þriðjudagur, ágúst 31, 2010

Íris afmælisstelpa


Þótt það séu komin 32 ár síðan þá man ég enn sælutilfinninguna þegar ég fékk hana Írisi í fangið eftir langa og erfiða nótt. Hún var það fallegasta sem ég hafði nokkurn tímann séð enda fyrsta barnið okkar Erlings og eins og mamma mín sagði þegar hún kom að sjá hana þá var eins gott að ég var með eyru til að stoppa brosið áður en höfuðið mitt klofnaði í tvennt.

Íris hefur alla tíð verið mikill gleðigjafi inní líf okkar foreldranna, dugleg, ákveðin og vissi strax hvað hún vildi og hvað hún vildi ekki. Löggu og bófaleikir heilluðu meira en barbí og hún lét engan ráðast á minni máttar án þess að skerast í leikinn og hikaði ekki við slagsmál ef því var að skipta til að hjálpa einhverjum. Það kom því ekki á óvart þegar hún ákvað að leggja stund á lögfræðinám og í sumar þegar hún brautskráðist frá Háskólanum í Reykjavík með meistarapróf í lögfræðinni þá sagði yngri dóttir hennar, 5 ára, við mig mjög stolt: "amma, hún mamma mín er orðinn löggufræðingur". Eldri daman, 7 ára, var samt fljót að leiðrétta systir sína enda skyldi rétt farið með starfsheiti mömmunnar. Íris starfar núna sem lögfræðingur hjá Ríkisskattstjóra og líkar það afar vel.

Íris er mikil ungamamma og ásamt Karlott, manninum sínum, halda þau fast utanum fjölskyldugildin og eru duglega að leggja inn skemmtilegar minningar í minningabanka barnanna.

Elsku Írisin okkar, við pabbi þinn óskum þér innilega til hamingju með daginn þinn, við vitum að fólkið þitt mun dekra þig á allan hátt enda ertu svo lánsöm að elska og vera elskuð og þar á meðal eum við foreldrar þínir sem elskum þig án skilyrða marga hringi, allan hringinn :o)
Þú ert einn af augasteinunum okkar....

Engin ummæli: