fimmtudagur, ágúst 05, 2010

Lífið og tilveran

Það er alger kyrrð hér í Kofanum á Föðurlandi, aðeins tifið í gömlu klukkunni sem heyrist og það er sérlega notalegt hljóð. Ég sit hér ein í sófanum með tölvuna í fanginu og pikka inn þessar línur hér á blogginu. Erling skrapp að veiða enda er frí til þess að gera það sem er skemmtilegt.
Það er ekki laust við að þetta sumar hafi verið með allt öðru sniði en vanalega hjá okkur hjónakornum því þetta er í fyrsta sinn í margar vikur sem við erum hér í Kofanum lengur en dagpart. Eftir stranga vinnutörn sl vikur ákváðum við að taka okkur "helgarfrí" í miðri viku strax eftir verslunarmannahelgina og vinda þreytuna úr okkur. Eins og flest ykkar vita þá hentum við okkur út í djúpu laugina, fórum alveg útúr þægindarammanum og opnuðum Íslandus ísbar, sem er í senn flottasta ísbúð Suðurlands ásamt minjagripaverslun og internet kaffi. Við höfum fengið feikna góðar viðtökur og erum alsæl með hvernig þetta gengur allt saman. Starfsfólkið er frábært og við höfum verið þarna mjög mikið sjálf en nú var kominn tími til að sinna okkur sjálfum aðeins. Hrund tók við stjórnartaumum á búðinni og sinnir því vel svo við getum verið róleg hér og notið lífsins.
Þar sem ég vinn með svo skemmtilegu fólki á bókhaldsstofunni þá tímdi ég ekki að hætta alveg og mun vera þar einn dag í viku.
Það er orðið langt síðan ég hef sett inn pistil hér á bloggið en ég er komin á þá skoðun að bloggið megi ekki gleymast þrátt fyrir stutt innskot á fésbókina. Skemmtilegir pistlar og þankagangur er ómissandi í tilveruna og þá kemur bloggið sterkt inn.

Mér finnst gaman að fylgjast með því að kreppan er smátt og smátt að lina tök sín á þjóðarbúinu enda höfum við Íslendingar alla burði til að koma sterk útúr þessum hremmingum. Landið er gott og gjöfult og við megum vera þakklát fyrir þau forréttindi að fá að búa hér og vera Íslendingar. Ég heyrði fyrr í sumar orðatiltækið "að ef grasið er grænna hinum megin er þá ekki kominn tími til að vökva hjá sér".....þetta eru mikil sannindi og því miður virðast of margir uppteknir við að hugsa um kreppuna og sitja kannski "með vatnsslönguna í hönd" og armæðast yfir ástandinu en það eina sem þarf kannski er að skrúfa frá krananum og byrja að vökva. Með öðrum orðum, horfa á tækifærin sem eru svo oft allt í kringum okkur en við sjáum þau ekki því við horfum svo mikið á "óveðursskýin". Við megum samt aldrei gleyma því að það birtir upp um síðir.

Annars er bara allt gott af okkur að frétta, við Erling erum blessuð af barnaláni og við erum nýbúin að fá þær fréttir að áttunda barnabarnið okkar mun fæðast um miðjan febrúar og ég gleðst svo sannarlega yfir því. Börn eru Guðs gjöf og blessun. Erling er að fara að byrja lokaönnina sína í Háskólanum og hún mun vera notuð í að skrifa mastersritgerð því hann er búinn með öll fög og hefur fengið mjög góðar einkunnir enda flottur maður þar á ferð og ég er afar stolt af honum og þakklát fyrir að leiðir okkar skyldu liggja saman fyrir 34 árum síðan og við höfum orðið þeirra gæfu aðnjótandi að ganga saman hönd í hönd og ekki fengið leið hvort á öðru heldur þvert á móti finnst okkur við ferlega skemmtileg :o)

Svona tími eins og í Kofanum núna notum við til að rækta garðinn okkar og hlúa að honum svo fegurstu rósirnar nái að vaxa þar.

Ég er kát, þakklát og elska lífið.....njótið daganna vinir því þeir eru góðir....

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Æðislegur pistill hjá þér mamma :) Sakna þess að lesa skrifin þín því þau eru svo notaleg :)
Hafið það gott áfram!
Þín Eygló