
Fjöldi fólks glatar hlut sínum í hamingjunni. Ekki vegna þess að það hafi aldrei fundið hana, heldur vegna þess að það nam ekki staðar til að njóta hennar.
sunnudagur, júlí 24, 2011
Danía Rut afmælisskvísa

miðvikudagur, júní 22, 2011
Bjössi afmælisbarn
föstudagur, júní 03, 2011
Stóri prinsinn orðinn 4ra ára

Ég er þeirrar skoðunar að allir dagar sem við fáum úthlutað séu merkisdagar en þó eru auðvitað sumir dagar miklu merkilegri en aðrir. Í dag er einn af þeim dögum. Við Erling erum svo lánsöm að vera umkringd barnabörnum og í dag er eldri prinsinn í hópnum orðinn fjögurra ára gamall. Erling Elí fæddist á fallegum sunnudegi fyrir fjórum árum og varð strax einn af augasteinunum okkar afa síns og ömmu. Þessi litli stóri yndis drengur er flottur og duglegur strákur, alger prakkari og grallaraspói sem bræðir alla sem eru kringum hann en hann er sérstaklega hændur að Erling afa sínum og í hvert sinn sem ég kem ein í heimsókn til þeirra er ég varla komin inn þegar hann spyr um afa sinn og bara gaman af því. Erling Elí er sannur strákur og alger bíladellukall, elskar allt með mótora, geimflaugar og allt svona ekta stráka dót. Um daginn var hann hjá okkur og vildi endalaust hafa afa sinn með sér í að skoða jeppa í tölvunni og svo vildi hann sjá flott bíla DVD sem hann á.
Elsku Erling Elí minn, við afi þinn sendum þér bestu hamingjuóskir með daginn þinn og við hlökkum til að koma í veisluna þína. Þú ert alger Guðs blessun í líf okkar og við erum Guði þakklát fyrir þig. Láttu alla dekra við þig sem aldrei fyrr. Við elskum þig milljón hringi og aðeins fleiri líka litli stóri strákurinn okkar.
mánudagur, maí 16, 2011
Hann á afmælisdag.....hann lengi lifi

laugardagur, apríl 09, 2011
Elsku pabbinn minn

laugardagur, mars 12, 2011
Mamma mín afmælisskvísa

miðvikudagur, mars 02, 2011
Þrítugar afmælisstelpur

Mér finnst ótrúlega stutt síðan þetta var en engu að síður er það staðreynd að í dag fagna Eygló og Arna, tvíburadætur okkar 30 ára afmælinu sínu. Þær munu samt ekki vera hrifnar af mér að tala um þær sem tvíbura. Þær elska að vera tvíburar en það má ekki tala um þær sem slíkar enda eru þær tveir sjálfstæðir einstaklingar þótt við stríðum þeim stundum með þeirri staðreynd að þær eru líffræðilega nákvæmlega eins. Auðvitað eru þær samt ekki eins en þær eru ótrúlega samrýmdar og það er einhver óskiljanlegur þráður milli þeirra. Þeim dreymir jafnvel sömu drauma sömu nótt og stundum kaupa þær alveg eins gjafir handa hvor annarri án samráðs. Ég held reyndar að einungis eineggja tvíburar geti skilið þessi tengsl sem eru þarna á milli.
þriðjudagur, febrúar 15, 2011
Sara Ísold 7 ára afmælisprinsessa

laugardagur, janúar 08, 2011
Hrund afmælisprinsessa

föstudagur, desember 03, 2010
Katrín Tara afmælisstelpa

sunnudagur, október 31, 2010
Tilvera okkar er undarlegt ferðalag.....
Við spjölluðum smástund og eftir að hafa kvatt hana og lagt á þá var ég þungt hugsi. Hugur minn var allur hjá Kibbu og fólkinu hennar og ég veit að þau eru samheldin og Kibba nýbúin að vera í Noregi í heimsókn hjá þeim. Það er svo stutt á milli gleði og sorgar og við erum ekki viðbúin því að eitthvað hendi okkur eða okkar fólk. Og hugsanir mínar héldu áfram. Hvernig kem ég fram við fólk, hvernig met ég það sem ég á, nýti ég tímann til að njóta þess að eiga vini og fjölskyldu og þannig get ég haldið áfram.
Í dag erum við Íslendingar að ganga í gegnum erfiða tíma, erfiðleika sem okkur datt ekki í hug fyrir örfáum árum að myndi yfir okkur ganga. Erfiðleika sem fæst okkar hafa til unnið heldur erum við að gjalda fyrir gerðir örfárra manna sem með græðgi og yfirgangi hafa sett íslenskt efnahagskerfi á hliðina. Ég ætla ekki að gera lítið úr þessum erfiðleikum því þeir eru vissulega miklir. Ég veit þó að núna sem aldrei fyrr er það nauðsynlegt fyrir okkur að horfa á allt það jákvæða sem við eigum í mannauð okkar Íslendinga því við erum hörkudugleg þjóð og eigum eftir að sigla uppúr þessum erfiðleikum og standa betur að vígi en áður. En við verðum að standa saman, efla fjölskyldugildin, efla vináttuna og samstöðuna og vera jákvæð.
Á þessum tímum er það okkur líka nauðsyn að fara í naflaskoðun og skoða hvað er dýrmætast og þess virði að halda áfram.
Í gær tók ég ákvörðun.
Ég vil keppa að því að njóta hversdagsins, njóta litlu óvæntu stundanna, njóta stóru skipulögðu stundanna og bara að njóta þeirra forréttinda sem mér voru gefin í fjórum frábærum dætrum, þremur yndislegum tengdasonum og ömmugullunum mínum sjö og þessi tvö sem enn eru bumbubúar. Að ég tali ekki um manninn minn sem er besti vinur minn og sálufélagi. Svo á ég yndislega foreldra sem vilja allt fyrir mig og mitt fólk gera, ég elska þau.
Ég ætla að vera duglegri að segja fólkinu mínu hvað ég elska þau, segja stelpunum mínum hvað ég er stolt af þeim og því sem þær eru að fást við hverju sinni. Ég ætla að vera meira til staðar, leiðbeina og hvetja áfram því ég er svo þakklát fyrir að eiga fjölskyldu. Ég er þakklát fyrir óhreint leirtau í vaskinum og óhrein föt í þvottakörfunni því það merkir að það er líf á heimilinu.
Ég nýt þess að eiga litla Kofann okkar í sveitinni og þar er allt sem þarf þótt fermetrarnir séu ekki margir enda fátt notalegra eða rómatískara en logarnir sem loga í kamínunni.
Ég ætla að nota flottu bollana mína hvenær sem ég vil, ég á ekki neitt spari ilmvatn því ég vil bara nota það besta alltaf. Ég ætla vera duglegri að heimsækja fólkið mitt og vini, droppa inn smástund án þess að gera boð á undan mér svo varið ykkur bara þið sem lesið. Heimsóknir hafa alltof mikið dottið niður því við erum jú "öll svo upptekin". Í stuttu máli sagt, ekki geyma eitthvað þangað til betra tækifæri gefst því ég get ekki verið viss um að það komi.
Ég hef einsett mér að njóta hverrar einustu mínútu í lífinu því lífið sjálft er stórkostleg gjöf sem okkur er gefin TIL AÐ NJÓTA.
þriðjudagur, október 26, 2010
Hann á afmæli hann Erling
sunnudagur, október 17, 2010
Þórey Erla 5 ára afmælisskvísa

þriðjudagur, október 05, 2010
Erla Rakel afmælisprinsessa
laugardagur, september 11, 2010
Karlott 35 ára

þriðjudagur, ágúst 31, 2010
Íris afmælisstelpa

þriðjudagur, ágúst 24, 2010
Petra Rut afmælisprinsessa

mánudagur, ágúst 16, 2010
Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur...
Ég man eftir að hafa spennt beltin þegar við komum út í vél og um tveim tímum seinna vaknaði ég við að Erling spurði hvort ég vildi eitthvað að drekka :o) Ferðin gekk vel og í Kaupmannahöfn tóku Bitten og Arne á móti okkur á flugvellinum og við eyddum tæpum tveimur sólarhringum á heimili þeirra áður en við lögðum land undir flugvél og flugum norður á bóginn til Álaborgar til bræðra minna sem þar búa. Hér höfum við notið mikilla gestrisni Óla og Anette, á laugardag fórum við í tvítugsafmæli Birgis Steins frænda míns og í gær vorum við í kaffiboði og mat hjá Tedda og Kötu og hittum þar Elne vinkonu þeirra, sem sagt afar notalegt samkvæmi langt fram á kvöld og þá var Óli búinn að bætast við hópinn okkar. Það var glatt á hjalla og mikið skrafað og skemmt sér yfir góðum veitingum og svo kaffi og koníak að heldra manna sið.
Í dag var svo stefnan tekin á búðirnar því þrátt fyrir hátt gengi dönsku krónunnar þá er mjög margt ódýrara hér í Danaveldi heldur en heima enda var endað á því að fara í Fötex og kaupa eina ferðatösku. Reyndar var það ákveðið heima á Fróni að endurnýja töskubirgðir heimilisins.
Dagurinn var góður, hittum Tedda og Kötu í miðbænum og fórum á kaffihús með þeim og fengum okkur reglulega gott ískaffi og spjölluðum saman um allt milli himins og jarðar.
Nú sit ég hér í stofunni, hlusta á Óla og Erling spjalla saman við hliðina á mér og frammi heyri ég í Anette og mömmu hennar spjalla saman en mamma hennar Anette er flutt hingað til þeirra, fárveik af krabbameini. Það hefur verið áhugavert að eiga samfélag við hana en á sama hátt skrýtið vitandi að hún er deyjandi en samt er hún svo æðrulaus og brosmild.
Fyrir mér eru fjölskylduböndin svo mikilvæg og nauðsynlegt að rækta þau og að fylgjast með hversu vel Óli og Anette annast gömlu konuna og sýna henni svo mikla umhyggju að það er til fyrirmyndar. Börnunum er einnig mjög umhugað um ömmu sína og leggja sig fram um að uppfylla þarfir hennar.
Ég finn mig á þeim stað að vera forréttindamanneskja því ég á fjölskyldu sem ég elska meira en lífð sjálft og ég veita að þau elska mig og vilja eiga samfélag við mig og ég veit að þegar við Erling komum heim bíða krakkarnir okkar eftir að koma og hitta okkur og ég veit að það er ekki sjálfgefið að eiga vináttu þeirra.
Ég er bara svo þakklát fyrir að fá að vera eins og ég er.....njótið daganna vinir mínir því þeir eru góðir...
fimmtudagur, ágúst 05, 2010
Lífið og tilveran
Það er ekki laust við að þetta sumar hafi verið með allt öðru sniði en vanalega hjá okkur hjónakornum því þetta er í fyrsta sinn í margar vikur sem við erum hér í Kofanum lengur en dagpart. Eftir stranga vinnutörn sl vikur ákváðum við að taka okkur "helgarfrí" í miðri viku strax eftir verslunarmannahelgina og vinda þreytuna úr okkur. Eins og flest ykkar vita þá hentum við okkur út í djúpu laugina, fórum alveg útúr þægindarammanum og opnuðum Íslandus ísbar, sem er í senn flottasta ísbúð Suðurlands ásamt minjagripaverslun og internet kaffi. Við höfum fengið feikna góðar viðtökur og erum alsæl með hvernig þetta gengur allt saman. Starfsfólkið er frábært og við höfum verið þarna mjög mikið sjálf en nú var kominn tími til að sinna okkur sjálfum aðeins. Hrund tók við stjórnartaumum á búðinni og sinnir því vel svo við getum verið róleg hér og notið lífsins.
Þar sem ég vinn með svo skemmtilegu fólki á bókhaldsstofunni þá tímdi ég ekki að hætta alveg og mun vera þar einn dag í viku.
Það er orðið langt síðan ég hef sett inn pistil hér á bloggið en ég er komin á þá skoðun að bloggið megi ekki gleymast þrátt fyrir stutt innskot á fésbókina. Skemmtilegir pistlar og þankagangur er ómissandi í tilveruna og þá kemur bloggið sterkt inn.
Mér finnst gaman að fylgjast með því að kreppan er smátt og smátt að lina tök sín á þjóðarbúinu enda höfum við Íslendingar alla burði til að koma sterk útúr þessum hremmingum. Landið er gott og gjöfult og við megum vera þakklát fyrir þau forréttindi að fá að búa hér og vera Íslendingar. Ég heyrði fyrr í sumar orðatiltækið "að ef grasið er grænna hinum megin er þá ekki kominn tími til að vökva hjá sér".....þetta eru mikil sannindi og því miður virðast of margir uppteknir við að hugsa um kreppuna og sitja kannski "með vatnsslönguna í hönd" og armæðast yfir ástandinu en það eina sem þarf kannski er að skrúfa frá krananum og byrja að vökva. Með öðrum orðum, horfa á tækifærin sem eru svo oft allt í kringum okkur en við sjáum þau ekki því við horfum svo mikið á "óveðursskýin". Við megum samt aldrei gleyma því að það birtir upp um síðir.
Annars er bara allt gott af okkur að frétta, við Erling erum blessuð af barnaláni og við erum nýbúin að fá þær fréttir að áttunda barnabarnið okkar mun fæðast um miðjan febrúar og ég gleðst svo sannarlega yfir því. Börn eru Guðs gjöf og blessun. Erling er að fara að byrja lokaönnina sína í Háskólanum og hún mun vera notuð í að skrifa mastersritgerð því hann er búinn með öll fög og hefur fengið mjög góðar einkunnir enda flottur maður þar á ferð og ég er afar stolt af honum og þakklát fyrir að leiðir okkar skyldu liggja saman fyrir 34 árum síðan og við höfum orðið þeirra gæfu aðnjótandi að ganga saman hönd í hönd og ekki fengið leið hvort á öðru heldur þvert á móti finnst okkur við ferlega skemmtileg :o)
Svona tími eins og í Kofanum núna notum við til að rækta garðinn okkar og hlúa að honum svo fegurstu rósirnar nái að vaxa þar.
Ég er kát, þakklát og elska lífið.....njótið daganna vinir því þeir eru góðir....
laugardagur, júlí 24, 2010
Danía Rut afmælisstelpa
