miðvikudagur, júní 25, 2008

Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur.....

Það var fyrir um 36 árum, ég var í 11 eða 12 ára bekk og kennarinn fékk þá snilldarhugmynd að láta bekkinn fara að skrifast á við jafnaldra okkar í Danmörku.
Eflaust hefur þetta átt að efla dönskukunnáttu okkar og hefur líka sennilega virkað allavega í sumum tilfellum. Ég fékk pennavinkonu sem bjó á Bornholm og hún heitir Bitten. Þetta var gaman og í stuttu máli sagt þá hefur vinátta okkar haldist í öll þessi ár.
Hún hefur nokkrum sinnum komið til Íslands með fjölskylduna sína og við Erling höfum nokkrum sinnum heimsótt hana í Kaupmannahöfn þar sem hún býr og starfar sem lögfræðingur í Fjármálaráðuneytinu. Einnig hafa foreldrar mínir og bræður notið gestrisni þeirra hjóna á danskri grund og við höfum getað komið með vini okkar til þeirra, það er aldrei neitt mál hjá þeim.

Þó við hittumst ekki oft þá er alltaf eins og við höfum hist í gær. Við sendum hvor annarri tölvupóst og þess háttar og um daginn þegar jarðskálftinn kom þá sendi hún strax póst til að fregna frá okkur.
Við Erling fórum austur á Skóga sl mánudag til að hitta þau hjónin og áttum með þeim skemmtilega kvöldstund. Þegar við komum inn og vorum búin að knúsast rétti Bitten okkur poka með 3 fallegum skálum, dönsk hönnun og sagðist hafa séð myndir frá húsinu okkar eftir skjálftann og að okkur veitti ekki af að byrja að safna glervörum upp á nýtt.

Í tilefni af 30 ára brúðkaupsafmæli okkar í mars vildu þau endilega bjóða okkur út að borða. Bitten hafði pantað borð á litlu og notalegu sveitahóteli undir Eyjafjöllunum og við Íslendingarnir vissum ekki einu sinni af tilvist þess, Hótel Anna. Maturinn var góður og félagsskapurinn enn betri. Við vorum að brosa að því að við svona ungar skyldum eiga 36 ára vináttu að baki og vorum sammála því að þótt maður hittist ekki oft þá ættum við alltaf samleið því það er endalaust hægt að segja frá því sem manni er dýrmætast, börnin og fjölskyldan. Hvað við störfum er forvitnilegt en langt frá því mikilvægast og þá skiptir ekki hvort við erum þetta eða hitt. Fyrst og fremst erum við Bitten mæður, eiginkonur og svo auðvitað vinkonur......

2 ummæli:

Íris sagði...

Ekkert smá skemmtileg saga um vinskapinn ykkar! Vonandi helst hann alveg til æviloka!
Hlakka annars til að hittast á morgun í sveitinni!
kv. Íris

Nafnlaus sagði...

Þetta er ótrúlegt. Ég fékk úthlutað sem pennavini við sama tækifæri strák sem heitir Ole, en okkar samband hefur ekki staðist tímans tönn. Annars á ég öll sendibréf sem ég hef fengið í lífinu og fór í það að finna gömlu bréfin frá Ole eftir að ég las færsluna þína.Sá þá að hann hafði átt heima rétt hjá þar ég bjó í Danmörku nokkrum áratugum síðar.