þriðjudagur, október 26, 2010

Hann á afmæli hann Erling

Ég sá hann fyrst fyrir 34 árum, renglulegan strák með sítt og krullað hár. Ég spurðist fyrir um það hver hann væri og var sagt að þetta væri hann Erling úr Kotinu. Það var eitthvað sérstakt við hann og mig langaði að kynnast honum betur. Síðan þá höfum við gengið saman gegnum lífið, hann er besti vinur minn og sálufélagi og sá einasti eini sem þekkir mig betur en ég sjálf og er mjög næmur á allt sem mér viðkemur. Það þýðir heldur ekkert að segja honum annað en satt þegar hann spyr um líðan mína og hann er óþreytandi að gleðja mig á allan mögulega hátt.
Afkomendahópurinn stækkar stöðugt, dæturnar eru fjórar, tengdasynirnir þrír, barnabörnin eru sjö og tvö á leiðinni. Það er því óhætt að segja að hann sé umvafinn aðdáendum því dætur okkar og barnabörn elska hann enda hefur hann reynst þeim sá sterki og stöðugi klettur sem börn þurfa að eiga að. Krakkarnir okkar eru og verða alltaf börnin okkar þótt þau séu orðin fullorðin og ekki leiðist honum að dekra barnabörnin sem spyrja alltaf fyrst um hann þegar þau mæta á svæðið:o)

Erling á tvö stór áhugamál sem hann sinnir mjög vel. Annars vegar er það veiðidellan enda skylda hvers manns að draga björg í bú, ekki satt......og svo er það mótorhjóladellan og ekki hægt að segja að frúnni leiðist mikið að vera hnakkaskraut aftan á hjá honum.

Í dag fagnar flotti maðurinn minn afmælinu sínu í 51. sinn. Síða krullaða hárið hefur að vísu löngu sagt skilið við hann og vangarnir eru orðnir eilítið silfraðir, barnabörnin okkar halda því reyndar fram að afi þeirra sé ekki með hár :o) en þessi sjarmör nær ennþá að heilla ömmu þeirra algerlega upp úr skónum. Ég er ákaflega stolt af honum, elska hann meira en hægt er að lýsa í fáum orðum og bið Guð að leyfa okkur að eldast saman svo við getum gengið saman inní sólarlagið, tvær krumpaðar sveskjur hönd í hönd.....

Engin ummæli: