mánudagur, ágúst 16, 2010

Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur...

Þegar við Erling bókuðum flugið okkar hingað til Stövring snemma í vor, óraði okkur ekki fyrir hvað þetta yrði kærkomið frí. Við vorum ekki búin að opna ísbúðina þá en 11. ágúst var valinn brottfarardagur og allt í einu var hann runninn upp. Við vorum bæði frekar þreytt eftir margra vikna vinnulotu en hlökkuðum mikið til. Hrund tók við stjórnartaumum á Íslandus ísbar og við stigum upp í bílinn og ókum upp á flugvöll með viðkomu á Landspítalnum til að láta kíkja á eyrað á Erling en það var ekki alveg eins og það átti að vera og ekki gott að fara í flug þannig. Þat hittum við lækni sem gat hjálpað honum og við héldum áfram för.

Ég man eftir að hafa spennt beltin þegar við komum út í vél og um tveim tímum seinna vaknaði ég við að Erling spurði hvort ég vildi eitthvað að drekka :o) Ferðin gekk vel og í Kaupmannahöfn tóku Bitten og Arne á móti okkur á flugvellinum og við eyddum tæpum tveimur sólarhringum á heimili þeirra áður en við lögðum land undir flugvél og flugum norður á bóginn til Álaborgar til bræðra minna sem þar búa. Hér höfum við notið mikilla gestrisni Óla og Anette, á laugardag fórum við í tvítugsafmæli Birgis Steins frænda míns og í gær vorum við í kaffiboði og mat hjá Tedda og Kötu og hittum þar Elne vinkonu þeirra, sem sagt afar notalegt samkvæmi langt fram á kvöld og þá var Óli búinn að bætast við hópinn okkar. Það var glatt á hjalla og mikið skrafað og skemmt sér yfir góðum veitingum og svo kaffi og koníak að heldra manna sið.

Í dag var svo stefnan tekin á búðirnar því þrátt fyrir hátt gengi dönsku krónunnar þá er mjög margt ódýrara hér í Danaveldi heldur en heima enda var endað á því að fara í Fötex og kaupa eina ferðatösku. Reyndar var það ákveðið heima á Fróni að endurnýja töskubirgðir heimilisins.
Dagurinn var góður, hittum Tedda og Kötu í miðbænum og fórum á kaffihús með þeim og fengum okkur reglulega gott ískaffi og spjölluðum saman um allt milli himins og jarðar.

Nú sit ég hér í stofunni, hlusta á Óla og Erling spjalla saman við hliðina á mér og frammi heyri ég í Anette og mömmu hennar spjalla saman en mamma hennar Anette er flutt hingað til þeirra, fárveik af krabbameini. Það hefur verið áhugavert að eiga samfélag við hana en á sama hátt skrýtið vitandi að hún er deyjandi en samt er hún svo æðrulaus og brosmild.

Fyrir mér eru fjölskylduböndin svo mikilvæg og nauðsynlegt að rækta þau og að fylgjast með hversu vel Óli og Anette annast gömlu konuna og sýna henni svo mikla umhyggju að það er til fyrirmyndar. Börnunum er einnig mjög umhugað um ömmu sína og leggja sig fram um að uppfylla þarfir hennar.

Ég finn mig á þeim stað að vera forréttindamanneskja því ég á fjölskyldu sem ég elska meira en lífð sjálft og ég veita að þau elska mig og vilja eiga samfélag við mig og ég veit að þegar við Erling komum heim bíða krakkarnir okkar eftir að koma og hitta okkur og ég veit að það er ekki sjálfgefið að eiga vináttu þeirra.

Ég er bara svo þakklát fyrir að fá að vera eins og ég er.....njótið daganna vinir mínir því þeir eru góðir...

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég bara fer næstum að skæla, ég er svo sammála þér, ég er svo þakklát fyrir fjölskylduna mína, ykkur pabba, Hafþór, stelpurnar og systur mínar og alla:) Hlakka til að sjá ykkur:) Þín Arna

Nafnlaus sagði...

Alveg sammála þér kv petra rut