föstudagur, júní 03, 2011

Stóri prinsinn orðinn 4ra ára


Ég er þeirrar skoðunar að allir dagar sem við fáum úthlutað séu merkisdagar en þó eru auðvitað sumir dagar miklu merkilegri en aðrir. Í dag er einn af þeim dögum. Við Erling erum svo lánsöm að vera umkringd barnabörnum og í dag er eldri prinsinn í hópnum orðinn fjögurra ára gamall. Erling Elí fæddist á fallegum sunnudegi fyrir fjórum árum og varð strax einn af augasteinunum okkar afa síns og ömmu. Þessi litli stóri yndis drengur er flottur og duglegur strákur, alger prakkari og grallaraspói sem bræðir alla sem eru kringum hann en hann er sérstaklega hændur að Erling afa sínum og í hvert sinn sem ég kem ein í heimsókn til þeirra er ég varla komin inn þegar hann spyr um afa sinn og bara gaman af því. Erling Elí er sannur strákur og alger bíladellukall, elskar allt með mótora, geimflaugar og allt svona ekta stráka dót. Um daginn var hann hjá okkur og vildi endalaust hafa afa sinn með sér í að skoða jeppa í tölvunni og svo vildi hann sjá flott bíla DVD sem hann á.

Elsku Erling Elí minn, við afi þinn sendum þér bestu hamingjuóskir með daginn þinn og við hlökkum til að koma í veisluna þína. Þú ert alger Guðs blessun í líf okkar og við erum Guði þakklát fyrir þig. Láttu alla dekra við þig sem aldrei fyrr. Við elskum þig milljón hringi og aðeins fleiri líka litli stóri strákurinn okkar.

Engin ummæli: