inn í búið. Síðan stappaði hann fast niður á pallinn og dreif sig inn. Nokkir íbúar geitungabúsins komu út, kolringlaðir og vissu auðvitað ekkert hvað þeir áttu að gera enda ekki von, þeir voru nefnilega að drepast og ég get ekki einu sinni sagt, greyin, því þeir voru svo sannarlega MJÖG óvelkomnir. Að lokum skar Erling búið niður, henti gegnvættu eldhúsbréfinu ofaná það og síðan sjóðandi vatni. Allan tímann var ég fyrir innan gluggann, mikil hetja, opnaði svalahurðina fyrir honum svo hann gæti forðað sér inn.
Það var enginn geitungur á pallinum í dag.........en ég las í Fréttablaðinu í morgun að það væri stórhættulegt að reyna sjálfur að eyða geitungabúi......

Hafið það gott vinir, ég ætla út að hjóla á morgun með Erling þegar ég er aðeins búin að skreppa í vinnuna, ég er nefnilega í sumarfríi.....þangað til næst

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Elsku Erla mín!
Þú er hörku gella í mótórhjólagalanum og á hjólinu.
Þetta klæðir ykkur vel.
Gott að engin slasaðist í barátuni við geitungana þeir er ekki skemmtilegir.
Nýt þess að lesa bloggið hjá þér. Verð að gera mér ferð til þín einhvern dagin, er nefnilega komin á bíl.
Kær kveðja Nanna Þórisdóttir

Eygló sagði...

Jú elsku mamma þú er sko svaka skvísa í leðurgallanum, sannkallaður töffari, fer þér svaka vel :) gott hjá ykkur pabba að gera þetta! Og pabbi er auðvitað BARA snilligur að losa ykkur svona vel við geitungadruslurnar! Hlakka til að sjást um helgina :) Þín uppáhalds Eygló